..telst sennilega til lúxusvandamáls samt.

Byrjum á því að ræða hvað ég er dugleg að taka úr skápunum matinn og borða hann. Ég er reyndar ekkert sérlega dugleg í því. Eða ég er með sjáluppsettan mælikvarða á því hvað telst að vera dugleg og það væri að gera eitthvað úr skápunum á hverjum degi og allt góssið væri horfið fyrir enda janúar 2017, sem er liðin tíð og því ekki hægt að væla yfir því að það hafi ekki tekist.

Raunverulega er ég samt búin að gera meira en ég er búin að skrifa um, ég á það eftir. Manstu bollurnar sem ég gerði um daginn? Jú, ég gerði aftur svona bollur vegna fjölda áskoranna (ok.. ein áskorun frá Frumburði vorum, en hann er stærstur svo hans atkvæði er á við 7) en í staðinn fyrir sesamfræ og sólblómafræ setti ég afganginn af möndlunum og afganginn af graskersfræjunum. Tvær krukkur tæmndar.

BújaH!

Við Diddmundur fórum í afmæli

Eða hann fór í afmæli og ég kom honum þangað. Við erum um margt eins. Ljúf og góð, róleg með eindæmum, lengi að borða, lengi að koma okkur af stað. Lítum út fyrir að vera hrottalega viðutan en erum þarna samt. Við vorum, aldrei þessu vant, of snemma komin á staðinn og þar sem við erum hvorugt fyrir að vera einhversstaðar eins og álfar útúr hól þá fórum við smá hring um hverfið. Afmælið var haldið í lögreglusafninu uppá Norðurbrú. Norðurbrú finnst mér vera hættulegt hverfi og frekar svona.. sjúskað. Mér líður vel hér úti á Amager,  þó ég hefði sennilega kosið, ef ég mætti velja að vera ekki hér í Eyrnastað (ørestad) heldur meira í gamla hverfinu – en það vitiði nú öll sem títt lesið.

Það verður samt að segjast að búðagluggarnir sem við rákumst á voru mjög skrautlegir. Eins og þessi.

Og þessi. Sá fyrri með kaffibollum, kaffistelli og stól, svo eitthvað sé talið en hér ægir saman gömlum úfnum dúkkuhaus, eldgamalli saumavél, byssum, bjöllu, höfuðkúpu af dýri, plöntu (sem miðað við hitt dótaríð er algjört stílbrot), akkeri og módel bátur.

Þetta fannst mér svolítið töff skilti.

Og svo er ekkert verið að djóka með að búa til, prenta út og dreifa plaggötum af þeim sem greinilega eru ekki velkomnir í hverfinu.

Og þessar dásamlegu hænur! Ertu að sjáetta. Þetta er utaná húsvegg. Ég er svakalega hrifin af þessu.

Sögur af garni

Þetta er sjalið sem ég er byrjuð á. Það er samt í pásu því ég datt svakalega ofaní bómullargarnið mitt og er að framleiða borðtuskur. Og svo er ég að prjóna prjónfestuprufur af garninu sem ég hef verið að lita.

Eins og þetta, ég er mjög hrifin af þessum lit.

Keypti síðan garnvindu og hnotuvindu. Ég hélt reyndar að hnotuvindan væri garnvindan og að tréapparatið væri hesputré, en sá í einhverri bók að það er ekki þannig.

Hálft í hvoru útaf því hvernig ég er þegar ég dreg eitthvað uppúr kassa sem þarf að setja saman og svo útaf því hvernig Eiginmaðurinn er, þá endaði það þannig að hann setti hnotu- og garnvinduna saman og útaf því að ég er undirlægja eða með öðrm orðum tiltakslaus motta og hann launfrekur og yfirgangsmikill þá var það hann sem síðan sat og vatt garnið fyrst úr hanka og niður í hnotu og svo úr hnotu og uppí hanka.

Ég meina, hvað er að frétta af svipnum á þessum manni. Hann þurfti auðvita að fara ótrúlega hratt, sennilega hraðar en allir hinir og afkasta mestu og ég boraði bara í nefið á meðan.

Ég fékk að prufa eftirá, þegar enginn var spenntur fyrir þessu lengur og allir farnir að gera eitthvað annað og ég var öll alveg ein í gleðinni..

Hinn elskulegi Eiginmaður hefur líka baulað töluvert yfir ullarsokkaleysi (eins og ég sagði frá hér), en úr því hefur heldurbetur ræst. Ekki bara fékk hann eitt par frá mér og mAmma L var byrjuð á pari handa honum hér um jólin þegar hún var í heimsókn, heldur fékk hann tvö pör send í pósti frá mÖmmu R.

Annað parið sem kom í pósti í dag var rautt og mér finnst það geggjað. Ég veit ekki hvort hann fær að halda þessum sokkum bara fyrir sig. Heppin ég að við notum sömu stærð.

Ég heyri ekki á það minnst meira að það eigi að vorkenna honum því enginn nennir að prjóna á hann neitt!

Hitt og þetta

Bína litla er að komast á “húle” staðinn. Húle er danskt orð yfir fylgsni og hér er hún búin að búa til eitt slíkt. Hún er títt búin að draga alla eldhússtólana fram og raða í einhverja röð og setja teppi undir og kodda og eitthvað.

Hún datt síðan í lukkupottinn þegar bróðir hennar eldri, yngri, tók uppá því að fullkomna holugerðina með því að draga fram allar sængur heimilisins og setja yfir eldhúsborðið og undir það. Svo fóru þau þar undir að horfa á teiknimyndir. Mér fannst það bara góður máti að eyða laugardagseftirmiðdegi á og hún alsæl.

Við erum stundum 6 manna fjölskylda og stundum eiginlega bara 4 manna. Það höfum við ekki verið áður. Höfum alltaf verið 5 þegar við höfum verið að fara túra út og svona. En þau eldri nenna ekki með (enda … þúst.. hvaða 14/15 ára nennir á leiksvæði..).

Talandi um úngmennin. Ég gæti skrifað um þau þúsund sögur en veit ekki hvort ég þori því. Lesa þau hér inni? Ég veit það ekki. Síðan fyrir rétt að verða 10 árum, þegar ég byrjaði þetta blogg, þá voru þau náttúrulega bara 5 og 6 ára og Diddmundur litli 1.5 árs. Þannig frá nógu var að segja og þau vissu ekkert af því. Ég verð að íhuga þetta.

En út förum við hin oft og fundum á þessu leiksvæði merkilegt eldstæði.

Þetta er útigrill sem allir mega grilla á. Það er grill hvorumegin við Diddmund, sést aðeins í annað þeirra bakvið hann. Hvað er í miðjunni segirðu? Jú, það er hreinlega bakaraofn. Eða grillaraofn kannski frekar. Mér finnst þetta úber flott!

Það er búið að vera fallegt veður undanfarna daga. Ekki svo mikið rok, eiginlega alveg flesta daga í síðustu viku alveg sléttur “fjörðurinn” minn hér fyrir utan húsið. Svolítið kalt auðvitað, enda febrúar og alveg fruntalega kalt í dag. Veit ekki hitastigið en það hefði verið tilefni til að vera í snjóbuxunum þó ég hafi ekki farið í þær.

Síðast en ekki síst

Já krakkar mínir. Síðast en ekki síst er hér mynd neðan úr kjallara. Þar eru geymslur íbúa hússins og hjólakjallari. Við geymum hjólin alltaf inni. Þeim er bara stolið úti, það er bara þannig. Búið að stela 4 hjólum af okkur síðan við komum í jan 2014.

Og hvað er einn nágranninn með í geymslunni? Jú. Fætur. Ég vil bara fá að vita hvar restin af þessum líkama er. Ég meina.. eru þau með efribúkinn uppi sem eitthvað skraut ? Nota þau hann kannski sem fuglahræðu á svölunum? Eða til að blekkja um fyrir vinnumönnunum sem eru í óða önn að klára grunninn á húsinu sem er verið að byggja hér fyrir utan, svo þeir haldi að þeir séu að horfa á beran efrikropp konu en svo er það bara dúkka og meira segja dúkka með engar friggin lappir!?!

Allir góðir bara?