Sjaldfengin stund með sjálfri mér. Ég er næstum því viti mínu fjær af kátínu yfir því að sitja hér í öðrum endanum á sófanum mínum rauða, með lappirnar uppá saumadúddinu mínu, púða við bakið og þó ég sé hætt að borða nammi þá er ég hér með fjórar karamellur til þess að láta bráðna uppí mér meðan ég skrifa þér þennan pistil. Ég gæti ekki haft það betra.

… eða sko fyrst við ætlum að ræða það að geta haft það betra þá get ég nú sagt þér það að ég hef viðrað það við nokkrar konur nú þegar og þær eru allar sammála, að konur eigi reyndar að fá verðlaun í hverjum mánuði. Ekki einhver drasl verðlaun eins og einhvern prump konfektkassa, heldur alvöru verðlaun. Þetta finnst mér að karlkynið eða makinn eigi að veita konum bara vegna þess að þær þjást amk einusinni í mánuði. Þetta gerum við óeigingjarnt BARA til þess að viðhalda mannkyninu.

…og fyrst við erum að ræða að viðhalda mannkyni þá finnst mér ég beygð til að ræða það hversu mikið erfiði það getur verið að gera einmitt það. Þetta er sagt í beinu sambandi við að fá verðlaun einusinni í mánuði. S.s 12 verðlaun á ári, fyrir sumar, 13 -14 verðlaun.

Það er nefnilega þannig, þetta vita flestir en best að ég fríski aðeins uppá minnið, að frá ungaaldri þá byrjar konan að fara á túr og þjást ógurlega. Svo verður hún ólétt og þjáist basically í 9 mánuði af hinum ýmsu kvillum. Það er ekki gott að koma börnum í heiminn. Þetta vita allir, það vita það allir jafn mikið og að það vita það allir að það er vont fyrir karlmenn að fá spark í punginn. Ég veit ekki nákvæmlega hverskonar verkur það er, en þú veist, ég get ímyndað mér.

Þegar barnið er komið í heiminn þarf kona að þjást meira til þess að fæða fylgjuna, sem er líffærið sem hún bjó til sérstaklega til þess að næra krógan meðan inni var. Eftir það þarf íverustaður barnins að draga sig saman og það er ógeðslega vont, ekki bara er það vont heldur versnar með hverju barni sem fæðist hverri konu. Það er ekki bara vont rétt fyrst á eftir, heldur í marga daga stingandi vont og espist verkurinn þegar barninu er gefið að drekka.

Eftir fæðingu og fyrstu brjóstagafir fær kona iðulega sár, stundum blæðandi, á geirvörturnar. Ég vil ráðleggja nýjum pörum að láta karlinn, eða hinn makann, sjúga daglega frekar kröftuglega geirvörturnar á konunni til að fyrirbyggja þetta nastí ástand, þegar það þarf að næra barn með sprungnar geirvörtur.

Svo, meðan barn er á brjósti, svona fyrir utan splundraðar geirvörtur (gat ekki einhver fundið fallegra orð yfir þetta??…vörtur?) , þá eru brjóstabólgur og stíflaðir mjólkurgangar algengur vandi. Hvorutveggja fylgir vanlíðan á borð við beinverki og almennan slappleika.

Þú getur kannski reiknað út hvenær ég á næst að fá verðlaun ef þú ætlar ekki að gefa mér verðlaun núna. En á þessu verðlaunatímabili er ég einmitt með tilfinningar á borð við þær þegar ég var komin með 9 í útvíkkun og hefði sennilega gefið barnið, bara svo þetta yrði búið. Í ofanálag er ég með stíflaðan mjólkurgang í hægri túttunni. Túttan er helaum og mjólkurgangurinn á stærð við vísifingur.

Ég er í algjörri sjálfsvorkun.