Vatt uppá þessa um daginn. Ok, ég veit að maður segir ekki vatt uppá þegar maður byrjar að prjóna, en kannski er alveg hægt að segjast hafa undið uppá 100 lykkjur, svona í staðinn fyrir að fitja uppá?

Hvað um það.

Tíminn hefur aldrei liðið svona hratt í mínu lífi. Og meira að segja er ég að bíða. Ég meina bara að það er alþekkt að þegar fólk er að bíða að þá líður tíminn svaka hægt. Ekki málið núna. Tíminn æðir svoleiðis áfram að ég veit varla hvaða dagur er hverju sinni.

Við semsagt ákváðum að flytja til Íslands í sumar, ákvörðunina tókum við í blábyrjun janúar. Við höfum aldrei áður tekið ákvörðun þar sem það sem ákveðið hefur verið á ekki að gerast fyrr en 7 mánuðum síðar. Nema náttúrulega þegar börn hafa komið undir, en fæst af þeim voru nein sérstök ákvörðun og hvað ætlarðu að gera líka.. þú ræður víst ekki meðgöngulengdinni.

Við ætlum að fara norður í land. Aftur. Upphafleg pæling var að vera inná Hvammstanga en Eiginmanninum bauðst vinna á Reykjaskóla, þar sem fylgir húsnæði og þar munum við vera. Ég mun hinsvegar vinna inná Hvammstanga.

Ég var að kveikja á því bara núna um daginn að við erum að flytja útí sveit en ekki inní þorp. Það eru örfá hús á Reykjaskóla. Ég man náttúrulega ekkert almennilega hvernig allt er þar, ég man ekki einusinni eftir að hafa komið þangað niðreftir. Húsið sem við verðum í er gamalt hús sem byggt var undir skólastjóra Reykjaskóla á sínum tíma. Vegurinn niður að húsinu heitir Skólastjóravegur. Húsið sjálft heitir ekkert og hefur ekki húsnúmer heldur (hvernig mun ég fá póst!). Það eru heldur ekki til neinar teikningar af því (ætlaði aðeins að skoða stærð herbergja og eitthvað).

Af loftmyndum að dæma er við húsið hinn ágætasti garður. Ég vona að hann sé í svakalegri órækt svo ég geti hamast í því að gera hann fínan.

Ég var eiginlega að hugsa um að fá mér hest. Í fyrstalagi af því að mig langar að eiga hest og læra að vera á hestbaki. Hestinn mun ég kalla Skólastjóra og hann mun ég geyma að einhverju leiti í bakgarðnum hjá mér, svo hann geti verið að einhverju gagni og bitið fyrir mig grasið.

Við erum byrjuð að pakka meira að segja. Geymslan er komin í kassa, gámur hefur verið pantaður, þrengdi verðið fyrir hann niður í það allra lægsta sem ég mögulega gat. Veist þú hvað dýrasti kostnaðarliðurinn í svona flutningi er? Það er flutningurinn innanlands.. á Íslandi. Ekki sjóferðin frá einu landi í annað… heldur frá Reykjavík að Reykjaskóla.

Ég er bara nokkuð spennt fyrir því að vera að þessu. Ég er eitthvað hrifin af því að prufa nýja hluti og ég hef aldrei búið úti í sveit, þó þetta sé ekki eiginlegur sveitabær, svo þetta verður eitthvað.

En eins og ég segi þá hefur tíminn aldrei liðið hraðar, ég er eiginlega næstum því að reyna að halda aftur af honum.