blomstur-i-haga

Ahh og þá er komið sumar. Eftir ótrúlega kalt vor þar sem meira að segja snjóaði (í 7 mínútur á tveimur dögum) er komið sumar. Ég veit það vegna þess mín svakalega sterka eðlisávísun bókstaflega gargaði á að ég myndi taka til í útifataskápunum og færa allt sem heitir þykk úlpa, vettlingar, húfa, lopapeysa og allan almennan vetrarklæðnað uppí efra hólfið á skápunum. Áður fyrr, þegar ég hafði geð á því að geyma fötin mín í geymslum, fór ég alltaf með þennan fatnað niður og geymdi í þetta hálfa ár sem á honum er ekki þröf. Núna finnst mér það viðbjóður (því geymslur hér eru fullar af silfurskottum og í hausnum á mér eru fleiri, fleiri mölflugubú (því ég er ekki enn búin að ná mér eftir uppákomuna þarna í byrjun árs 2014) ).

Fyrir utan að eðlisávísunin sagði mér að taka til í fataskápunum mínum þá er ég líka búin að gleypa flugu í miðju gjammi á (hjóla)ferðinni OG ganga í gegnum kóngulóarvef. Svo er allt orðið húrrandi grænt.

Haldið áfram með vorverkin:

eiginmadurinn-og-fagri-i-gardinum

Eins og ég sagði frá fékk Fagri leigðan skólagarð. Þegar við fórum síðasta sunnudag var sáð fyrir radísum, steinselju og tveimur gerðum af lauk. Mér finnst þetta endalaust gaman og hef sjálf hafist handa í mínum eigin svalagarði.

Það sem er merkilegt við þessa mynd er að á henni eru bara feður með börnum sínum í matjurtagarðsræktun. Ég veit það er ekki allstaðar þannig en af því að dæma sem ég sé í kringum mig þá gera feður alveg það sama og mæður, og öfugt. Ég meina ekki að ég muni eftir einhverskonar undrun í mínum haus að ég þyrfti bara alltaf að þrífa og gera allt hvað varðar uppeldi barnanna, ég er af þeirri kynslóð að ég vissi til að byrja með ekki að það væri þannig kynjaskipting og hefur aldrei fundist það annað en sálfsagt að við gerum bæði það sem þarf… auðvitað má skipta niður verkum eins og við gerum ef það þarf að bora eitthvað t.d .. ég bara er ekki góð í því.

En mér finnst eins og þetta hafi ennþá meira blandast.

Í Bilka (matvöruverslunin) núna undanfarið hefur verið í boði að fá svona litla pappaferninga sem innihalda mold og nokkur fræ að hinu eða þessu. Við sáðum þessu öllu að sjálfsögðu og gróðursettum svo á endanum í kassa á svölunum. Spennandi að sjá hvað kemur úr því. Þar fyrir utan verð ég með jarðaberin mín og berjatrén. Veit ekki almennilega hvort ég nenni tómötunum í ár en er meira á því að rækta mér salat og lauk og þannig.

 

fagri-i-gardinum

Náttúrubarnið við garðinn sinn.

chinchillas

Þetta er s.s einn chinchilla (borið fram: tsjintsjilla). Já, Úngmennið, eða Geðmundur eins og hann er stundum nefndur fékk á heilann að hann langaði í þessi dýr. Það sem er klikkað þegar hann langar að gera eitthvað þá hefur hann svo sterka löngun að hann lætur það bara gerast.

Ég vil meina að þessi hæfileiki geti verið mjög stór kostur, sé rétt með hann farið. Tsjillarnir, sem eru tveir, eru ferlega sætir, en þeir eru nagdýr, sem að mínu mati eru eins og kanína og kengúra þjappað saman í einn, minni böggul.

solarorkan

Kannski er ég eins og sonur minn eða hann eins og ég. Mig hefur lengi langað að kaupa mér svona sólarhleðslutæki. Og ég lét verða af því núna um daginn. Vá hvað það er ÓTRÚLEGT að geta stungið símanum í samband við sólina. Tryllt!

Það sem ég ætla hinsvegar að gera næst er að kaupa svona batteríbanka, eða geymi frekar, sem ég get hlaðið í sólinni og svo notað rafmagnið á honum til að hlaða síma eða iPad eða hvað það er sem þarf að hlaða.

Ég er að fíla skrefin í þessa átt, þau eru bæði spennandi og skemmtileg.