Ræðum þetta aðeins. Hvað er þetta spyrðu? Jú, þetta er bæði tvinni og HÁR! úr sjálfri mér. Eiginmaðurinn fann það við ennið á mér hér um daginn.

Það er hægt að grínast með þetta á margan máta, en fyrst verð ég að segja þér að neðri þráðurinn er tvinninn, en hitt er hárið á mér. þetta hár úr mér er mikið, mikið stífara en tvinni sem lekur bara niður eins og t-lingur sem þarf á viagra að halda.

Ekki hárið á mér. Nei aldeilis ekki, hárið úr mér er pinnastíft og sennilega með eigin vilja. Gráu hárin mín eru ekki einusinni svona gróf þó svo að þau séu töluvert grófari en hið almenna hár á mínu höfði.

Skoða þetta í betra samhengi? Að sjálfsögðu vinur, ég er til í að tala um þetta og skoða, endalaust.

har

Efst er þá tvinninn, þá hin óskilgreinda hártýpa. Þar á eftir kemur venjulegt hár af hausnum á mér. Sem er, í þessu samhengi, mjög fíngert. Sem það er náttúrulega ekki í alvörunni, en í samanburði við tvinna og þetta stökkbreytta hár, er það fíngert.

Neðst er svo hár úr Eiginmanninum. Hann og ég erum jafn ólík og hárið á okkur. Ég er með brjálað, þykkt, strítt, hvorki slétt né krullað hár sem spyr engan um leyfi fyrir því hvernig það lítur út og hann er með þráðbeint, mjög fíngert en samt þykkt, gullfallegt hár. Það er þeirrar gerðar að ef það er ekki sett neitt efni í hárið, vax eða gel eða eitthvað þannig þá spyr það heldur engan hvernig það lítur út, eigum það þó sameiginlegt. Hárið á mér mun mynda óveðursský í kringum mig og reyna að koma sér uppí nefið á öllum nærstöddum og þar á eftir reyna að dreifa sér útum öll gólf og í alla sófa (bara eins og hundur þið vitið). Hárið á honum mun mynda fallegan geislabaug í kringum höfuð hans svo hann byrjar að ljóma eins og engill. Sem hann er náttúrulega, en mér finnst samt ósanngjarnt að geislabaugurinn hans fái stuðning frá hárinu á honum en geislabaugurinn minn er bara flæktur og í algjöru tjóni og gott ef ekki týndur einhversstaðar.

En já, hægt að grínast með þetta á margan máta:

  • mun ég verða með svona hár allstaðar eftir nokkur ár og að lokum byrja að sópa og skúra á höndum og nota hárið á mér fyrir kúst..
  • ætli, þegar skaparinn var að sá fyrir mér að hann hafi óvart misst nokkur skapahárs-fræ á vitlausan hárastað og alveg bara búbbbbsssss.. og nennti svo ekki að gera neitt í því…
  • ætli ég sé í raun og veru Hallgerður og það sé í alvöru hægt að láta sér vaxa hár sem hægt er að nota í boga…
  • er það svona sem Búkolla komst að því að það væri hægt að taka hár úr halanum á henni og leggja það á jörðina og láta úr því verða hitt og þetta svakalegt.. ég sé Búkollu fyrir mér.. alveg..  noj, noj, noj, risaþykkt hár í halanum á mér, best að ég kippi því úr og sjái hvort ég geti ekki breytt því í ..ö, látum okkur sjá.. BÁL!

Látum þetta duga.