5. september síðastliðinn, þá á síðasta ári, þá var ég að tala um alla hlutina sem gerast oft í lífinu, þar á meðal er sú staðreynd að við fluttum aftur í sama hús og við bjuggum í árin 2003 til 2006. Reyndar fluttum við svo mikið í sama hús að við keyptum það .. aftur.

Það sem er stórkostlegt er að við yfirhöfuð erum með fast húsnæði hér á þessum síðustu og verstu. Það sem er ennþá stórkostlegra er að hús sem við töldum vera alltof lítið fyrir okkur árið 2006, þá nýlega komin með Diddmund í hendurnar, er ennþá jafn lítið en við erum samt 6. Auðvitað verður að setja þetta í samhengi, ef við hefðum búið í þessu húsi frá 2006 og þar til 2019 þá hefði það pottþétt verið of lítið.. því við erum 6 og hefði sennilega verið óþægilega þétt setið á efri hæðinni (sem þegar við vorum hér síðast hafði bara 2 svefnherbergi) en núna er auðvitað Herra Prins fluttur að heiman, býr hér í sömu götu en 30 húsnúmerum frá okkur, til suðurs. Og á meðan við ekki vorum í húsinu þá voru sett upp 2 önnur herbergi uppi, þannig þar eru 4 herbergi núna.

Ég er með öllu ástfangin af þessum að ég held 120 eða 130 fermetrum og fruntalega stóra garði sem ég horfi útum gluggann á, á hverjum degi og skipulegg hvar kálgarðurinn, gróðurhúsið og garðhúsið á að vera. Með hvaða tæki ég á að tæta upp runnana svo ég geti sett þar grindverk og hvort ég eigi að halda áfram að hafa trampólín eða ekki. Hvenær ég fæ mér heitapott á pallinn, hvenær næsti skammtur af hænum á að flytja í litla skúrinn sem er hér á lóðinni og bíð með óþreyju eftir að veður leyfi að ég máli hann.

Hvernig er það eiginlega að virka sama að tíminn bæði flýgur áfram og ekki? Það er alltaf mánudagur en þessi vetur ætlar samt aldrei að líða.