Nú eru bæði eldri börnin í skólanum og yngri börnin sofandi. Já, þau lifa ljúfu lífi. Ég var ánægð þegar ég brölti framúr í morgun kl 8 að það var orðið bjart. B j a r t. Ég er bara ekkert fyrir að hafa myrkur, bara alveg núll. Mér finnst m.a.s ekki vera þess virði að nota sparperur því þær gefa ekkert ljós. Ég myndi sennilega alveg geta búið í flennistóru opnu svæði með engum veggjum, eða fáum, og flóðlýsingu, amk yfir vetrartíman.

Að efni póstsins. Ég er búin að sitja hér við eldhúsborðið að hekla smá og ráfa á netinu og bara eitthvað að skoða á fésbókinni og önnur blogg. Rakst á svona afmælisdaga lista á fésinu og brast í svona histeríu hlátur þegar ég uppgötvaði að minn eigin eiginmaður er að verða 37 ára.

Síðan hvenær er mitt samferðafólk að verða 37, 38 og bara 40 og eitthvað ára gamalt? Hvert fór tíminn og afhverju á ég alltí einu tvo hormónahnoðra sem eyða meiri tíma fyrir framan spegilinn en ég.

Við vorum að hlægja að þessu eitthvað og hafði Eiginmaðurinn orð á því að samkvæmt sögunni væru bara þá örfá ár þar til við gætum fyrir alvöru farið að njóta okkar. Allt er fertugum fært.

Þá fór ég að hugsa hvað mannslífið er að miklum hluta ótrúlega mikið andlegt púl. Unglingsárin.. þú veist, ég man ekki einusinni almennilega eftir þeim. Að mörguleiti erfið fyrir mig af ýmsum ástæðum, en fyrir utan þær er svo mikið að gerast inní manneskju sem er að breytast í fullvaxta (þú tekur eftir að ég segi ekki fullþroska) einstakling.

Eftir að maður hefur brotist í gegnum þennan áratug frá 10-20 ára, þar sem á tímabili hendurnar náðu niður á hné,  ég hafði trúðsfóta einkenni, bólur, fílapensla og teina. Hártilraunir sem voru allt frá fjólubláum bara aftan á (ef þú hefur séð á mér hárið veistu að það dugar ekki að nota bara einn búðar litapakka), yfir í dökk brúnan, yfir í lásí tilraunir til að lýsa hárið = gult, og einhverntíma var ég með appelsínugult og aflitað í mega þykkum strípum. Og að klæða sig í falleg, smart (nei, hættu nú alveg, farin að nota orðið smart, þá er víst að ég er að verða 40 eftir smá) föt.. kunni það ekki þá og kann það varla núna, hef þó vit á því núna að klæða mig í þægileg föt.

Semsagt, eftir að maður gengur í gegnum unglingsárin, tekur við bara unglingsár 2! Þannig að ásamt því að vera ennþá með bólur og fílapensla, þá er maður orðinn “fullorðinn” og foreldri. Já, tökum þessu ekki rólega og spýtum út amk 3 börnum meðan maður er sjálfur barn. Ef ég gæti teiknað að ráði þá myndi ég teikna myndina sem ég er með í kollinum af mér og Bónda á þessum árum, frá 20-30. Grafin í vinnu til að eiga fyrir hús, bíl og skuldum, með 3 börn í pilsfaldinum og áhyggjur heimsins á herðunum.

Hugsanagangur einstaklings milli 20 og 30 einkennist bara af prumpufýlu því maður er bara með hausinn uppí óæðri endanum (hvað er æðri endinn??) allan tíman að rembast við að vera eitthvað sem maður veit ekki hvað er og veit ekki í hvaða átt á að stefna einusinni. Rétt upp hend sem skilur hvað ég er að fara með þetta.. ég VEIT að ég er ekki ein.

Þannig eru farnir amk tveir áratugir í hugsanaflækju, lífsmistök og almenna ruglu við það að æfa sig að lifa fullorðins lífi.

Þá verðum við 30. Við erum ekki orðin fertug ennþá þannig að ég verð bara að taka árin frá 30-35 (er næstum að verða). Nú er bara eitthvað annað hljóð í skrokknum. Bókstaflega. Strax eftir að hafa losnað við bólur og fílapensla, teina, ljótt hár og mjög háværar hugsanir um að eiga að vera svona eða hinsegin á kroppinn, þá finnst það strax að kroppurinn er byrjaður að eldast. Engin mega ummerki ennþá og það er töluvert síðan ég tók eftir hrukkum í kringum augun og gráum hárum.  Finn samt að það er erfiðara að t.d vinna mjög mikið í einu, ég tými alls ekki að fara ekki að sofa yfir eina nótt, eitthvað sem kom kannski ekki að sök, þó maður sleppti einni nótt hér eða þar. En í staðinn er ég sátt við kroppinn. Auðvitað finnst mér ekki mjög fallegt og heldur ekki mjög aðlaðandi að vera með magaskinn sem lafir niður á mið læri, sigin brjóst ef brjóst skyldi kalla og sorgmæddan rass. En líkaminn gaf mér fjögur börn  og fer með mig allt sem ég vil, svo ég er bara glöð með garminn. Líka þegar hann er loðinn.

Það sem mér finnst hinsvegar gott er að það er alveg að greiðast úr hugsanaflækjunni. A.m.k í mínu tilfelli, þá hugsa ég mikið hreinna og á orðið mjög gáfulegar samræður við sjálfa mig um hvað er og hvað er ekki. Ég þekki orðið sjálfa mig mjög vel. Það er ferlega gott, vildi bara að ég hefði kynnst mér fyrr, því eins og að kynnast annarri manneskju, þá tekur alveg slatta af tíma að kynnast sjálfum sér.

Nóg um það.

Niðurstaðan er þessi:

Það tekur hátt í 30 ár að verða almennilegur inní sér. Amk ef þú ert eins og ég. Kannski er ég bara ein um að vera svona hægþroska.. held samt ekki.