Mér skilst að það sé komið vor. Svo segja allavegana fuglarnir hér allt um kring, skítafílan í sveitunum og sprússandi gott veður hér í fyrradag, á sumardaginn fyrsta og í gær og í dag. Þrír heilir dagar og veðurspáin segir ekkert um neinn kulda fyrr en einhverntíma í næstu viku. Fyrir mér er þetta bara mjög vel, eins og ástsjúkir (á mér) lesendur mínir vita mæta vel þá er ég alls ekkert fyrir kulda þó Íslendingur sé heldur mun meira fyrir að vera í hita.

Ég á mér lítið athvarf hvað varðar hita. Neibb, ekki í þvottahúsinu þó svo að þar sé glóðvolgt eiginlega alltaf og neibb, ekki á baðherberginu, í þessu húsi er ekki hiti í gólfum og ég sest alltaf á ísjökulkalda setuna á morgnana.. hverjum finnst það vera þægilegt.. ekki mér.  Nei atharfið er auðvitað í Skrúðvangi. Þar voru t.d 32 gráður í hita um tíma í dag. Auðvitað alltof heitt fyrir það sem ég er að rækta þar, svo ég varða að opna alla mögulega glugga til að kæla kofann niður. En samt, eftir það voru 18 til 20 gráður og það er besta veðrið, sérstaklega þegar það er ekki rok, sem er ekki það mikið um inní glerhúsum. Ég elska Skrúðvang svo mikið.

Við erum alveg á húrrandi fullu að gera þetta upp, það er ekki lítil vinna eða neitt þannig en ég myndi ekki vilja vera að neinu öðru.

Komið svo mikið dagsljós að ásamt því að sofa með eyrnatappa sef ég núna með svona augngrímu, svona svefn-augngrímu, svo ég vakni ekki á ókristilegum tíma. Skyndilega ekkert mál að fara frammúr á morgnana. Annað en í febrúar þegar ég hefði mögulega gefið annan handlegginn fyrir að ég myndi breytast í björn og gæti þarafleiðandi étið mér til óbóta og farið svo bara í hýði og ekkert þurft að fara á fætur fyrr en um vor hvort sem er.

Elska vor, birtu, lykt og kviknandi líf.