Kannski verður hún ekki leikari eða yfirnáttúrulegur listamaður. Kannski verður hún kennari. Að minnstakosti hefur hún stofnað skóla í herberginu sínu. Skólinn heitir Skólinn hennar Sunnevu. Þar er Örverpið dregið inn á rassgatinu og látið læra og segja já fyrir alla sem lesnir eru upp.

Seltjarnarnesið kom á óvart. Vorum þar um daginn eitthvað að bjástra með Ömmu R. Þar kom í ljós þetta stórgrýti sem hafði fagurskapaða holu í sér miðju og uppúr henni kemur heitt vatn. Já, dömur mínar og herrar, það er steinn í fjörunni á Seltjarnarnesi sem uppúr kemur heitt vatn. Ég sé fyrir mér að fara í fótabað þarna einn góðan vetrardag.

Á meðan ég væri í fótabaðinu myndi ég gæða mér á náttúrulega soðnum rækjum…

Að vera í fótabaði í grjóti í fjörunni og borða soðnar rækjur uppúr sama potti er í fullkomnu samhengi við fjárhagsástand Félagsbúsins.  Já, það má eiginlega bara kalla þetta ástand. Maður má nefnilega þakka fyrir að eiga fyrir salti í grautinn og þá er nú heppilegt að getað bara sótt sér soðna rækju og breytt sér í hund, en það gerðu Sprengjan og Örverpið um helgina.

Helgarnar þar sem við erum bara þrjú heima, ég og þau tvö helgast oft þrifum og allskonar uppátækjum sem þessum. Það er bara fínt.

Og þar sem salt og soðnar rækjur er það eina sem kemst á diskinn minn þurfti ég að sníða mér stakk eftir vexti og fara í Góða hirðinn að gramsa eftir dóti. Eða eiginlega fór ég þangað um daginn að leita að svona gamaldags svörtum skífusíma, fann hann ekki en tók eftir að þarna er hægt að fá krakkahjól á dýrast, að ég sé 2500 kr. Ég tryllaði þangað í dag og náði í eitt hjól fyrir Örverpið og kostaði það heilar 1.500 kr. Auðvitað er það ekkert fallegt og hann var ekki alveg á því að setjast á eitthvað sem ég veit að hann hugsaði að væri stelpuhjól, þó hann segði það ekki.  Hjólið á hann að nota þangað til hann passar á annað hjól sem hann á (þúúúúúúsund þakkir í Lyngbrekkuna!!!)  sem er milljónsinnum flottara en þetta. Redda sér.

Ég hjólaði með nýjagamla hjólið á stýrinu niður í Neskirkju, þar sem Örverpinu er skilað úr skólarútunni. Og þar einmitt hittum við Frumburðinn, Prinsinn, Búnglinginn..

… sem hefur núna ákveðið að hans andlit muni ekki sjást á myndum héðan í frá.  En töff er’ann.

Og svo er haustið komið. Það er samt búið að vera alveg bilað gott veður hér. Langt yfir 10 stiga hiti og bara logn og smá andvari flest alla daga. Þá er nú gott að ferðast um á hjóli og njóta dýrðarinnar sem fyrir augu ber. Elska hverfið mitt. Svo eru ALLIR Á HJÓLI!! Það eru ALLIR AÐ HJÓLA. Það er í alvöru þannig í Reykjavík núna fulllllt af fólki á allskonar hjólum. Ekki bara hundrað gíra fjallahjól með stjálfsstýringu og á því situr fólk í þröngum aðsniðnum geimbúning. Nei, bara venjulegt fólk á kúl hjólum, allskonar á litinn. Ég er viss um að þegar það er orðið svona óverfló af fólki hjólandi þá muni vera bættar samgöngur fyrir hjólandi.

Og prjónaskapurinn. Fyrir skemmstu byrjaði ég að prjóna aftur. Venjan hefur verið þannig að ég hef bara prjónað þegar ég hef verið ólétt og hef tengt löngunina við að þurfa að vera að einhverju en vera of umfangsmikil til að geta í rauninni hreyft mig annað en á klósettið og aftur uppí sófa. En svo í fyrra fékk ég prjónadellu og hef hug á að læra að hekla líka. Þar sem ég er afar yfirgripsmikil í verki, þá er ég búin að prjóna tvær barna lobbur og eina fullorðins. Eina sem er í frágangi og aðra hálfa. Hef setið sveitt síðustu kvöld að ganga frá og þetta er peysan hans Örverpis. Ég vil eiginlega vera í henni mér finnst hún svo flott.

Sjáðu bara! Tryllt flott peysa. Verst var að þegar ég, með hrærðar tilfinningar yfir dugsemi minni og brosti í gegnum gleðitárin yfir loksins að hafa klárað eitthvað, var að bleyta upp í peysunni og leggja til þerris þá kom í ljós að ég hafði gert villu í munstrinu á annarri erminni. Ætla ég að rekja hana upp?.. NEI. Ég mun sko ekki rekja hana upp, ég ætla bara ekkert að segja neinum frá því að það sé villa á erminni. Ég er líka með bólu á kinninni, þú veist.. allt getur ekki verið ímynd þess fullkomna.

Og það eru A L L I R á hjóli!

Og það má láta mig vita ef einhver lumar á svörtum eða rauðum gamaldags skífusíma. Ég vil fá svoleiðis.