Það hefur helst til hlýnað hér í borg baunans undanfarið. Enginn snjór og ég hef ekkert þurft að fara í snjóbuxurnar í viku. Ég fékk meira að segja á tilfinninguna hér í morgun þegar ég brenndi niður í bæ að sinna erindum, að það væri kannski bara að koma vor. Það er auðvitað óskhyggja, því það er bara réttsvo 20.janúar.

Ég hef verið töluvert dugleg að nota matinn úr eldhússkápnum mínum, þú veist, þessum með öllum krukkkunum sem er með öllu þurrefninu í.

Ég var alveg búin að segja þér afhverju þetta er allt í krukkum en ekki bara í pakkningunum? Jú, það er því fyrir nákvæmlega 3 árum síðan lentum við í að vera í íbúð sem var þvílíkt sýkt af mölflugum. Þær voru allstaðar og þar sem ég er svo viðkvæmt blóm þá fékk ég taugaáfall og fóbíu númer tvö á heilann.

Fyndin saga.. eða ekki, er að við erum hér með hamstra og keyptum hamstramat um daginn, sem er í grunninn bara korn og þurrkað hey í kögglum og eitthvað svona. Þetta var bara rétt fyrir jól sem við keyptum matinn.

Einn góðan veðurdag, þegar ég var að rannsaka loftið, sem ég geri oft því á því er að finna allskonar viðbjóð, eins og myggur á sumrin, silfurskottur (já, þær geta skriðið upp veggi og gengið á loftinu) og ef það eru mölflugur á heimilinu, þá eru þær títt uppá vegg, uppvið loftið. Kjurar alveg. Mega ófögnuður. Ég var sumsé að rannsaka loftið og kom auga á eitthvað gult á stærð við svona hálfan annan sentímeter.

Mér rann kalt vatn á milli skinns og hörunds (nei, skil ekki ennþá hvernig hægt er að koma einhverju á milli skinns og hörunds) og kallaði á bjargvætt minn í einu og öllu sem kom askvaðandi á hvíta hestinum, eða bara á nærbrókinni og fjarlægði ófögnuðinn. Við vorum sammála um að þetta var lirfa að undirbúa umbreytingu.

Nokkrum dögum síðar, þá sáum við lirfu á ferðinni, s.s skríðandi í loftinu. Mér varð allri lokið og rifjaði sjálfkrafa, alveg óumbeðið, upp bæði hegðun og líðan sem ég upplifði fyrir 3 árum. Loks fengum við svo að sjá mölflugu þannig að grunur okkar var staðfestur.

Þetta var náttúrulega alveg ofboðslega glötuð tímasetning því við vorum líka nýbúin að uppgötva lús á heimilinu. Þvílíkt og annað eins skordýrafár.

Góðu fréttirnar eru að við fundum hvar þær voru að eðla sig flugurnar, það var í friggin hamstramatnum sem við geymdum í litlu sætu náttborði með tveimur skúffum. Því var snarlega stungið í svartan poka og hent beinaleið langt út fyrir lóðamörk blokkarinnar.

Ég veit ekki afhverju ég kveikti ekki á því að hamstramatur ætti líka heima í krukkum. Hann er þar auðvitað núna og er reyndar geymdur í frysti og svo færi ég smá af honum inn í þéttlokaða krukku. Hamstrarnir fá bara lítið að borða í einu. Enda svo litlir.

Að uppistöðu færlsunnar

Eitt af því sem ég á til í krukkunum mínum er hveitiklíð. Einusinni sagði mamma, “þú getur skipt út heilhveiti með því að setja hveitiklíð útí hveiti”. Þetta geri ég mjög jöfnum höndum. Þ.e set hveitiklíð útí hveiti og er þá komin með heilhveiti. Um daginn keypti ég hveiti í búðinni sem var ekki heilhveiti heldur hveiti með hveilhveiti í.. tilhvers að standa í því? Það var 99% jafn hvítt og venjulegt hveiti.

Og svo er ég með krukkur með sesamfræjum og sólblómafræjum. Reyndar nota ég sesamfræ mjög mikið svo ég veit ekki alveg hvort þau flokkast undir að vera eitthvað sem þarf meðvitað að standa í að klára.

Þetta eru bollur sem maður gerir að kvöldi, smellir í ísskáp og bakar um morguninn. Mjög góðar.

Í þær fara:

  • 1 bréf þurrger

  • 1-2 dl fræ (hér sólblóma og sesamfræ)

  • 2dl mjólk

  • 1dl ab-mjólk, súrmjólk, kefir, eða bara einhver vökvi

  • 3 msk olía

  • 1 góð tsk salt

  • 5-6 dl hveiti

  • 2dl heilhveiti (hér heilhveitir með ca 2msk hveitiklíð)

Aðferð: Settu gerið útí kalda mjólkina, olíu og ab-mjólk. Settu svo saltið og fræjin útí það. Þá allt hveitið. Hnoða vel í hrærivélinni (eða ef þú ert með sjálfsskaðaheilkenni eitthvað, geturðu hnoðað í höndunum). Skipta deiginu í nokkrar litlar sætar bollur, dekka þær með plastfilmu og setja í ísskálpinn.

Ganga til náða, vakna aftur daginn eftir, skrúfa ofninn uppí 200°c og baka í 10 – 12 mínútur.

Við þetta er að bæta að ég kláraði hjúmöngús lopapeysu á karlmann og fæ að draga 600 grömm af plötulopa frá stassinu. OG HANANÚ!

Get ekki sýnt peysun almennilega því hún á að vera opin og ég á ekki saumavél og það gæti verið að ég komist ekki í að ganga frá henni fyrr en í sumar.