Mynd tekin yfir kanalinn við hliðina á húsinu sem ég bý í.

Meira að segja daninn er farinn að halda að það komi aldrei sumar á þessu ári. Mér liggur við örvæntingu. Þetta skilur þú auðvitað ekki ef þú hefur ekki búið annarsstaðar en á Íslandi. Þú ert ábyggilega alveg bara..öhh, það er marsssshhh! og páskahretið á eftir að komahhh!

Hér býr ákveðin tegund, eða týpa, af dana. Það er s.s karlkyns dani sem um ræðir og alltaf – og þá meina ég alltaf- þegar fyrsta teikn um að hér sé að koma vor, þá fer hann í stuttbuxur og er í þeim þangað til fyrstu merki um að það sé kominn vetur og fer þá í síðbuxur aftur. Þetta er eiginlega ákveðið merki um að það sé alveg að fara að detta í alvöru vor, en hann fer í stuttbrækurnar uppá prinsippið.  Við hin erum venjulega ennþá alveg að frjósa og með húfu og vettlinga, og eflaust líka stuttbuxnadaninn þó hann sé farinn að spranga hér um götur borgarinnar með bera kálfa.. Þannig að krókusar, páskaliljur, brum á trjám, einhver ákveðin lykt, lengri dagur og einstaka danskir menn í stuttbrók, eru vorboðinn hér í landi.

Það er margt að breytast.

Kannski er það frétt fyrir einhvern lesanda þessa bloggs að við höfum hugsað okkur til hreyfings.  En við ætlum að flytja yfir á Ísland í sumar.

Nú byrjar að söngla í höfðinu á mér eldgömul rulla um hversu slæmt það er að vera “rótlaus”, hve börnin mín muni líða fyrir allar ömurlegu ákvarðanirnar sem ég er að taka og að ég “haldi aldrei neitt út”.

Rótleysi

Ég er mitt eigið tré, með rætur í móður jörð og greinar upp til himna.

Mér finnst rullan leiðinleg og ég er orðin sannfærð um að hún eigi ekki rétt á sér, hún er auðvitað frá því í gamla daga – þegar ég vissi ekki að þetta voru ekki mínar eigin hugsanir heldur samfélagsins. Ég veit ekki almennilega hvað það er að vera “rótlaus” altsvo, fyrst og fremst er ég ágætlega rótuð bara í sjálfri mér og okkur fjölskyldunni saman. Mér hefur aldrei liðið rótlaust. Öðrum hefur kannski liðið eitthvað rótleysislega fyrir mína hönd, ég veit það ekki. Fyrir mig er ekki samasem merki á milli þess að hafa búið á sama staðnum í mörg ár og hvað það nú er sem á að vera samnefnari fyrir “að hafa náð árangri” í lífinu.

 

Börnin mín

Ég var að ræða þetta við vinkonu mína því rullan var alveg búin að ná yfirhöndinni og ég var nánast orðin sannfærð um að nú myndu börnin endanlega bara eyðileggjast. Það væri svo slæmt fyrir þau að skipta um skóla, flytja í nýtt samfélag, vera öðruvísi.

En hún benti mér á eitt. Aldrei heyrir maður neitt um aumingja börn allra íþróttahetjanna sem flytja úr landi í annað land og þaðan í enn annað land, nú eða börn sendiherranna, eða alls fólksins sem sinnir “mikilvægum störfum” og er afreks fólk að börn þessa fólks séu bara næstum því ónýt, hafi aldrei gengið vel í lífinu, eigi ekki einn stakan vin og séu almennt fólk sem þarf á andlegri ummönnun að halda 24/7.

Jón eða séra Jón ?

Ég er handviss um að börnin mín eru bara á góðu róli. Það er ótrúlegt unglingalogn hérna. Þau eru öll dugleg. Það verður ekki hægt að segja að þau séu ekki með á nótunum í námi á Íslandi þó þau séu ekkert sérlega sleip í því tungumáli hvorki í skrift né lestri – en þau eru reiprennandi í öðru tungumáli. Úngdaman talar 2 tungumál reiprennandi og 1 í viðbót mjög vel.. OG er í fjórða tungumálinu í skólanum. Þetta er hún með allt saman í hausnum. Ég stama öllu sem ég segi, hvaða tungumál sem það er.

Fyrir sum börn, mögulega eitthvað af mínum börnum, eru svona flutningar óþægilegir og mögulega mun eitthvað af þeim, þegar þau eru fullorðin, hugsa til baka að þetta hafi nú verið einum of, en ef ég á að segja alveg eins og er, þá hafði ég ekki hugsað mér að gera ekki það sem hjartað í mér kallar á fyrr en eftir sextugt. Ég ætla ekki að vera sextug með samviskubit.

Að halda hluti út

Ég gefst upp. Hvað þarf ég að vera að eltast við það? Ég tannbursta alla daga, er það ekki nóg? Ég er ekkert sérlega góð í að halda hluti út, sérstaklega ekki leiðinlega hluti. Ég fer alveg útúr mér ef það stendur til að halda út leiðinlega hluti. Þetta sannar allt námið sem ég byrjaði á og kláraði ekki og öll verkefnin sem ég ætlaði mér að halda út og gerði ekki. Allstaðar þar sem ég hef búið og síðan flutt.

Núna, þegar ég hef sætt mig við ég er ekki úthaldari, heldur brjóstahaldari.. djók, bara ef þú skyldir vera farin/n að dotta yfir ræðunni, þá þarf mér ekkert að finnast eins og ég þurfi að sporta öllu mögulegu sem ég er búin að klára. Hringurinn er bara styttri hjá mér, er það ekki bara í lagi?

Sumir vissu alltaf að þeir vildu verða söngvari og það var þeirra köllun í lífinu og allt snérist um það og svo voru þeir söngvari og dóu syngjandi. Öllum hinum fannst eins og það væri rökrétt í lífinu, að vita sína köllun frá blautu barnsbeini, en ég, og allir hinir sem líka voru með banana í eyrunum þegar köllunin var lúðrað yfir, vita að það er ekki þannig. Hvað er líka köllun? Bara eitthvað eitt? Er það nú ekki hálf eitthvað .. fjollað?

Só, ég er ekki úthaldari, en ég er íbítari og er reyndar ótrúlega góð í að framkvæma. Ég þjáist ekki af neinum svakalegum framkvæmdafresti. Og það er kostur, eins og nýja uppáhalds núlifandi bókahetjan mín, hún Heiða á Ljótarstöðum, talar um, að vera ekki að sitja bara við eldhúsiborðið og gjamma.

Langur aðdragandi….

…að því sem ég ætlaði upphaflega að segja. Með vorri ákvörðun um að flytja til Íslands fylgir að skyndilega þá er Gustur að “flytja að heiman” núna í haust. Eða eiginlega um leið og við lendum á landinu. Hann verður við vinnu í Reykjavík í sumar, en við verðum fyrir norðan. Hann fer síðan í skóla í víkinni í haust.

Ég verð eiginlega að segja að það er jafn furðulegt að hugsa til þess að hann verði ekki hjá okkur og svo Úngdaman mögulega heldur ekki eftir rétt rúmlega ár, og tilfinningin sem ég fékk þegar ég eignaðist þau fyrst.

Nóg um það.