Eitt af görnunum sem ég hef verið að lita.

Hér, í veldi Danans, er ótrúlega og óheyrilega leiðinlegt veður. Þú veist.. veður getur verið meirihátta fallegt og hrífandi þó það heiti risarok, roknahríð eða rífandirigning (allt veðurnýyrði eftir sjálfa mig).

Það er ekkert sem sogar mig meira inní núið og náttúruna heldur en þegar ég anda að mér últra hreinu lofti í logni eftir mígandi rigningu.

Ekkert fallegra en alltof mikið af snjó, sem brakar í, sem glitrar á í sólinni og lýsir upp skammdegið.

Ekkert huggulegra en að vera ekki úti í hríðarveðri, heldur inni að gera eitthvað, líka þó það séu hversdagsverkefni eins og að þrífa kamarinn eftir að allir sem ekki hafa neina píku, migu fyrir utan það.

Ég man alveg eftir meira spennandi vetrarveðrum hér úti heldur en þennan veturinn. Jedúddamía! Þoka, rigning, rok og almennt bara hundóspennandi veður.

Reyndar er komið aðeins meira vor, eða ætti ég að segja páskar eru greinilega að nálgast, þetta eru örugglega páskaliljur að vaxa þarna í blómakassanum í tónlistaskólanum.

Allir dagar eru oft svo eins að ég er í mesta vanda með að muna hvað ég hef aðhafst í vikunni sem leið. Það er bara svona, vinna, éta, sofa. Voða lítið annað.

Bakaði auðvitað bollur, eins og alvöru húsmóður sæmir. Allir sem hafa lesið hér með, núna bráðum í 10 ár, ættu að vita að ég get ekki bakað vatnsdeigsbollur. Það mistekst alltaf. Í hvert einasta skipti. Alltaf!

Ég ætlaði að leita uppi færslur hérna á blogginu til að sanna það fyrir ykkur að þið ættuð að vita það en fann bara eina, hún er hér. Í leiðinni og ég leitaði fann ég að ég hafði einhverntíma skrifað um að þegar fólk vaknar í hádeginu sé það ekki að vakna í morgunsárið heldur í morgunhrúðrinu… og síðan fór ég einhvertíma mikinn þegar ég var búin að skrifa hér inn 500 færslur (þessi færsla er númer 1019) um óágæti Smágústu Flónson.

Ég verð að viðurkenna að ég man ekki helminginn af því sem ég skrifa hér inn – og er iðulega hissa þegar ég rekst á eitthvað og skil ekkert í sjálfri mér að þræta svona við interfretið.

Við átum samt blessaðar bollurnar sem voru hálfflatar en samt holar að innan, eiginlega eins og barnlaust leg. Tróðum í þær rjóma auðvitað og svona. Súkkulaði og sultu. Og það sem var ekki étið á sunnudaginn át ég daginn eftir. Ein. Ég ætti kannski að yfirfæra ráðin hennar Smágústu yfir á bolludaginn og bolludagshelgina.

Ég er með margar hugmyndir í gangi þessa dagana. Ég er að ýta úr vör verkefni sem ég er að vinna samviskusamlega með sjálfri mér, þar sem ég ætla að taka þátt í að afplasta jörðina. Segi betur frá því síðar.

Þá er ég að lita allt garnið og er loksins búin að ljósmynda það og græja myndirnar til. Reynist eitthvað erfitt að finna útúr því hvað ég á að nefna litina. Allir krakkar sem eru kúl og eru að lita garn nefna alla litina eitthvað ótrúlega töff. Mér dettur ekkert töff í hug, enda aldrei verið töff (sit í þessum töluðu í of litlum (skruppu í þvotti) mynstruðum buxum úr HM sem eru með siginn rass sem festist alltaf á milli rasskinnanna á mér þegar ég beygi mig niður og reisi mig svo við aftur, og hné í þeim líka og doppóttri hettupeysu).

Þannig ég brá á það ráð að spyrja SnapChat vini mína (ég er “skritin” þar ef þú vilt bæta mér við) hvað þeim dytti í hug þegar þau sæu þennan lit:

Eftirfarandi kom upp:

  • Framboðslisti Dögunar
  • Niðurgangur
  • Ertu ólétt? …og áttu að eiga í október (Hinrik, það er samt þá eins og ég væri að segja frá getnaði meðan ég var ekki einusinni komin í nærbuxurnar eftir hann, ef ég ætti að eiga í október ). Við þessu segi ég auðvitað að næsta barn sem fæðist í minni fjölskyldu verður barnabarn, ekki barn.
  • Íþróttafélagið Kormákur
  • Barnaniðurgangur
  • Bananasplitt
  • Van Gogh
  • B sys sagði eitthvað sem ég man ekki hvað var

Sko, til ykkar sem sögðu niðurgangur.. ehh?? hehe! Framboðslisti Dögunar fannst mér nokkuð gott í þeim skilningi að garnið gæti alveg heitið Dögun, svona gult og fjólublátt, nótt mætir degi. Kormákur líka, gæti verið gott nafn. Geymi það kannski fyrir eitthvað annað.

Flottast var og sigurvegari er “Van Gogh” – útaf því að það er mest listamannslegt og ég er listamaður, nú eða kona.

Mun senda lýðnum fleiri litaprufur í von um að fá hugmyndir að fleiri nöfnum. Gott að eiga vini :)

Annað var það ekki að sinni görnin bóð.