Ég er alltaf að reyna að stela mér tíma til að gera það sem ég vil gera með báðum höndum og af öllum hug. Eins og að skrifa hér inn. Eða hekla eitthvað sem þarf að telja mikið í. Eða fara á klósettið.

Ætlaði nú rétt í þessum töluðu að skrifa eitthva mega gáfulegt og ná því áður en Bjútíbína vaknaði, en það var eins og við manninn öskrað, hún er auðvitað komin á fætur.

Það er allt í lagi. Hún er að tala við ofninn hér sem rúmið mitt stendur upp við. Heldur þar á snuði og bablar við vegginn bakvið ofninn. Einfalt líf og ég öfunda hana af því.

Á daga okkar hefur ekkert mikið merkilegt drifið. Hér er rok og grátt en samt um og yfir 10 stiga hiti.

Ég hef að sjálfsögðu startað gróðrarstöð ársins 2014. Við Fagri settum niður tómata, papriku, rabbabara og jarðaberjafræ hér um daginn og allar tegundir af fræjum eru komnar með fyrsta sprotann. Það er eitthvað svo ánægjulegt að sjá. “En RABBABARA” spyrð þú með augabrúnirnar alveg uppi við hárlínu. Já, rabbabara á svalirnar! Internetið segir að það sé hægt. Ég er að fara að taka container gardening á hærra plan hér í Bella hus. Container gardening á íslensku.. íláts garyrkja, eða pottagarðyrkja.

rabbabari

Sjáðu bara hvað hann er fallegur!

Jamm, hlakka til að skreyta hjá mér veisluborð með rabbabara eða fá mér stöngul og dýfa í sykur, sælla minninga, væntanlega fæ ég ekki kílóavís af uppskeru úr einum eða kannski tveimur pottum af rabbabara. Eða hver veit. Ég skráði mig á biðlista á svokölluðum Urban have hér á svæðinu, dulítið lengra nær Svíðþjóð (eða amk nær áttinni sem lestin til Svíþjóðar fer). Það leið mánuður frá því að ég bað um að vera sett á biðlistann þangað til ég fékk meldingu um að vera komin á listann, ég spurði til baka hvort það væri séns á garði í ár en ekkert hef ég fengið svarið við því ennþá. Bíst við svari í júlí.. þá væntanlega um að ég hafi ekki fengið garð.

Það er alltí lagi því ég ætla bókstaflega að fylla svalirnar, hoho. Í ár munum við s.s planta:

  • Jarðaberjum (prufa af fræi en ég ætla líka að kaupa plöntur)
  • Tómatar
  • Paprika
  • Rabbabari (pottagarða tilraun ársins)
  • Steinselja, krulluð
  • Basilíka, kanil
  • Salvía
  • Oregano
  • Timian
  • Rósmarín
  • Kóríander (hef ekki gert þessa kryddjurt áður)
  • Minta
  • Grænkál
  • Sallat
  • Spínat
  • Ertur
  • Sellerí (önnur pottagarða tilraun ársins)
  • Lúffa (hitabeltis tilraun ársins)
  • Stevía (eitthvað ROSA erfitt að fá fræin til að spíra, gaman að sjá hvernig fer)
  • Skríðandi timian… ! Það leit alveg út eins og blóðberg á myndinni. Ekki þætti mér nú verra að hafa svoleiðis nokkuð á svölunum hjá mér. Á eftir að útfæra hvar ég læt það vaxa.
  • Síðast er einn dúddi sem ég man ómögulega eftir að hafa pantað.. það er lárviðarlaufs tré. Internetið segir að það sé MJÖG erfitt að fá fræin til að spíra og vaxi svo hægt að það sé með ólíkindum. Veit ekki hvort ég hafi þolinmæði í það. Sjáum til.