ommuferningur

Ömmuferningur er sennilega eitt það sem allir heklarar hafa prufað að hekla. Það er eitthvað undarlega róandi við taktinn í því að hekla ömmuferninga. Það er hægt að hekla þá á margan máta, litla, stóra, einlita, marglita, festa marga saman eða búa til risastórt teppi úr einum ömmuferning. Ömmuferningnum eru nánast engin takmörk sett!

UPPSKRIFT AÐ ÖMMUFERNINGI
Lykkjur í uppskriftinni:

1. Heklið 6 ll og tengið í hring með kl. Með sama lit heklið 3ll ( = fyrsti st ), heklið svo eftirfarandi í miðju hringsins: 2st, 3ll, 3st *3st, 3ll, 3st* endurtakið frá * – * tvisvar í viðbót, tengið með kl  í 3ju ll slítið frá og skiptið um lit.

2. Festið garnið í hvaða loftlykkjubil (3ll) sem er og heklið 3ll ( = fyrsti st ),

[ 2st, 3ll, 3st] í ll-bilið ( = horn ), *1ll, [3st, 2ll, 3st] í næsta ll-bil, endurtakið frá * tvisvar í viðbót, 1ll, tengið með kl  í 3ju ll. Slítið frá og skiptið um lit .

3. Festið garnið í hvaða horn sem er og heklið 3ll ( = fyrsti st ), [2st, 3ll, 3st] í hornið, * 1ll, 3st í næsta ll-bil, 1ll,  [3 st, 3ll, 3st] í næsta horn*, endurtakið frá * – * tvisvar í viðbót, 1ll, 3st í næsta ll-bil, 1ll,tengið með kl  í 3ju ll. Slítið frá og skiptið um lit.

4. Festið garnið í hvaða horn sem er og heklið 3ll ( = fyrsti st ), [2st, 3ll, 3st] í hornið, * [1ll, 3st] í hvert ll-bil á milli horna, 1ll, [3st, 3ll, 3st] í næsta horn*, endurtakið frá * – * tvisvar í viðbót, [1ll, 3st] í hvert ll-bil að horni, 1ll, tengið með kl  í 3ju ll, slítið frá…

Svo bætir þú bara við umferðum þar til þér sýnist ferningurinn tilbúinn.

Það er líka hægt að breyta til, það er ekkert grafið í stein í heklinu. Til þess að fá þéttari miðju á ferning þá geri ég oft bara 3 ll alveg í byrjun, það er alveg pláss fyrir 12 stuðla þar í og miðjan verður þéttari.

Svo er það þetta með alla endana, maður verður að sætta sig við að þurfa að ganga frá mörgum endum ef ömmuferningurinn er marglitur. En hvað um þá einlitu? Þeir eru svolítið heitir í dag skal ég þér segja!  Ætli ég sé ein um að finnast það ergilegt að þurfa að klippa garnið og festa aftur við í næsta horni ef ferningurinn er einlitur?  Ég leyfi mér að efast um það. Þessvegna er ég spennt fyrir að skrifa næsta póst, því hann fjallar einmitt um það hvernig hægt er að hekla einlitan ferning með bara tveimur endum til að ganga frá.