fullkominn-hringur Það er auðvitað glatað að ætla sér að hekla flatan hring en enda svo með einhverskonar sexkant. Það er hellingur af leiðbeiningum á internetinu sem segja til um hvernig á að hekla hinn fullkomna hring og ég hef prufað nokkrar og hef gert smá samantekt á því hvernig mögulega er best að hekla hinn fullkomna flata hring. Samkvæmt flestum leiðbeiningum er talið best að auka út um 6  í hverjum hring þegar gerður er flatur hringur með fastapinnum, um 8 þegar hálfir stuðlar eru notaðir og um 12 þegar stuðlar eru notaðir. Ætli það sé þá ekki um 18 ef það á að nota tvöfalda stuðla, en ég hef ekki prufað það. EN! Það er eiginlega eitt í viðbót sem þarf að hafa í huga fyrir utan töfratölurnar 6, 8 og 12 ef það á að forðast sexkantinn leiðinlega og það er hvernig útaukningunum er dreift á lykkjurnar í hverri umferð. Hin dæmigerða uppskrift að hring hljómar einhvernveginn svona (fyrir hring heklaðan með fastapinnum):

  1. 6 fp í töfralykkju = 6
  2. 2fp í alla fp  = 12
  3. *1fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – *  =18
  4. *2fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – *  =24
  5. *3fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – *  =30
  6. *4fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – *  =36
  7. og svo framvegis

Við þetta myndast sexhyrningur sem er náttúrulega langt frá því að vera hringur, sem augljóst er að hefur ekki nein horn. Galdurinn er þá sá að það verður að vera mismunandi hvenær útaukningin á sér stað. Hér er tillaga að því hvernig hægt er að haga útaukningunni:

  1. 6 fp í töfralykkju = 6
  2. 2fp í alla fp = 12
  3. *1fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – *  = 18
  4. *2fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – *  = 24
  5. *3fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – * = 30
  6. (hér hefst galdurinn) 2fp, *2fp í næsta fp, 4fp* endurtaka frá * – *, 2fp  = 36
  7. *5fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – *  = 42
  8. 3fp, * 2fp í næsta fp, 6fp* endurtaka frá * – *, 3fp  = 48
  9. *7fp, 2fp í næsta fp* endurtaka frá * – *  = 54
  10. 4fp, *2fp í næsta fp, 8fp* endurtaka frá * – *, 4fp  = 60
  11. og svo framvegis..

Í þessari tillögu að hinum fullkomna flata hring er heklað í spíral. Það kemur vel út þegar notaðir eru fastapinnar og eðli málsins samkvæmt þá færist byrjunin alltaf til um einn, þannig það hjálpar til við að minnka líkurnar á að það myndist horn. Ef þú síðan tekur eftir að það er að myndast sexhyrningur, þrátt fyrir að þú sért að fara eftir þessum leiðbeiningum, þá hef ég það þannig að ég reyni að hafa útaukninguna á milli hornanna sem eru að myndast, í hverri umferð. Það ber minnst á hornamyndun þegar hringurinn er lítill en mest þegar hann er gerður stór og ef þú ætlar t.d að gera mottu, þá getur verið að það þurfi einmitt að víkja frá uppskriftinni hér að ofan og dreifa enn betur, en halda samt í að auka útum 6, 8 eða 12 eftir því hvaða heklspor er notað. Ég lokaði hringjunum á myndinni hér að ofan með einni umferð án útaukninga, en passaði að hekla ekki of fast svo hringurinn myndi ekki verpast. Fastapinnahringurinn finnst mér flottur og stuðlahringurinn, sem er ekki heklaður í spíral, en hálfstuðla hringinn myndi ég næst hekla með því að loka hverri umferð, eftir því kannski hvað ætti að nota hann í.

FYRIR FLATAN HRING MEÐ HST
Ef það á ekki að hekla í spíral: enda allar umf. með kl í fyrsta hst, byrja allar umf. á 2ll sem reiknast sem fyrsti hst.

  1. 8 hst í töfralykkju = 8
  2. 2hst í alla hst  = 16
  3. *1hst, 2hst í næsta hst* endurtaka frá * – *  = 24
  4. *2hst, 2hst í næsta hst* endurtaka frá * – *  = 32
  5. *3hst, 2hst í næsta hst* endurtaka frá * – *  = 40
  6. 2hst, *2hst í næsta hst, 4hst* endurtaka frá * – *, 2hst  = 48
  7. *5hst, 2hst í næsta hst* endurtaka frá * – *  = 56
  8. 3hst, * 2hst í næsta hst, 6hst* endurtaka frá * – *, 3hst  = 64
  9. *7hst, 2hst í næsta hst* endurtaka frá * – *  = 72
  10. 4hst, *2hst í næsta hst, 8hst* endurtaka frá * – *, 4hst  = 80
  11. og svo framvegis..

FYRIR FLATAN HRING MEРST
Enda allar umf. með kl í fyrsta hst, byrja allar umf. á 3ll sem reiknast sem fyrsti st.

  1. 12 st í töfralykkju = 12
  2. 2st í alla hst  = 24
  3. *1st, 2st í næsta st* endurtaka frá * – *  = 36
  4. *2st, 2st í næsta st* endurtaka frá * – *  = 48
  5. *3st, 2st í næsta st* endurtaka frá * – *  = 60
  6. 2st, *2st í næsta st, 4st* endurtaka frá * – *, 2st  = 72
  7. *5st, 2st í næsta st* endurtaka frá * – *  = 84
  8. 3st, * 2st í næsta st, 6st* endurtaka frá * – *, 3st  = 96
  9. *7st, 2st í næsta st* endurtaka frá * – *  = 108
  10. 4st, *2st í næsta fp, 8st* endurtaka frá * – *, 4st  = 120
  11. og svo framvegis..