Mér líður í alvörunni eins og ég eigi afmæli. Mér finnst þetta stærri bautasteinn heldur en þegar ég verð árinu eldri. Í dag er bloggið mitt 10 ára. Það er enginn mánuður sem hefur liðið þar sem ég hef ekki bloggað neitt, hér eru yfir 1000 færslur.

Ég fór í klippingu af þessu tilefni. Hafði ekki farið síðan í september í fyrra. Ég fann konu hér í borg síðasta haust sem kemur heim til fólks og klippir það. Mér finnst hún besta klippikona sem ég hef farið til og ákvað þessvegna að fá hana aftur til að klippa á mér strýið.

Hún tjáði mér hinsvegar að hún ynni heiman frá núna, hvort mér væri sama að koma til hennar. Jú, lítið mál, hún býr hérna nánast í næsta húsi. Ég spurði, því hún vinnur heima, hvort ég ætti að koma með þvegið hárið. Hún sagði að hún væri aldeilis til í að þvo á mér hárið fyrir mig og ég þáði það. Þú veist.. helmingurinn af því að fara yfirhöfuð í klippingu eru hárþvotturinn, hann er svo þægilegur að ég gæti fundið uppá því að panta mér bara tíma í þvott, enga klippingu.

Ég hugsaði með mér.. nújá, hún er ábyggilega með svona þvottastól og vask sett upp heima hjá sér, ég meina, það gæti alveg verið. Hugsaði með mér að það væri nú ekki líklegt að hún myndi afklæða mig heima hjá sér og skella mér í sturtu.

Heima hjá henni var enginn hárgreiðslustofuvaskur. Hún þvoði á mér hárið þannig að ég hvolfdi hausnum ofaní eldhúsvaskinn hjá henni. Hann var ekki alveg hreinn. Svo settist ég á óþægilegan en púða og handklæðisklæddan eldhússtól. Hún klippti mig við hliðina á hjónarúminu þeirra.

Samt besta klipping sem ég hef fengið. Hún, eins og bókstaflega ALLIR sem hafa klippt mig, fékk ótrúlegan kláða í fingurna yfir hve hárið á mér er strítt, hálfkrullbylgjað og mikið.. og gróft og vildi slétta það.

Ég var bara í einhverskonar slökunartransi og sagði bara já við því, vitandi að um leið og ég færi útí rakann aftur að hárið myndi hoppa í sinn eðlilega farveg með það sama – það er bara of gott að láta greiða sér!

Allavega. Ég leit amk vel út í dag. Það er af hinu góða, sérlega í tilefni af því að bloggið á afmæli.

Fyrir 10 árum

Á þessum degi fyrir tíu árum skrifaði ég eftirfarandi:

YFIRVOFANDI ÚTFLUTNINGUR

Brottför er 5.júní klukkan vonandi stundvíslega klukkan 7 að íslenskum tíma og lending á dönsku um 12:30 í Kaupmannahöfn. Við munum búa í svokölluðum Hekluhúsum sem má skoða hér
Meira seinna :)”

 

Á þessum 10 árum höfum við tekið ótrúlegum breytingum. Sjáðu bara þessa mynd af Eiginmanninum:

Þessi er tekin 2009, bara fyrir 8 árum síðan og hann er eins og barn. Við höfum reyndar bæði verið frekar barnaleg í framan lengi.. en þetta er út yfir öll mörk.

Svona er hann í dag. Hann er á Instagram ef þið viljið tékka á honum þar.

Kannski er mesti munurinn hve mikið skegg hann getur fengið ef hann ákveður að láta það vaxa. Ég man sko eftir að þegar við hittumst fyrst að hann var ekki með eitt einasta bringuhár, hann var náttúrulega bara 19 ára, annað en núna 20 árum síðar.

Kannski má líka sjá nokkrar línur í andlitinu hans, en mér finnst það ótrúlega sjarmerandi, þá andlitslínur.

Krakkarnir árið 2009 í fótabaði á svölunum á Englandsvej. Það var hreint ótrúlega mikið brallað á þessum svölum.

Hér eru þau á afmæli Frökenarinnar í fyrra. Sennilega nýjasta myndin sem ég á af þessum þremur saman. Þau eru töluvert breytt frá því þarna, þó það sé bara um hálft ár síðan.

Ég sjálf?

Þessi mynd er tekin daginn áður en við fluttum árið 2007

og þessi mynd er tekin í dag

Auðvitað hef ég líka breyst, eins og hjá Eiginmanninum þá felst munurinn aðallega í skegginu sem ég get látið mér vaxa ef ég kysi að láta mér vaxa slíkt… en ég vaxa (haha) það auðvitað í burtu.

Og svo auðvitað nýjasti meðlimur fjölskyldunnar hún Bjútíbína, sem er alveg að bresta í að verða kölluð Formaðurinn eða Forsetinn…eða Foringinn.

2013

og í dag

Framtíðin og framhaldið

..vona ég að séu bara björt og fögur. Þetta er engin kveðjustund og það gæti alveg verið að ég þurfi að ígrunda þessi 10 ár aðeins betur og koma með einhverjar tölur yfir hvaða póstar hafa verið vinsælastir og eitt og annað merkilegt.

Hér er tildæmis einn sem lýsir einstaklega vel því hvernig er að vera margrabarnamóðir í nærbuxum, í bíllausum lífsstíl, að sumri til.

Takk fyrir að hanga á lesaranum allan þennan tíma og ég hlakka til að segja frá fleiru í framtíðinni :)