Mál málanna. Árið 2020. Ég veit ekki með þig en þetta var eitt flóknasta ár í mínu lífi hingað til. Eins og fyrir svo marga! Hvað var/er eiginlega að gerast ? Ég er ekkert endilega viss um að þetta sé tímabil sem er búið. Það byrjaði amk ekki 1. jan 2020 fyrir mig heldur fyrr. Ég er hér að eiga við ættgengan vilja til að hafa vaðið fyrir neðan mig og vera svolítið svartsýn, eða er þetta kannski bara að halda sér á jörðinni? Þó ég vilji það þá er nú ekki endilega víst að bara þó það hafi komið 1. jan 2021 að tímabilinu sé lokið. Ég meina.. það er þegar búið að kveikja í Félagsheimlinu á Hvammstanga (ekki alvarlegt) og rafmagnið fór af í gærkvöldi, öllum til gusu af köldu vatni milli skinns og hörunds og mikilla hlaupa inní geymslu að sækja súperbjarta lukt úr Costco. Veit að allir og ég meðtalin eiga eins lukt úr Costco, sem er ekkert nema brill, kona prjónar ekki mikið bara með kertaljós. Rafmagnið var af í að ég held 30 mín eða eitthvað þannig, það var alveg nóg til að meðlimir Félagsbúsins fóru yfir hvað gera skyldi ef kæmi í ljós að þetta yrði í einhvern tíma. Við myndum bruna suður til múttu eða pabba. Ekki laust við að ónefndir meðlimir (ekki ég) hafi skrúfast svoleiðis upp í ég eiginlega veit ekki hverju sem lýsti sér í að yngri meðlimurinn (Herforinginn) talaði og söng útí eitt og sá eldri (Hr. Skrúðvangur) gekk um gólf í sí-endurteknu mynstri milli glugganna.. eins og það sæist eitthvað út.. sem það gerði ekki, það var algjörlega svart.

Við vorum mjög fegin að ekki var óveður, eiginlega frekar vorveður.