Þessar myndir eru teknar í nóvember. Ég var að fara yfir myndirnar og sá að ég hafði gleymt þeim en þetta er eitt dæmi um hve fallegur himinninn getur verið, svona almennt.

Þetta er sólarupprásin, horft út í áttina að flugvellinum, Kastrup.

Aðeins nokkrum mínútum síðar var himininn orðinn svona.

Og nokkrum mínútum síðar en það, var hann orðinn svona. Síðan, eftir enn aðrar nokkrar mínútur var kominn bara dagur. Við erum að tala um kannski 20 mínútur, sennilega um klukkan svona 8:30 í nóvember, eins og áður sagði.

Í byrjun desember var ég svo á ferðinni á Íslandi. Fangaði þar part af sólarupprásinni þar, en það var um klukkan 11:30.

Ótrúlega fallegt.

Afmælisbarn

Ég er ekkert rosalega mikið fyrir svona frí eins og jólafrí og páskafrí og öll þessi lengri frí, þ.e.a.s ef við erum ekki að fara neitt eða gera neitt ákveðið. Ég þrífst verr þegar allir eru heima í plásslítilli íbúðinni og það er kannski kalt úti og rok og alveg liðin tíð að ég geti sent lýðinn út að leika sér.

Að hugsa sér, það er ekki einusinni hægt að taka snúning á skeiðvellinum því það er alltaf einhver vakandi. ALLTAF. Einusinni gat ég sent þau öll þrjú út að leika í kannski alveg tvo tíma, bara úti í garð og gat notað tímann til að draga andann og taka mig saman í andlitinu. Síðan, þá voru allir farnir uppí fyrir átta og yfirleitt sofnaðir klukkan átta. Það þýddi að það var kvöld eftir.

Núna er engan hægt að senda út, því þau eru orðin of gömul til að hlýða því og þau eldri fara að sofa á eftir okkur. Það er klárt mál að við munum ekki eignast fleiri börn. Reyndar er ég fegin, ég ætlaði hvort sem er ekkert að gera það ..en þúst.. þúst.

Við fórum samt út í garð, ég og Bína og Fagri, sem átti afmæli í gær, varð 11 ára og alsæll með það.

Annar dagur, annað leikpláss. Truntuðum yfir í Íslandsbryggju skóla, þar sem þau ganga menntaveginn. Þetta er leiktæki, mega flott, á frístundaplássinu. Það var minninga endurfundur fyrir Diddmund því nú er eira en ár síðan hann var þar.

T.d var það þannig að þeir félagarnir, hann og einn annar, töluvert minni en hann, höfðu það fyrir leik að troða sér inní þennan kassa. Bína hefði ekki komist þarna inn þó ég hefði tekið uppá því að troða henni þar inn. Hann hefur stækkað svo að hann nær mér upp að vörum.

Setja saman eina afmælisgjöfina. Alveg týndur í þessu :)

Teikna, mála, perla, vera í legó, pína hamsturinn, vera allsber allan daginn, stríða og tæta og vera í froskalöppum er nokkuð af því sem Bína notaði frídagana í.

Í minningunni hefur nýársdagur alltaf verið kristaltær, stökkur og einhvernveginn svo ótrúlega fallegur. Tilvalinn til gönguferðar, sem við höfum yfirleitt gert, þ.e farið í gönguferð á nýársdag. Í ár, hér úti, var hann bara grár og loðinn, þokukenndur og blautur. Fórum samt út. Pínu fyndið að þurf að setjast alveg upp við pabba við fyrsta morgunverð ársins.

Eiginmaðurinn á gamlárskvöld.

Best að klára að setja inn það sem ég prjónaði áður en ég vigtaði stassið. Þennan stuttermabol. Ótrúlega gaman að prjóna þennan.

Og þessa ullarsokka. Eiginmaðurinn er svo fúll því hann heldur því fram að honum hafi verið lofað ullarsokkum bæði af mér og móður sinni. Svo fúll var hann að mamma L hefur strax hafist handa við að prjóna á hann. Ég veit ekki nema að þess sé krafist af mér líka að ég hendi í par. En meðan ég er að klóra mig í gegnum eitt hjúmöngús stórt sjal á prjóna númer 3 og sjöhundruðþúsundmilljón þá verður honum bara að vera kallt á tánum.