Nú er komið að því. Ég hef í að verða 100 ár ætlað að gera eitthvað í mataræðinu, hætta að vera meðalmanneskjan sem aðhefst ekkert í sínum málum og lætur sig dreyma á meðan samviskubitið étur hana innanfrá.. ok, dramatískt kannski en það ER komið að því.

Fyrir sennilega ári eða meira rakst ég á þetta blogg. Þessi pía tekur hin ýmsustu atriði fyrir í hverjum mánuði, t.d eins og að borða meira kál, henda 100 hlutum yfir mánuðinn, strippa fataskápinn niður í 6 stykki af fötum, mega ekki gera neitt rusl (þ.e verður að endurvinna, setja í moltu eða endurnýta).

Það er þekkt stærð í jöfnunni að ég á erfitt með að halda mig við hluti. Hvernig var það aftur að ég ætlaði að mála eina mynd á hverjum degi, gerði þrjár. Þá ætlaði ég að teikna mynd á hverjum degi í ar og kláraði 3 mánuði, en samt eiginlega bara einn almennilega. Einhverntíma ætlaði ég að hætta að éta nammi fyrir lífstíð, hætti í viku. Þá ætlaði ég að taka ljósmynd á hverjum degi en byrjaði aldrei.

Nú taka við æfingar í að halda sig við hluti og eftirá ætti ég að geta tekið að mér hluti sem krefjast þess að ég hætti ekki, reikna með að ég muni æfa úthaldsþol mitt og þá meina ég ekki líkamlegt úthald heldur andlegt.

Ég er búin að vera að hugsa allan tíman meðan ég skrifa hvort ég eigi að taka mánuð í einu eins og þessi pía og svo hugsaði ég að ég vildi gera mörg í einu yfir einn mánuð, svo margt sem mig langar að gera nefnilega. Þá hugsaði ég að þetta yrði fabulous ár ef ég myndi vera orðin fullkomin eftir eitt ár, þá við að setja mér fyrir hin ýmsu verkefni í mánuði, en rann þá upp fyrir mér að það eru mikið fleiri en 12 atriði sem vantar uppá hjá mér svo ég geti talist fullkomin (haha), eða réttara sagt, það eru mikið fleiri en 12 atriði sem mig langar til að séu betri bæði í mínu fari, hvernig ég hegða mér, hvernig ég hugsa um mig, hvernig ég næri mig og fleira og fleira.

Niðurstaðan, ótrúlega hófleg nota bene (ný hlið á sjálfri mér mætti segja), er að ég ætla að gera eitthvað á dag í viku. Vonandi verður það ekki bara ein vika.. vonandi dettur meira inn. Það sem mér hefur dottið í hug að gera er:

  • Gera yoga
  • Fara út að ganga
  • borða ekki nammi
  • borða ekki kex
  • sofna/sofa ekki með kveikt á afþreyingarefni í tölvunni (gæti orðið erfitt)
  • teikna mynd á hverjum degi
  • flauta á hverjum degi
  • vera úthvíld á hverjum degi
  • hugleiða og biðja á hverjum degi (ég reyndar á reglulegar samræður við vin minn Guð, vantar uppá hugleiðsluna samt)
  • vera þakklát á hverjum degi (ég reyndar geri það nú þegar í formi þakklætisdagbókar)

Svona til dæmis.

Ég ætla hinsvegar að byrja á morgun, mánudaginn 4.nóvember 2013 að búa mér til sjeik úr hollu hráefni einusinni á dag og gera það á hverjum degi alla næstu viku. Til sjálfsþrýstings ætla ég að pósta mynd af öllum sjeikunum hér á dagbókinni minni. Ætla að reyna að taka þetta á “einn dag í einu” tækninni og kalla verkefnið “Sjáum til eftir viku”.