Póstur númer 500. FIMMHUNDRUÐ. Þetta er eitthvað sem ég ætti að fá rithöfundaverðlaun fyrir.

Ég vil byrja á því að þakka pabba mínum og mömmu fyrir hvað það er frábærlega vel í mig hnoðað, en aðallega ömmu Hlíf fyrir hvað hún er skemmtilegur penni.

Svo vil ég þakka Nýja Eiginmanninum mínum og börnum, sem og öllu fjölmiðla liðinu á Íslandi fyrir endalausan innblásturs til kvarts.

Og hefst þá kvartið:

Ég kom heim núna rétt í þessu, syngjandi kát yfir hvað ég er alltaf að gera marga skemmtilega hluti. Opna tölvuna til að skoða eitthvað yfir ristabrauðinu með banana og kakóglasi og fyrsta sem ég sé er alveg æðislega fjólublár banner í skrifþætti Mörtu Maríu á mbl.is, sem á stendur ” 5 ráð fyrir þá sem vilja ekki breytast í fitubollur um jólin” (eða eitthvað í þá áttina).

Þar er s.s að finna pistil eftir Ágústu Johnson sem heitir 5 skotheld ráð til að forðast jólakílóin. Pistillinn er skrifaður til mín og kynsystra minna.

Fyrsta ráðið er að maður eigi að gæta hófs. Þar stendur:

“Það er sjálfsagt að smakka  á spennandi kræsingum en mundu eftir þrjá konfekt mola að þeir smakkast allir líkt.  Svo fáðu þér einn mola og njóttu bragðsins og félagsskaparins ”

Ég finn hvernig mér líður yfir að lesa þessa setningu en að koma því í orð er eitthvað erfitt. Mér finnst hún móðgandi í því samhengi að það er allt vaðandi í svona greinum. Greinum sem eru ætlaðar meintri konu útí bæ sem hefur það  fyrir dægradvöl að standa við matarborðið, eða í veislunni og bara hreinlega troða í sig öllu sem á borðinu er, maka því á munninn á sér. Ég er að tala um eina sem, að öllum líkindum, lítur sirka svona út, í höfðinu á “svona” pistlahöfundum, s.s svona: Smá feit (aren’t we all?…og líka WHO CARES!?!), með pilsið girt ofaní að aftan, í mishnepptri peysuskyrtu (enginn veit hvernig flík þetta er) og með lykkjufall í sokkabuxunum. Varalitinn á skakkt og köku á milli tannanna.

Ráð tvö er um að halda nú áfram að æfa í desember þó það sé mikið að gera við jólaundirbúninginn.

“Taktu t.d. styttri æfingar með mun meiri ákefð, þannig eru líkur á að þú fáir jafn mikið út úr 30 mín. æfingu og þinni venjulegu 60 mín æfingu.”

Hvaða… taka styttri æfingu með meiri ákefð… og þannig eru LÍKUR á að maður fái jafnmikið úr æfingunni. Reiknisdæmislega séð er það kannski rétt, en dúd..ef maður er þessi kona sem pistlahöfundur virðist vera að tala um þá er þetta nú bara eins og að segja, þú stendur hvort sem er á nöfinni, hoppaðu bara frammaf.

Ráð 3. Borða reglulega. Ég er ekkert á móti því . Mætti jafnvel taka mér þetta ráð og borða sjálf reglulega.

Ráð 4. Þarna erum við hvattar til að hugsa framávið, með því aðhugsa til baka hvað okkur leið illa síðasta janúar…þetta er orðað sirka svona:

“Hvernig var það í fyrra?  Gastu varla rennt upp buxnaklaufinni eftir jólin? Hugsum fram á við, komum í veg fyrir að við vöknum upp við “vondan draum” í janúar þegar við komumst að því að buxnastrengurinn er orðinn óþægilega þröngur. ”

Ég er svo hneyksluð að ég get varla talað. Það er eins og Ágústa Jónson sé að skamma litla stelpu sem neitar að hafa étið sleikjóinn en fattar ekki að hann hangir fastur í hárinu á henni.

Nú, síðasta ráðið er eiginlega fyrsta ráðið, þar sem enn erum við hvattar til þess að borða hóflega. Ég er ekki að mæla á móti því að borða hóflega. En hún virðist halda að í jólagræðginni hafi við konur tilhneygingu til að sitja að áti allan tíman og eyða engum tíma með fjölskyldunni, sbr:

“Spáðu í það hvort þú getir ekki notið hátíðarinnar jafn vel og áður þó að þú bakir færri smákökusortir, setjir minna á diskinn þinn, borðir lítið af gotteríi og eftirréttum og leggir meiri áherslu á að njóta samverunnar við fjölskyldu og vini og finna hátíðleikann í gegnum aðra hluti en veislumat og kræsingar.”

Greinin er í raun og veru svona pepp talk, þar sem við erum æstar uppí að finnast við vera ömurlegar og hafa enga von á að stjórna hvað við setjum ofan í okkur, því hún endar með því að bjóða okkur á námskeið í líkamsræktarstöðinni sinni. Námskeið sem kostar friggin 25.000 krónur.

Ég er brjáluð í skapinu yfir þessari grein og öllum hinum svona greinunum sem konur skrifa handa hinum konunum. Þetta er svo mikið kjaftæði útum rassgatið að það hálfa væri nóg. Ég veit t.d ekki um neina konu sem hættir bara að vera viðriðin fjölskyldu sína fyrir jólakökuáti, eða aðra sem leggst á kökuborðið og rúllar sér uppúr rjómatertunum.

Mér finnst svona greinar ýta undir fjölmiðlatilbúið álit á konum. Kannski er ekkert skrítið að það sé kynjamisrétti því karlar og líka konur, hugsa þannig til kvenna að þær séu bara stjórnlausar og geti ekki gert neitt fyrir því hve gráðugar þær eru. Hugsa kannski, þegar það er verið að ráða í stöðu þar sem karl og kona sækja um, að láta það vera að ráða konuna því hún mun jú bara tapa sér og missa glóruna í desember.

Aftur, ég þekki enga svona konu. Ég held að þær séu ekki til. Ég held að þær séu langflestar bara venjulega einstakar eins og ég sjálf, frú hátign.

Ég skáka hér með Smágústu Flónson með betri fimm ráðurm:

1. Anda inn og út

2. Vertu óhrædd og taktu af skarið, bara eitthvað skar, getur verið eitthvað sem enginn sér, skiptir engu máli. Það eru litlu skrefin sem skipta máli.

3. Hrósaðu sjálfri (og þú sjálfum þér) í hástert! Rólegan mysing, ekkert við alla, það er mont, heldur bara í hljóði við sjálfa þig.

4. Þetta með jólin.. þau koma og svo fara þau. Fullkominn ytri rammi gerir þau ekki sérstakari í augum neins. Þú velur hvernig þinn rammi er fullkominn, ekki Ágústa Johnson.

5. Vertu sátt.

Nóta bene, það þarf ekkert að gerast áður en þú tekur mín frábæru ráð að þér, þarft ekki að gera neitt fyrst.