Já, svo ótal margt að fara að gerast en ekki búið að gerast, en er í vændum að ég á erfitt með að segja sögur. Ég er í startholunum að byrja að pakka en pökkun hefst á mánudaginn og skulu hafðar hraðar hendur.. annað þýðir ekki, því þá kæmi ég ekki búslóðinni með heim.

Hlakka til að koma heim á Ísland, hlakka til að vera búin að særa til mín íbúðina í Vesturbænum. Hlakka til að byrja í vinnunni og bara hlakka til yfir höfuð.

Þú kannski tekur eftir að bloggið Skrítin.is hefur fengið allt annað og nýtt útlit. Og efst er komin veðursýnir. Já, ég hef það veðursýnir því þetta er ekki veðurspá. Veðursýnirinn er grafíklega séð unninn úr ljósmyndum af mér og frá náttúrunni og teikningum sem ég teiknaði svona líka fagmannlega í gegnum verkefni mitt Design pr. Day.  Þá kóðaði ég svolítið af því sjálf en fékk síðan töluverða hjálp frá vinum, vandamönnum og internetinu sjálfu. Mér finnst það flott.

Ég er líka búin að uppfæra aðeins um meðlimi þessa Félagsbús, enda voru síðustu upplýsingar hljóðandi uppá Örverpið með snuð og Bóndann í skóla. Ég er ekki búin að uppfæra um Bústýruna, enda er svo sem engu við frábæri mitt að bæta nema frábæri.

Þarna á myndinni er Bóndinn við iðju sem ekki er sjaldséð sjón.. Hvað eru mörg hjólhræ á svölunum kannt þú að spyrja. Það veit ég ekki, en ég hef alið sjálfa mig þannig upp að þegar ég kem nálægt þessum svölum að ég fyllist æðruleysi, umburðarlyndi og svo verð ég líka blind hægra megin, svo ég get ekki sagt þér hvað eru mörg hjólhræ.

Og þarna er ein af Bústýrunni í kunnuglegum aðstæðum. S.s að taka af sér sjálfsmyndir í speglinum, með krumpað andlit að reyna að fá meiri fegurðu úr myndavélinni. Hún hlýðir ekki.

Þessi mynd var tekin þegar mér leiddist svona svakalega um daginn, enda myndi enginn heilvita, nema þeim leiðist svona mikið, taka myndir af sjálfum sér í spegli. Skemmtilegt við þessa mynd er bolurinn minn. En hann hef ég átt lengi en aldrei tekið eftir að pían á honum er með alveg eins hár og ég.

Ég kann að velja.