Mér gengur frábærlega að byrja greinina sem ég vil skrifa um peninga. Ég hef verið haldin þeirri firru síðustu 36 árin að það eigi ekki og megi ekki tala um peninga. Það eru 1001 ástæða fyrir því. Fyrst og fremst er það kannski útaf því að ef þú segir frá því að þú eigir ekki mikla peninga, hafir jafnvel enga og síðan að þó þú hafir enga peninga hafirðu samt náð að demba þér í svakalega stóran skuldaflór og eigir hreinlega ekki neina skóflu ( …því þú átt enga peninga..), að þá hefurðu sýnt merki um veikleika.

Ég er fyrsta manneskjan til að viðurkenna að ég hata veikleikamerki. Ég hata þau svo mikið að ég get varla liðið heimilisfólki að liggja bara uppí sófa eða rúmi að gera ekkert. Gera EKKERT! Þvílík sóun á tíma, rúmi og minni vellíðan. Það er auðvitað útaf því að það er, í mínum augum, veikleika merki ef einhver liggur bara. En sumir, s.s allir fjölskyldumeðlimir nema ég, kunna að slaka á og hafa gaman og gott af því að liggja og láta hugann reika eða liggja og vera ekki einusinni að hugsa (dauðasynd númer 8).

Ég er búin að hugsa ótrúlega mikið um peninga, en fyrir ca 3 árum bað ég sérstaklega um að ég myndi fá breytt hugarfar í þeim efnum… kaldhæðnislegt a nota orðið efnum hér því ég er svo langt frá því að vera efnuð. Það er hinsvegar samt ekki að gerast almennilega fyrr en núna að ég hef fengið breytt hugarfar og það er bara pínulítið breytt, eiginlega bara á yfirborðinu finn ég. Ég veit ekki afhverju það tók almættið 3 ár að hjálpa mér að moka ofan af mér til þess að ná niður að fá breytt hugarfar um peninga og hvernig á að nota þá.. sennilega of gömul, þykk og óstýrlát mykja í bland við algjörlega bitlausa og ryðgaða skóflu.

Allavegana. Ég hef komist að því að alla sem skrifuðu að peningar kaupi ekki hamingju og að peninigar séu bara orka – ætti að koma bara ef kona myndi óska sér þá, ætti að flytja inná hæli. Geðsjúkrahæli.

Að peningar kaupi ekki hamingju getur bara verið satt útaf því að hamingja er ekki til sölu og allra síst útí búð.

Að peningar séu orka og að kona geti sært þá til sín með hugarorkunni einni saman er líka þvæla. Og þúst.. þegar kona á 4 börn og einn mann í rándýrri blokkaríbúð í Kaupmannahöfn (sambærilegt við að leigja 3 herb. íbúð í Kópavogi.. en samt ekki alveg, kannski 2ja herbergja) þá getur hún ekkert verið að hugsa þetta þannig að peningarnir komi ef þeir eigi að koma.

Nei, það er eiginlega meira þannig að peningur er peningur. Í botn og grunn (i bund og grund) gæti peningur varla verið meira veraldlegur og vitur kona sagði að peningum ætti heldur aldrei að blanda saman við hamingjuna og mér finnst að það eigi ekki að tala um peninga og orku í sömu setningu.

Aftur að því afhverju það má ekki tala um peninga. Ég held, eins og áður sagði, að vegna þess að fólki upp til hópa er svo annt um að sýna ekki veikleikamerki, ætla að massa þetta allt, kýla sig áfram, halda að stress sé eitthvað sem á bara við ef þú ert tvífættur, eineygður kettlingur sem er eltur af rándýri og telja það dyggð að vinna of mikið.

Og afhverju “má” fólk ekki sýna veikleikamerki? Er það útaf því að við sitjum öll heima og eyðum kvöldinu okkar í að dæma allt fólkið sem sýndi veikleikamerki? Ég leyfi mér að efast. Ég held að allir séu bara jafn steiktir á kvöldin og ég er eftir daginn að það kemst ekkert annað að en að lifa af til að ganga frá, halda áfram að halda sönsum fyrir framan börnin og fara svo bara annaðhvort að sofa eða láta líða úr sér í sófanum yfir einhverju rugli í sjónvarpinu (ok.. ferleg lýsing á mér, en stundum er þetta svona). Samasem; það er sennileg enginn að dæma hina fyrir að sýna veikleika, ég held meira að segja að lang, lang flestir séu það samúðarfullir og færir um að sýna samstöðu að fólk verður reiðubúið til að hlusta, koma með ráð, vera til staðar og bjóða í mat, held að það sé meira hið mannlega eðli heldur en að vera í dómarafötunum.

Afhverju erum við þá svona stressó um að segja frá veikleikum. Það get ég sagt þér, það er útaf okkur sjálfum! Það er enginn að dæma þetta nema við sjálf. Hver er okkar versti dómari, við sjálf. Hver nöldrar mest yfir því sem miður fer, við sjálf. Hver er að búa það til í hausnum á sér að allir hinir séu að hugsa um hvað við erum mikill lúser, við sjálf, og þessi setning ætti, ef þú kynnir orðaalgebru, að segja þér að allir eru svo uppteknir af því að dæma sjálfan sig að enginn er að dæma neinn annan. A-B=C og C er núll.

Kannski væri góð regla, alltaf þegar kona ætlar að viðurkenna veikleika upphátt eða fyrir opnum tjöldum einhvernveginn (og á um menn líka, ég er bara að útrýma því að segja “þegar maður…” því það er kynjamisrétti..hehe) að taka alltaf fyrst fram einhvern stórkostlegan kost sem kona býr yfir.

Samtalið við góðan vin eða vinkonu gæti byrjað svona:

“Ég er stórkostlega fær í vinnunni, ég er svo fær að fólk kemur til mín reglulega til að spyrja ráða, ég hef unnið minn veg upp og er yfirkona í minni deild, ég hef unun af því sem ég geri og ég er virkilega góð í mínu fagi.”…

…” En! ég er svo hrottalega léleg í að höndla fjármálin á heimilinu að skútan er bara að sigla í strand. Við eigum ekki lengur fyrir mánaðarlegum útgjöldum og ég veit ekki hvað ég á að gera. Sambandið okkar er að liðast í sundur vegna þess að áhyggjurnar yfir þessu eru of miklar. Börnin eru farin að finna fyrir því að eitthvað er að og núna er það beisikklí þannig að við erum öll leið og döpur og finnst við ekki eiga skilið að vera til.”

Vinkonan eða vinurinn mun sennilega vera þakklát/ur  og upp með sér fyrir að hafa verið treyst fyrir svona alvarlegu vandamáli og fer strax í gang með að leita leiða til að hughreysta og hjálpa. Ekki með því að gefa pening endilega heldur bara með því að vera þarna og hlusta. Það er amk mín reynsla.

Það er erfitt að vera allsber fyrir framan einhvern sem er ekki meiningin að fara í bólið með. Sem minnir mig á draum sem ég átti í nótt, ég var einmitt allsber, var í haldara en að öðruleiti nakin. Man ekki hvað hafði komið fyrir fötin mín en þurfti að komast frá Úlfarsfelli framhjá Vesturbæjarlauginni og heim á Melhagann (æskuheimili) til að komas í brók. Einhversstaðar á leiðinni tók ég risastór lauf af trjám og hafði svona fyrir því allra helsta.. sko, segið ekki að kona muni ekki bjarga sér í neyð.

S.s erfitt að vera allsber fyrir framan einhvern sem er í fötum og ætlar ekkert úr þeim, en ég er núna, mörgum árum síðar, eiginlega þeirrar skoðunar að kona þurfi þess samt, svona ef hún ætlar að lifa af.

Og þetta var inngangurinn af greininni sem ég ætla að skrifa um peninga. Hugsasér, þetta er svo yfirgripsmikið að ég er búin að skrifa heilan bloggpóst sem er bara inngangurinn af öllu því sem ég vil segja.

Næst, get samt ekki lofað að það verði næsti bloggpóstur því ég get bara skrifað hér inn þegar mér liggur eitthvað á hjarta, mun ég þá skrifa meira um pening, kannski verður það bara einn kafli en kannski verð ég komin með heila bók og þið neyðist til að lesa alla mína innstu þanka um þetta efni sem er og hefur verið minn helsti akkílesarhæll, hvur veit.