Við fórum í fótósjút um helgina útí skógi til þess að taka myndir af þeim peysum sem ég hef verið að prjóna, sem ég síðan set upp á Etsy þar sem ég er að selja peysurnar. Þarna er Eiginmaðurinn að reyna að stilla mér, hinu ómögulega módeli, upp og Sprengjan er myndsmiðurinn. Góður dagur verð ég að segja. Fleiri myndir síðar kannski.

Tunglið er um mánuð að fara hringinn. Það er útborgað um mánaðarmót. Það er verðlauna tími fyrir konur sirka á mánaðar fresti. Aðallega, og í ljósi ræðuhalds míns um peninga  (og hér), eru það mánaðarmótin sem fara í taugarnar á mér og þetta eilífa munstur sem ég hef verið föst í: 1. -9. mánaðar= nóg af peningum til. 10.-17. mánaðar = peningaóttinn og spurningar um hvort við munum lifa af til mánaðarmóta byrja að gera vart við sig. 18.- 25. mánaðar = til bragðs er tekið að éta úr skápunum og alvarlegar íhuganir um hverju eigi að breyta til að þurfa ekki að lenda í þessari krísu aftur eftir nákvæmlega mánuð eru skrifaðar niður. 26. – 31. mánaðar = enginn peningur til.

Engum finnst þægilegt að vera svona öfgakenndur. Nóg til í viku 1 en ekkert til í viku 4.

Númm.

Eftir að ég byrjaði að vinna sjálfstætt þá fæ ég ekki lengur útborgað um mánaðarmót. Það er taugatrekkjandi sérlega þegar ég er ekki með pening í höndunum um sjálf mánaðarmótin. En í leiðinni, sé ég núna, mörgum mánuðum síðar, svolítið frelsandi.

Það er svolítið frelsandi að allt sé ekki lengur mælt í mælieiningunni “mánuði”. Mér líkar vel, ef ég kemst fram hjá því að fríka út yfir þeim reikningum sem ekki fást greiddir á réttum tíma, að það komi peningar inn á öðrum tímum líka. Það gerir oft viku 3 og 4 að vikum þar sem það er alveg til peningur.

Auðvitað get ég þá ekki lengur pantað mér tíma hjá þerapistanum eða tannlækni í byrjun mánaðar því þá veit ég að ég kemst, ég verð hér eftir bara að panta mér tíma og sjá til hvort ég kemst. Endurpanta svo tímann ef ég  kemst ekki.

En já, mér finnst eiginlega að þessi ofuráhersla á blessaðan mánuðinn megi fara að missa sín.