Það er margt sem gerist oft í lífinu. Nú gætum við þurft að þrátta um hvort ef eitthvað gerist tvisvar að það sé oft. En til tíðinda hefur dregið í Skrúðvangi. Þar búa núna 15 hænur. Þú manst.. þarna um árið í Keflavík, þá áttum við líka hænur. Þær voru bara þrjár og bjuggu í kofa í trjábeði. Þessar hænur hafa fengið sérsmíðaðan og sérhannaðan kofa. Hann var hannaður á staðnum af mági mínum sem kom hér með fjölskyldu sína á ferðalagi. Með honum var maður frænku Eiginmannsins – ég veit ekki hvort hann ber einhvern titil gagnvart mér, svilfrændi minn? Hún, frænka Eiginmannsins, á amk flottasta afmælisdaginn, eða það er að segja hún á minn afmælisdag :) En þeir ss rigguðu upp grindinni að kofanum og fleiru og svo kláraði Eiginmaðurinn rest. Eða kláraði er ekki rétt til orða tekið því hann er ekki alveg tilbúinn.

Þessi mynd er tekin daginn eftir að við skveruðum okkur til Stokkseyrar og stóttum þangað 16 hænur. 6 af tegundinni Sussex (engin af þeim á þessari mynd) og 10 af tegundinni Easter Egger. Já, þessar tegundir valdi ég fram yfir hina rómuðu íslensku landnámshænu vegna þess að þær eiga að verpa eggjum sem eru ekki hvít. Undir niðri er ég ekki á móti öllu sem er íslenskt og mér finnst íslenksa landnámspúddan falleg en krakkar, það er bara svo margt annað til líka.

Þessi mynd er aftur tekin bara fyrir tveim dögum eða svo. Þarna sést í Sussex hænuna. Þær eru allar eins og hafa fengið nafnið Elísabet. Það er vegna þess að þær eru breskar og eru stærri en hinar og eru drottningarlegar. Þarna sést líka að Eiginmaðurinn hefur hafist handa við að einangra kofann, ekki seinna vænna því fyrsta næturfrostið er mætt á svæðið… altsvo, reyndar er töluvert síðan fyrsta næturfrostið kom og felldi kartöflugrösin, það var 20. ágúst. Fyrsta alvöru frostið kom aðfararnótt síðasta þriðjudags, þar sem ég þurfti að skafa bílinn og grasið var grátt.  Við tókum hinsvegar ekki upp kartöflurnar fyrr en í fyrradag og maður lifandi! Þær voru stórar og æðislega góðar. Settum ekki niður fyrr en einhverntíma í júlí, ég er þá bara nokkuð ánægð með að hafa fengið eitthvað.

Númm, þú kannt að höggva eftir því að í upphafi færslu nefndi ég að við værum með 15 hænur. En segi svo síðar að við hefðum sótt 16 stykki. Það var nefnilega þá þannig að tveim dögum eftir að þær komu þá fór ein Elísabetan í óskipulagða óvissuferð í algjöru leyfisleysi. Og hún hefur ekki sést síðan. Hvert hún hefur farið er þá ráðgáta og enginn veit hvort hún mun nokkurntíma sjást aftur. En skemmtilegar eru þær.

Kofinn verður síðan klæddur með áframnýttu bárujárni frá bænum fyrir ofan veg. Ég er að íhuga að mála hann hvítan með rautt þak en er ekki ákveðin. Finnst það eitthvað svo fyrirsjáanlegt. Annars á hann að heita Hænsnakot. Þær verða þá frænkurnar í Hænsnakoti.

Og Herforinginn er byrjaður í skóla! Vá, vá, vá hvað tíminn líður! Ekki að það séu neitt nýjar fréttir (þarna sést síðan glitta í gómsætu kartöflurnar úr garðinum). Það er meira átak fyrir okkur að fara í heimalærdómsfasann á hverjum degi heldur en hana að læra að lesa. Við höfum aldrei þurft að fara í heimalærdóm með börnunum okkar. Það var bara ekki þannig úti. Bara einstaka verkefni ef eitthvað var. Og auðvitað heimalestur… en þetta er bara eitthvað öðruvísi.

Allavega. Já og svo fluttum við inná Hvammstanga í endann maí. Gerðist mjög snögglega ofaní allt annað. Segi frá því síðar :)