Sumartíminn er genginn í garð. Við erum þá formlega 2 tímum á undan þér sem býrð á Íslandi.

Ég finn með öllum líkamanum að vorið er komið. Það er sæt, einskonar berjalykt í loftinu, samt með smá þungum keim af, ég veit ekki hverju, blautu tré kannski. Það er meiri stilla í loftinu heldur en hefur verið undanfarið. Ekki endilega minna rok, eða jú, í dag, en bara meiri stilla. En samt eins og einhver titringur.

Ertu meðmér?

Titringurinn er ég að ímynda mér að sé útaf því að það er a l l t  að  f a r a   að SPRINGA ÚT! Eftir augnablik get ég tekið mynd út göngustíginn betra megin við húsið (þennan þar sem metró keyrir ekki meðfram) og myndin mun sína hvíta og ljósbleika slikju af blómunum á trjárunnunum sem blómstra fyrst.  Endurnar eru áberandi mikið á vappi saman, hjúin.

Það er líka mjög spes birta í lok dags. Ég var að hjóla heim úr tónlistaskólanum núna rétt í þessu, akkúrat þegar dagurinn og nóttin mættust. Það er ekki hægt að fanga þetta á (síma)filmu svo vel sé. Litirnir eru unaðslegir. Dempaðir, ekkert skærir eða neitt, bara svona mjúkir og dempaðir en samt iðandi af lífi.

Brún og ennþá lauflaus tré í skóginum, ljós-blágráblár himinn og svo villt, tryllt og víbrandi appelsínugult sólarlag í fjarska.

Skógurinn lokkaði mig til að hjóla í gegnum sig. Ég ætlaði að hjóla mína venjulegu leið eftir malbikaða hjólastígnum í gegnum stuttan part af skóginum en hann kallaði á mig, ég sverða. Þetta er ca 10 mínútna leið. Í upphafi var birtan eins og ég lýsti áðan, ég sá klárlega brúnleit tré, ljósbrúnan hjólastíg, mattan, en ljósan grábláan himinlit og ljósljós-skægrgular gresjur á milli trjánna.

Þó svo að Amagerfælled sé staðsett mitt inní borginni og er eiginlega orðið frekar gisinn og lítill skógur (heimafólk telur þennan skóg bráðum geta kallast “garð”) þá er samt hægt að leyfa skóginum að gleypa sig. Í örfáar mínútur gleyma öllu nema hjólastígnum og þessum ótrúlegu litum.

Hver andadráttur er fullur af hreinu lofti með einhverskonar loforði í. Ég spring út að framan, útúr hjartastöðinni, við þessa upplifun. Loksins, er veturinn búinn. Strembinn fyrir mig eins og alltaf og nú er aftur komið vor. Hvernig get ég gleymt þessu hvert einasta ár og haldið því fram í mínu versta að tilfinningin sé komin til að vera. This too, will pass.

Svo, þegar ég var alveg að verða komin útúr skóginum, orðin var við borgina og lætin í henni, þá sá ég ekki lengur skil á milli hjólastígs, trjáa og himins. Allt hafði runnið samna í eitt á þessum stutta tíma og nú var eins og ég hjólaði í lausu lofti. Aldrei þessu vant meðvindur og ég þeyttist áfram.