Þegar ég hef reynt að hugsa um peninga þá breytist bara hausinn á mér í hafragraut. Ég sé ekkert og get ekki einusinni synt því grauturinn er svo þykkur að það mætti halda að hann hafi eiginlega í rauninni breyst brauðhleif og allir vita að það er ekki hægt að synda í brauði.

Ég held að ég kunni ekki að hugsa um peninga því ég hef aldrei lært það. Ég hef hvorki borið mig eftir björginni og eins og reynt að kenna sjálfri mér það (fyrr en núna þ.e) og ég held að það hafi ekki sérstaklega verið talað um peninga heima hjá mér né í skólanum. Ég get ekki svarið fyrir að það hafi ekki verið talað um þá á þessum stöðum því af einhverjum ástæðum, eða ég veit alveg útaf hverju, get útskýrt það síðar, þá man ég ekki almennilega eftir það miklu af æsku minni eða hvað við mig var sagt eða ekki sagt.

Ég veit hreinlega ekki beinlínis í hverju það liggur en ég held að ef börn eru ekki, alveg frá blautu, meðvituð um peninga og hvernig á að fara með þá, þá held ég að það geti verið erfitt að finna útúr því þegar útí lífið er komið. Amk fyrir svona grautarhausa eins og mig. Láttekkisona, ég veit alveg að ég er ekki eini grautarhausinn.

Mögulega hugsa ég svona mikið um þetta akkúrat núna því únglíngarnir mínir tveir eru mjög skyndilega orðin svakalega peningaþurfi. Ég get ekki sagt að mér líki við hvað þau nota peninginn sem þau fá í og mér finnst ekki kúl að þau noti alltaf allan peninginn strax. Þau eru meira að segja með tendens til að biðja um pening af peningunum sem þau vita að þau eigi eftir að fá, áður en þau fá hann. Og þetta er hreinlega beint út sagt ég í hnotskurn. Er ekki óþægilegt að sjá sína helstu galla vaxa og dafna eins og enginn sé morgundagurinn í sínum eigin afkvæmum?.. mér finnst það.

En þó að ég hafi ekki talað um peninga við þau ennþá, eða kennt þeim á þá,aðallega því ég kann ekki á þá sjálf, þá verð ég bara að fake it till I make it! Líf þeirra er í húfi og hananú.

Við erum búin að ströggla mikið við t.d vasapening. Þau eru 13 og 14, verða 14 og 15 á árinu. Í denn, þú veist, fyrir 22 árum þegar ég fór fyrst á vinnumarkaðinn var ég jafngömul og þau eru í dag. Í dag er það hinsvegar þannig að það er enga vinnu að fá, nema fyrir einhverja mjög heppna, fyrir svona ungar manneskjur. Hér er það m.a.s þannig að 15 ára má bara vinna x-marga tíma á viku, ég man ekki hvort þeir eru kannski 8 eða eitthvað mjög lítið.

Sumariðfríið hér er bara 6 vikur, ekki 3 mánuðir þar sem hægt væri að vinna sér inn dágóðan skylding til að nota yfir veturinn. Ekki að það sé ekki hægt að ákveða að vinna í 6 vikur, hefði betur séð það gerast hér síðasta sumar heldur en hin endalausa herbergisinnivera og almenn leti. Tölum ekki um það meir.

Mér finnst erfitt að þau skilji ekki að það tekur á fyrir okkur að fá pening inná heimilið. Það tekur á að vinna frá 5:30 til 00:00, ok þetta er ýktasta dæmið, ég vinn yfirleitt ekki svona mikið, en ef ég þarf að gera það þá verður það að vera þannig, bæði svo ég fái þá peninga sem ég þarf og ef ég hef lofað að gera eitthvað eins og að leysa af í skúringum og svo mitt fyrirtæki haldist á lofti. Mér finnst erfitt að þau skilji ekki að mér er illt í kroppnum eftir alla þessa vinnu, hefði frekar, í mörgum tilfellum (á sérlega við um skúringar) viljað vera að gera eitthvað mun skemmtilegra, eyða tíma með þeim t.d eða lita í litabók. Mér finnst alveg ótrúlega frústrerandi að þegar þau svo hafa fengið pening þá er hlaupið með hann og keypt nammi og gos (hann) eða meiköpp og hársprey (hún). Það sem ég hefði frekar viljað sjá var að þau myndu fara með peninginn inní herbergi, breytast í Jóakim Aðalönd og nota svo peninginn ekki fyrr en þau hafi safnað fyrir einhverju rosalegu, eða þau væru á þeim stað í sínum peningamálum að þau gætu tekið smá pening og tilkynnt “ég ætla í bíó í kvöld”.

Hangon!  Er þetta ekki akkúrat það sem ég vildi að ég væri að gera? S.s að breytast í Jóakim Aðalönd og nurla með peninginn og geta án áhyggja eða hægvirks raðmorðs með plastkorti er kallast visakort, tekið smá af formúgu minni og notað hana mér til gagns eða/og gamans? Jú.

Þetta var ég að fatta bara í gær sjáðu til. Á mínu 37 aldursári. Á mínu 22 starfsári. Á mínu 18 ári af eigin heimilisrekstri. Hóld þe fón! Ég verð að segja að “svo lengi lifir sem lærir” (eða hvernig þetta orðatiltæki nú er), verði að vera mitt leiðarljós í þessu öllu saman. Ég VERÐ að trúa því að þó svo að ég hafi verið hálfviti, eða fáviti í orðsins fyllstu merkingu síðustu 22 árin, eða alltaf, þá þýðir það ekki að ég þurfi að vera það áfram.

Það sem er auðvelt..

..er kerfið sem krakkarnir eru komnir á. Þau hafa, skv einhverri bók sem ég las, fengið í hendurnar 3 krukkur hvert. Ein krukkan er krukka sem á að safna í peningum og reglan á þessu heimili er að þau mega ekki ákveða fyrir hverju, þau eiga bara að safna pening til að eiga hann og ekkert síðan, engar tilfinningar eða pælingar hvað á að gera við hann, markmiðið er bara að eiga peninga og ekki nota þá.

Næsta krukka er krukka fyrir peninginn sem þau mega nota í það sem þau vilja nota pening í. Mér er næstum því sama. Þetta eru jú peningar sem ég stritaði fyrir en einhversstaðar verður kona að gefa lausan tauminn og í nafni lærdómsins fá þau að nota hann að vild.

Þriðja krukkan er “gefa” krukka. Þarna eiga þau að setja hluta af peningunum og gefa svo peninginn til góðgerða mála eða til þess sem þau halda að þurfi á því að halda. Hugsa að það verði einusinni á ári sem þetta færi fram.

Þau fá 150 danskar krónur (tvö eldri þ.e) á viku. 75 mega þau nota, 65 eiga þau að spara og 10 eiga þau að gefa.

Við höfðum verið með 100 kall á mánuði, svo 200 á mánuði og með því að spara helminginn þá verður aldrei neitt úr þessu fé. Þ.e þau ná ekki að spara neitt með svona fáum krónum og við verðum bara að horfast í augu við að þau þurfa pening, það er bara þannig.

Það sem er erfitt…

Það sem er erfitt í þessu er að við getum ekki farið þessa leið. Þ.e bara skipt í krukkur og verið róleg. Við þurfum jú að reka heimili og reksturinn er á botninum á skuldaflórnum. Engin skófla til. Við munum þurfa að grafa okkur upp með höndunum.

Og nú fer ég úr fötunum: Í dag er það þannig að við náum ekki endum saman, við getum ekki sparað peninga. Ef að við yrðum gerð gjaldþrota í dag, þá myndum við ekki finna fyrir neinum fjötrum því leimmér að segja þér að við erum í þeim nú þegar.  Vonandi finnst Eiginmanninum ekki óþægilegt að ég hafi afklætt hann svona fyrir framan sjáandi fólk með opin augu…

Ég er ekki búin að komast að því hvernig við munum breyta þessu. Þessvegna þarf ég að fake it till I make it.

Mín fyrsta pæling er samt þessi: ég get ekki eytt sömu krónunni tvisvar, þetta á líka við um tíma, ég get ekki notað sömu mínútuna tvisvar. Þetta hlómar eins og no-brainer en fyrir fólk eins og mig þá er þetta eitthvað sem ekki alltaf er ljóst.

Hugsum aðeins um þetta. Þar til næst :)