Já. Ég hélt líka að ég myndi vera geggjað kokhraust eins og venjulega og fleygja því fram að ég væri svakalega mikið að fara að tæma skápana mína af allskonar drasli sem keypt hefur verið og ekkert gert úr, hillurnar að svigna undan þunganum… og svo myndi bara ekkert gerast.

Hér er listinn ef þú ert forvitin/n.

En nei kæri aðdáandi, það er ekki svo í þetta skiptið. Ég finn að mér vex ásmegin í því að vaxa og vera stærri en þvaðrið í hausnum á mér.

Hér er því það fyrsta sem ég bjó til úr því sem er að finna í bansettum skápnum; lakkríste, kalt.

Ég drekk ekki heita drykki nema heitt súkkulaði. Súkkulaði fær alltaf séns, útaf því að það er súkkulaði. Kaffi og te.. kaffi mun ég sennilega aldrei drekka og ég hef reynt að gerast tedrekkari en það hefur ekki tekist með neinum árangri heldur.

En kalt te? Með lakkrísbragði? Og heilsusamlegum aukaverkunum? Já takk.

Það sem ég notaði úr skápnum var kurlaða lakkrísrótin. Teið er búið til með því að skera niður túrmerik rót og engiferrót, bara svona slatta af hvoru og sjóða svo vatn, svona fyrir tvo bolla og bæta rótunum og svo kurluðu lakkrísrótinni útí og láta kólna í pottinum.

Þessu helti ég síðan á flösku og drakk meðan ég var að vinna. Það á að vera bólgueyðandi og heilsueflandi.


Hvað er á bak við te-flöskuna spyrðu? Það er nú í meira lagi spennandi. Þetta eru garnlitir. Ég er búin að lita nokkur görn og það er bæði geggggggjað flott og gegggggggjað gaman.

Svo gleymdi ég að uppfæra garnstassið, en það er gert hérmeð. Plötulopinn niður um tvö pör af ullarsokkum eða 300 grömm.

Ekki gleyma því samt að ég er búin að prjóna úr stassinu í eitt ár. Þetta er það sem ég hef prjónað:

Það hefði verið töff að hafa vigtað þetta allt, en ég er greinilega meira gáfuð núna heldur en ég var í fyrra. Það er annað merki um að ég hljóti að vera að vitkast og þroskast með tímanum. Allir sem eru eldri en ég geta kannski staðfest þennan grun minn.

Ekki má síðan gleyma garninu sem fór í þrjár lopapeysur, engin af þeim í stærðinni S.. allar í stærðinni L. Ég er búin að brenna myndirnar af þeim, þú veist, svona eins og maður gerir við myndir af gömlum kærustum í bíómyndum og þáttaröðum. Hélt bálveislu og dansaði stríðsdans yfir logandi ófögnuðinum.