Muniði þann 29.ágúst þessa árs.. þá fyrir u.þ.b 3 vikum síðan sagði ég frá því að hér hefði dottið inn svakalega gott veður og að við hefðum alveg skundað niður á strönd til að missa ekki af síðasta tækifærinu til þess. Í stuttu máli hefur verið berleggja-veður síðan og þessi mynd er ekki tekin í sömu strandferð og þann 28.ágúst, heldur síðustu helgi, þann 10.september.

strandferd

Allir nema Geðmundur, hann var að “djamma” kvöldið áður og svaf. Þarna erum við, ég og börnin búin að grafa holu. Eða það var Fagri sem byrjaði, hann gróf af svo miklum ákafa að ég gat ekki annað en byrjað að grafa líka. Það og litla dýrið var alltaf að hoppa ofaní holuna svo það var eiginlega ekki um annað að ræða en að grafa eina sem hún mætti eyðileggja.

Svo, ef þú ert með tvær holur hlið við hlið, þá er eiginlega ekki hægt annað en að grafa göng á milli. Sem við og gerðum. Nú og svo þegar þú ert kominn með tvær holur og göng á milli, sem nótabene hrundu  ekki þó mini-skriðdrekinn skriðdrekaði yfir brúna, þá er eiginlega ekki hægt annað en að sækja vatn, hella í aðra holuna og láta flæða í hina. Þetta gerðum við Fagri, þ.e sóttum vatn. Við vorum með tvær litlar fötur og eina hálfslítersflösku.

Þar sem þetta er sandur þá hvarf vatnið óþarflega fljótt ofaní þannig viðþurfutm eiginlega að hlaupa á milli sjós og holu. Hann með tvær fötur og ég með eina hálfslítersflösku.. þetta hófst á endanum…

sunneva-a-strondinni

Ég veit ekki hvað þetta frímerki með mynd af mér er að gera á þessari mynd. Eitthvað sem síminn hefur ákveðið sjálfur. Fröken Fix að tana.

sidustu-gardverkin

Síðasta sunnudag var síðan síðasti í skólagarði. Við enduðum á að taka upp rauðrófur, púrrulauk, rest af steinselju og svona 100 litla tómata. Allra síðasta verkið var að taka upp maís plönturnar og keyra þær í gegnum kvörn og sturta svo yfir garðinn sem áburð fyrir næsta ár. Allt mátti verða eftir nema tómatar, kartöflur og blómin.

Ég elska skólagarðinn. Ég vil flytja þangað. Svo friðsælt og dásamlegt. Það er síðan ákveðinn sigur fólginn í því, fyrir mig og Eiginmanninn, að hafa verði þarna frá byrjun til enda. Þú veist, stór fjölskylda, miiiiikið að gera og fleira getur oft orðið til þess að svona gæluverkefni detta uppfyrir þó svo að allur ásetningur hafi verið góður og staðið til að fara alla leið. Þannig er ég frekar stolt af okkur fyrir að hafa verið þarna síðasta skiptið og þegar átti að planta öllu og mætt alla sunnudaga nema þegar ég var á sjúkrahúsi og þegar við vorum að skvandrast eitthvað í sumarfríi.

Það eru litlu hlutirnir krakkar mínir, litlu hlutirnir!

tre-med-augu

Alltílagi. Fyrst við vorum búin að kíkja á skólagarðana ákváðum við að kíkja líka við í bæjargarðinum sem við erum með. Ef þú kíkir bakvið þetta tré, sem sannarlega virðist vera með augun hjá sér, sérðu glitta í kassana þar sem við erum að rækta. Við vorum bara með einn kassa, svo voru aðrir með hina kassana. Get ekki montað mig eins mikið af því hafa annast þennan kassa eins vel og skólagarðinn. Litlu hlutirnir aftur, litlu hlutirnir.

ekki-svo-olik-eftir-allt

Fór með eldri börnin í augnskoðun í gær. Þrömmuðum niður á Amagerbrogade til Lúí Nílsen og í tékk. Allt með kyrrum kjörum þar og ég ákvað að eymingja börnin sem fá aldrei neitt myndi verða boðið uppá bakaríismat. Aðal ástæðan er samt að þar sem það er búið að vera fáránlega mikið að gera í vinnu hjá mér og Eiginmanninum þá hefur enginn hvorki þrifið né verslað. Það var þrisvar innkeyptur matur í síðustu viku og þar með jafn oft og allt síðasta ár, já ef ekki síðustu tvö ár.

Það sem er skemmtilegt finnst mér við þessa mynd, svona í ljósi þess að ég er alltaf að gaspra um hve ólík þau eru, er einmitt hvað þau eru svakalega lík á þessari mynd.

ekki-svo-olik-fodur-sinum

Fröken Fix. Hún hefur breyst svakalega mikið frá því hún var lítil. Var ég búin að segja ykkur frá því, þegar ég reif upp hurðina að herberginu hennar  (sem ég geri títt) um daginn og mundi ekki hvað ég ætlaði eiginlega að segja því um leið og ég opnaði sá ég föður hennar, eins og hann var fyrir 20 árum síðan. Hún var nefnilega með skipt í miðju og er með alveg eins hár og hann.

Ég vissi bara ekki hvaðan á mig stóð veðrið, þau voru alveg eins.

thorolf-spejderne

Þetta eru skátarnir á Íslands Bryggju. Þeir heita Thorolf. Seint í síðustu viku ákvað þristurinn minn að hann skyldi fara í helgarlangt ferðalag með skátunum. Það fyrsta síðan hann byrjaði. Einhvernveginn var þetta ekki ákveðið fyrr en á þriðjudaginn síðasta. Var ég búin að nefna að það var vangefið mikið að gera hjá okkur í síðustu viku?

Já, s.s. Við í búð á miðvikudaginn til þess að kaupa allskonar skátagræjur. Það vegna þess að við eigum EKKERT til sem heitir útilegu ekkert. Var ekki einusinni búin að fjarfesta í regnfötum fyrir veturinn, enda svo gott veður ennþá.

Við versluðum bakpoka, svefnpoka, höfuðljós, einhverja króka, skátabelti og fleira dótarí. Já, gleymdi að nefna að fyrr í vikunni, eða á mánudaginn, var Eiginmaðurinn búinn að þramma með hann að kaupa skátabúninginn.

Það kom síðan í ljós að það voru ekki til regnföt þarna og ég hugsaði með mér, ég stekk í Fields og sæki regnföt bara á föstudaginn strax eftir vinnu. Sem ég síðan gerði bara í hægðum mínum enda átti hann ekki að vera mættur fyrr en 17:45.

EÐA, HÉLT ÉG!

Ég hringdi í Fagra einhverntíma og bað hann að taka til það sem hann finndi af listanum sem við höfðum gert kvöldið áður. Hann var búinn að því. Ég minnti hann á að fá sér að borða og svo lullaði ég af stað heim, alveg svakalega góð með mig berleggja í pilsi og bol.

 

Einhverra hluta vegna (og ég þakka mínum sæla) ákvað ég að kíkja á tölvupóstinn um ferðina og tvöfalt-tékka brottfarar tíma. Mér til hárrisu, andateppu og hjartsláttastöðvunar var brottfarartími kl. 16:45 frá skátaklúbbnum, sem fyrir þá sem vita staðhætti, er við hliðina á skólanum þeirra, eða svo gott sem.

Ok.. ég er á brókinni þegar þarna er komið við sögu, því það var svo heitt. Ég er s.s að stara á tölvupóstinn og símann minn til skiptis, á brókinni, til að reyna að láta sannleikann breytast þannig að það sé ekki satt að klukkan sé 16:37 og að hann eigi að fara af stað eftir 8 mínútur og hann ekki búinn að pakka niður.. og ég á brókinni og við eigum eftir að hjóla í 15 mínútur út í skátahús.

Ég hef alltaf talið mér það til kosta að geta verið mjög snögg að hlutunum og mjög snögg að taka ákvarðanir og að hendurnar á mér geta stundum verið eins og þyrluspaðar. Sonur minni yngri hefur enganveginn erft þessa ofurhæfileika mína en ég náði samt á einhvern undraverðan hátt að troða því sem vantaði í bakpokann, skipa barninu í skó og tæta, sko ég meina tæta af stað. TÆTA.

Ég fór í pilsið aftur og hjólaði eins og skrattinn væri á hælum mér. Ég hjólaði svo hratt á ömmuhjólinu mínu að pilsið flettist uppfyrir miðju en mér lá svo á að ég skeytti engu um það. Athugaðu að klukkan er 16:40 núna á föstudegi.. mikil umferð.

Ég er s.s með pilsið uppi, með risastóran bakpoka á bakinu, eldrauð í framan af áreinslu, með galopin augu og skældan munn að stíga hjólið eins og ándskotinn, eiginlega búin að gera hálfgerða kryppu á bakið og setja undir mig hausinn (er með hjálm líka). Olnbogarnir svona út til beggja hliða, með Fagra í eftirdragi sem líka hjólar eins og fætur toga.

Við komumst í klúbbinn kl 16:52. Hann fór af stað með það sama. Það liðu s.s 20 mínútur frá því að við vourm ótilbúin heima þar til ég var lögð af stað aftur heim.

sindri-spejder

Hann skemmti sér konunglega. Lærði 4 nýja hnúta. Eldaði mat yfir báli og grillaði sykurpúða. Var vakinn um miðja nótt (eða á miðnætti) til að gera skátaverkefni (heitir nætur-ganga eða eitthvað í þeim dúr) og var hissa á því að stelpurnar sem hann gisti í tjaldi með (3 strákar og 4 stelpur) töluðu og töluðu og hann gat ekki farið að sofa fyrr en klukkan 22 :O

sindri-spejder-klump

Við Bína bóndakona sóttum hann síðan áðan. Allir á þessari mynd eru í bláum fötum. Ég veit ekki hver á þennan afturenda þarna til hliðar. En Bína er alveg handviss um að hún ætli í skátana þegar hún verður stærri. Á dönsku heitir þetta spejder (sagt “spædahh”  = skáti), og hér er talað um klúbb í öllu, fótboltaklúbbur, þú veist, á móti fótboltafélag. Og þessvegna er þetta spejderklub, nú eða spædahh khlúmpfhp eins og hún segir.

Samkvæmt veðurspá á góða veðrið að halda áfram aðeins áfram, en ekki með hitastig yfir 15 gráður að mér sýnist. Ótrúlega heitur september verð ég að segja.