2016-08-09 07.42.27

Og þá á ég barn í síðasta bekk í grunnskóla. Hér heitir sá bekkur 9.bekkur. Hann á að sækja um framhaldsnám núna rétt eftir áramót. Honum fannst hvorki töff né kúl að ég hafi viljað taka mynd af  honum á fyrsta skóladeginum á síðasta ári grunnskólans. Hann gerði þetta fyrir mig útaf því að ég skipaði honum. Ég hótaði að ég myndi hringja í allar stelpurnar í bekknum og kalla hann rúsínurass og segja þeim að honum þætti gott að láta strjúka sér á mallakútnum.

2016-08-29 19.29.31

Hvað erða við skóla sem lætur öll yngri börn hlakka svona mikið til? Þetta er Bjútíbína með skólatöskuna sína, sem er í raun og veru dúkku burðarrúm, að bókstaflega bíða eftir því að verða 6 ára, svo hún geti líka farið í skóla.

2016-08-27 09.41.47

Annað sem gerðist í fyrsta skipti var að ég fór að vinna í vinnunni hjá Eiginmanninum. Ég var í kokkafötum og allt. Ég bjó til tvær gerðir af salati sem ég pakkaði í box og merkti með límmiða. Svo hrærði ég í stæðstu eggjahræru jarðar. Þá braut ég 240 (ekki að djóka) egg í risastóran og djúpan bakka, sem ég síðan helti 8L af rjóma útí og hrærði svo í með töfrasprota. Þá smurði ég samlokur með skrítnasta áleggi sem ég hef á ævi minni heyrt um (steinseljusmjör, estragonmajónes, spröð salat…) og skar svo í jafnstórar sneiðar tvö, mjög löng franskbrauð og gerði úr því skinkusamlokur, þær voru svona 50 talsins.

Þar fyrir utan tróð ég salathausum í einhverja rif-vél.

Þetta var ævintýri. Ég sagðist ekki koma aftur til vinnu þarna nema fá borgað fyrir það. Hann var reyndar svo heitur í kokkafötunum að það er möguleiki að ég muni láta tilleiðast aftur.

2016-08-21 11.14.14

Ahhh. Fagri. Við erum í óða önn á öllum sunnudögum að grafa upp restina af uppskerunni. Eftir eru rauðrófur, tómatar, maís, vorlaukur og blóm.

2016-08-21 11.13.46

Þetta er mynd síðan þarsíðast. Þá tókum við upp laukinn. Ég hef aldrei ræktað lauk áður. Þeir voru risastórir og svakalega lyktuðu þeir vel.

2016-08-28 08.45.02

Einhvern morguninn gerði ég pönnukökur (svona úr eggi og banana og haframjöli) og smúþí í morgunmat. Síðan þá, gólar litla dýrið “ska vi ikk lave pandekage og smúúúðí?”. Það er svo sætt að það er ekki hægt að segja nei við hana. Þarna er hún að setja allt hráefnið sjálf, í smúþíinn.

2016-08-28 09.29.20

Frekar ánægð með sjálfa sig. Hún er 3 ára og er oft ekki í neinum fötum. Þú veist, bara svona eins og venjulegt 3 ára barn. Og hún er því sjaldnar með eitthvað í hárinu. En, um daginn, þegar hún var eitthvað að bedúa fyrir framan klósettspegilinn, að ég smellti í hana teygju og spennu. Hún varð svo hrifin af sér að hún heimtaði að fara í náttkjól og vaknaði alveg í sjokki þegar hún uppgötvaði að allt fíneríið var dottið úr hárinu. “Hvó mín óstík?” (Hvor er min elastik, sem þýðir hvar er teygjan mín).

2016-08-28 09.29.28

Diddmundur aðeins minna æstur yfir eigin útliti og morgunmatnum.

Afhverju engar myndir af eldri ormakrökkunum? Því þau eru í sínum eigin heimi bak við luktar herbergisdyr.

2016-08-26 16.45.43

Síðasta föstudag datt inn alveg húrrandi gott veður. 28 stiga hiti um eftirmiðdaginn. Góðar líkur á því að þetta hafi verið síðasti strandveðursdagurinn og ég ætlaði sko ekki að missa af því.

Ekki Bína heldur.

2016-08-26 16.21.48

Hún er svo óhrædd blessunin. Það er næstum því til vandræða. En afstað skundaði hún og naut sín vel.

Ok. Svo um daginn, þegar við vorum að fara út með smábarnið til að viðra úr henni alla orkuna, ákváðum við, eða ég, því ég var komin með ógeð á leikvellinum fyrir utan húsið, að fara á annan leikvöll. Við höfum farið á hann áður og finnst hann skemmtilegur.

Á honum er trampólín. Það er auðvitað ætlað börnum en fullorðnir geta alveg hoppað á því. Það gerðum við auðvitað og fannst hvað fyndast hvernig það er eiginlega varla hægt að hoppa á svona trampólíni án þess að hlægja og alls ekki, verandi komin yfir einhvern ákveðinn skinnstyrkleikaþröskuld, hægt að vera með andlitið einhvernveginn á sínum stað.

Eiginmanninum fannst hann þurfa að afsanna að þetta væri bara svona og ákvað þessvegna að prufa að hoppa með alveg slakt andlit og mátti ekki brosa.. ég verð að viðurkenna að mér finnst þetta alveg mígandi, mígandi fyndið.

2016-08-20 11.19.53

Haha! Sjáðu bara! Hann er að hoppa með slakt andlit.

2016-08-20 11.19.54

Heeeehehehe. ÉG mana þig til að prufa. Og þegar þú prufar, verðuru líka að vera með alveg beinar og slakar hendur. Eiginlega bara eins og þú sért ekki sjálfviljug/ur að hoppa. Meira ruglið.

2016-08-20 11.11.46

Ég gat þetta ekki. Hendurnar á mér og hárið fóru útum allt og ég gat með engu móti haft andlitið slakt.