Nokkrar vel sveittar hjólaferðir hafa átt sér stað hér undanfarna daga. Reyndar erum við hin það sem kallað er fullorðin yfirleitt alltaf sveitt. Að minnstakosti strákarnir. Þeir eru kófsveittir af eldhússteikingasvita eftir vinnudaginn og svo eiga þeir efitr að hjóla heim í ekkert svo miklum kulda og svooo á eftir að koma sér upp stigana hér. Það er andateppuvaldandi eins og ég hef lýst hér áður.

Reyndar var Bóndinn svo agalega næs að lána mér skrifborð sem hann fékk, sem er alveg eins og mitt (nema 6cm hærra þið munið) og truntaðist niður að sækja það fyrir mig meðan ég puðraði í ræktina, þó það kostaði hann umtalsvert magn af líkamsvessum.  Trunta og Puðra.

Númm, að hinum sveittu hjólaferðum

Það  er þannig að Frumburðurinn hefur hafið meðtöku selló kennslu og er hann núna með selló hér sem er nákvæmlega helmingi minna en mitt. Sjálfur nær hann mér reyndar alla leið uppí sveittan handakrikann og skórnir hans eru fáránlega nálægt mínum í stærð, að sjá sko.. hann er ekki ennþá kominn í 38 eða 39 sem betur fer enda bara 8 ára.

Að vera 8 ára stoppar hann reyndar ekkert í því að vera byrjaður að safna fyrir iPhone Touch (gsm sími frá Apple sem hægt er að vera á netinu í og er með snertiskjá).

Aftur að sveittum hjólferðum. Það var s.s þannig að fyrsta daginn í selló brunaði ég með þau tvö eldri í lestinni með hjólin okkar öll þrjú uppí Frederiksberg í tónskólann og Gummi fór í selló tíma og svo fóru þau í Billedskolen sem er þar rétt hjá meðan ég fór í sellótíma..svo þið sjáið að nú þegar eru tvö selló, þrjú hjól, þrjár skólatöskur og ein leikfimistaska með í för. Billedskólinn var ekki búinn fyrr en 16:20 og til þess að missa ekki af því að sækja Örverpið í leikskólann þá  var planið að húrra nú bara með metró aftur niðureftir.

Mér til mikilla óþæginda kemur í ljós þegar við erum búin að bíða of lengi eftir hlandlyktandi metro lyftunni að við megum ekki fara með hjól í hana milli 15:30 og 17:30. Ég minni á að í förinni eru ennþá  tvö selló, þrjú hjól, þrjár skólatöskur og ein leikfimistaska, við hefur bæst óbærilega gott veður.

Við dótum okkur upp aftur með lyftunni.

Það er ekkert annað að gera en að hjóla heim með hollið. Ég er á mínu hjóli eins og skjaldbaka með sólgleraugu, því ég er jú með sólgleraugu og sellóið á bakinu. Það er þannig að það sést bara í hendurnar og fæturnar útundan því. Og svo held ég á sellóinu hans Gvenda sem ekki hefur fengið bakpoka-poka ennþá. Þau eru ekki með sólgleraugu en með skólatöskurnar á bakinu.

Gargar þá sú háværa og hinn eldri leikur bergmálið hennar því mér er lífsins ómögulegt að stofna lífi meðhjólara minna í Kaupmannahöfn í voða með því að reyna einusinni að snúa mér við.

Keðjan hefur dottið af (í ÞÚSUNDASTA skiptið, þarf pottþétt að fara á námskeiðið “hjólið og ég”).  Nú hljóðar ferðin uppá tvö selló, þrjú hjól, þrjár skólatöskur, eina leikfimistösku, of gott veður og keðjusmurningu um allt … og, við erum orðin of sein að sækja Örverpið.

Við komumst alveg á leiðarenda og ég er ekki frá því að æðri máttur hafi verið með mér, þó hann hafi látið mig halda á tveimur sellóum og öllu havaríinu frá Frederiksberg og alla leið útá Amager- því ég missti skap mitt ekki einu sinni. Kannski því ég var þjökuð af samviskubiti yfir því að mæta of seint á leikskólann í fyrsta skiptið (og vonandi það al síðasta) og barnið litla var aleitt eftir með einni fóstrunni. Við höfðum sko hringt og tilkynnt um ófarir okkar en hann var ekki hress næsta dag að vera skilinn þar eftir og talar ennþá um þegar hann var einn á skólanum.

En við komumst heim á endanum.

Síðasta laugardag lentum við börnin í annarri sveittri hjólaferð. Í þetta skiptið dró ég lýðinn með mér í vinnuna. Þau áttu að vera að horfa á dvd í tölvunni meðan ég skúraði og skrúbbaði annarra manna kúk.

Það gekk alveg vel, en ég hafði líka fleira á prjónunum, en það var að fara og skoða Christianiu hjól sem ég hafði fundið til sölu. Þau voru á sínum hjólum og ég á mínu og Sindri aftan á hjá Gumma…nei, djók, auðvitað var hann aftan á hjá mér.

Ég hugsaði með mér að ég ætlaði ekki að þurfa að fara aftur uppeftir til að sækja hjólið ef það væri kaupanlegt svo ég ákvað að við myndum taka strætó á afanga stað. Skemmst er frá því að segja að ég þurfti að hringja heim á Ísland til að fá vegaleiðbeiningar. Í þessari ferð var rigning.

Við fundum að lokum heimilisfangið og litum á hjólið sem er hið flottasta að mér finnst og ákváðum að kaupa það, við börnin þá, eða bara ég ákvað að kaupa það. Planið var síðan að komast í þráðlausa nettengingu seljandans og millifæra bara féð til hans. Kemur í ljós að þetta var par með nýtt barn en enga þráðlausa nettengingu..hvað er það nú eiginlega?? Er fólk ekki með eða hvað?

Hvað skal til bragðs taka..það er ennþá rigning úti og svitinn farinn að leka niður í rassaskoru, Sindri að pissa í buxurnar og þau hin eru dottin út.

Jú, manni stingur uppá því að við förum á næsta kaffihús þar sem er þráðlaust og viti menn, kaffihúsið er Laundromat þar sem Bóndinn er að vinna. Heppilegt, því ég hafði aldrei komið þangað. Ég komst á netið, millifærði féð og fór heim með börnin í hjólinu. Hjólið er ekki nýtt og alveg hundþungt. Er ekki svona light týpa af svona hjólum. En fagurt erða.

Og við puðum heim..það eru um það bil 7km frá Laundromat og heim á Englands. Gummi hjólaði á sínu hjóli, Sindri sofnaði í kassanum einhverstaðar á Christianshavn og Sunneva var reyndar hin hressasta í kassanum líka. Við komumst líka heim eftir þessa svaðilför, ég fór beint í sturtu og hjólið hennar Sunnu er ennþá í vinnunni, þaðan sem við fórum þennan hring í kringum Kaupmannahöfn.

Og enn ein svona ferðin á einni viku var farin á þriðjudaginn síðasta. Þá var sellótími númer tvö. Þarf ekki að taka fram að ég er með tvö selló en núna með 28kg barn í 40kg hjóli í suddalega góðu veðri. Við vorum 30 mínútur að hjóla uppí tónó- á mínu hjóli er ég kannski 15 til 20 mínútur. Ég var svo sveitt eftir sellóið að ég var í alvörunni rassblaut.

Gummi fór í tíma og Bóndinn kom til að taka hann með sér heim. Fyrst fórum við þó að finna búð sem panta átti í poka fyrir sellóið hans Gvenda. Hún fannst á endanum og skiptum við þar um hjól ég og þeir.

Til allrar hamingju get ég geymt mitt selló í stofunni hjá kennaranum þar til minn tími kemur, þ.e eftir að Gummi er búinn, því að hjóla á hjóli sem er með stöng og í svona fjalla hjólsstíl með selló á bakinu og veski (með bók, 1l af vatni, og fleira þungt) án þess að vera með körfu er ekki fólki bjóðandi.

Ég hef það fyrir reglu að vera ótrúlega flott þegar ég er að hjóla. Ég átti örlítið erfitt með það á leiðinni til baka þar sem veskið var fyrir fótunum á mér svo ég þurfti að hjóla með hnén svona út..svo aftan á litið var ég örugglega eins og peðölvuð skjaldbaka.

Fyrir utan þetta þá er hnakkurinn mjór og grjótharður. Þyngsli sellósins og hossurnar í skóginum hjálpa mér ekki til og þó ég hafi ekki kíkt þangað þá er ég nokkuð viss um að ég hafi verið með blúndufar á píkunni ef ekki alla leið uppá rasskinnar eftir þessa sjóðheitu ferð á glæsireið Bóndans.