Föður mínum sennilega til mikillar ánægju eru hér nýjar prjónaleiðbeiningar, eftir að verða örugglega meira en árshlé á þeirri iðju. En ég meina, það þarf að vera pláss fyrir allt sem er að veltast um í hausnum á mér á þessu bloggi, líka prjón.

Ég er alltaf með eindæmum ringluð í hvað á að þýða hin og þessi prjónaheitin á, á íslensku, þú veist, ef ég finn þetta á dönsku eða ensku. Þetta hef ég ákveðið að kalla sikksakk prjón. Er mega flott í stroff og sennilega enn betra í trefil.

Svona prjónar þú sikksakk prjón

SKAMMSTAFANIR:

sl = slétt prjón (1sl = ein slétt lykkja prjónuð)

br = brugðið prjón (1br = ein brugðin lykkja prjónuð)

L = lykkja

Sikksakk munstrið prjónast í margfeldi af þremur og svo plús ein lykkja.

Til þess að prufa gætir þú fitjað upp 37 L (12 x 3 = 36 + 1 = 37L)

1.umf: 1br, *hoppið yfir fyrstu L, prjónið í aftara bandið (ekki taka L fram af prjóninum), prjónið sl í fremra band (eins og venjulega) fyrstu L og takið báðar L af prjóninum, 1br. Endurtakið frá * til enda umf.

2. umf: 1sl, * hoppið yfir fyrstu L, prjónið brugðið í næstu L (ekki taka L fram af prjóninum), prjónið br í fyrri L og takið báðar L af prjóninum, 1sl. Endurtakið frá * til enda umf.

Endurtakið umf. 1 og 2 þar til verkið hefur náð tilætlaðri stærð, endið á umf. 2.

Fellið af á réttunni í munstrinu 1br, 2sl.

Myndskýringar

prjónaleiðbeiningar um hvernig á að prjóna sikksakk prjón

1.umf: 1br, *hoppið yfir fyrstu L, prjónið í aftara bandið (ekki taka L fram af prjóninum), prjónið sl í fremra band (eins og venjulega) fyrstu L og takið báðar L af prjóninum, 1br. Endurtakið frá * til enda umf.

Á réttunni. Þarna er ég búin að prjóna eina brugðna (ör 1 á myndinni) og  setja prjóninn í hægri hendi í aftara bandið á lykkju númer tvö (ör 2 á myndinni) og prjóna slétt án þess að taka lykkjuna af prjóninum, strax á eftir prjóna ég fremri lykkjuna (ör 3 á myndinni) venjulega og tek svo báðar saman af prjóninum.

Ein brugðin.

 

2. umf: 1sl, * hoppið yfir fyrstu L, prjónið brugðið í næstu L (ekki taka L fram af prjóninum), prjónið br í fyrri L og takið báðar L af prjóninum, 1sl. Endurtakið frá * til enda umf.

Á röngunni. Þarna er ég búin að prjóna sléttu lykkjuna sem er á milli (hún sést ekki á myndinni, er undir fingrunum á mér) og er að undirbúa að prjóna lykkju 2 (ör 2 á myndinni) brugðið en án þess að taka hana af prjóninum. Strax á eftir prjónaði ég fyrri lykkjuna (ör 1 á myndinni) eins, þ.e brugðið, og tók þær báðar af prjóninum.