Reyndar er tíminn ekki til, svona í hinu stærra samhengi. Tíminn er manngerð mælieining og tíminn er afstæður. Tíminn er ekki til hjá Alheiminum tildæmis, því allt er að gerast núna, allt er að gerast í einu. Yfirgripismikil pæling, ég veit. Samt satt.

Er í lagi fyrir mig að breyta tímanum. S.s ákveða sjálf hvaða klukku ég vil fylgja? Alltí læ, alltílæ, ég veit að ég verð að fylgja tímanum í því landi sem ég bý í, ef ég þarf að mæta eitthvað, en ef ég er bara heima í vinnunni og danska klukkan er alveg bara á orginu að segja mér að hún sé sko 10 og ég er kannski ekkert búin að komast til þess að vinna, kannski útaf því að ég fór í ræktina eða útaf því að ég geri stundum húsverk á morgnana. Það er aldrei útaf því að ég fór ekki á fætur fyrr en klukkan 9:30, þá er ég yfirleitt búin að vera á fótum í amk 3 tíma.

Nei, altsvo, ef danska klukkan er skyndilega orðin 10, má ég þá ekki bara ákveða að klukkan hjá mér sé 8 og telja svo daginn útfrá því?

Hvaða máli skiptir það fyrir alla hina? Engu líklega, því tíminn er afstæður og tíminn er minn. Reyndar væri slæmt að ég myndi koma 2 tímum of seint að sækja Bínu á barnagarðinn.. en það er líka í lagi því það er ekki ég sem sæki hana.

Ég er ennþá með tilfinningasalat (mixed emotions) yfir því hvað ég er ekki að finna fyrir því að nýtt ár hafi byrjað. Hef ekki sterka tilhneygingu til að fara yfir farinn veg og gerði enga úttekt á óágæti mínu og hvernig ég ætlaði að vera eiginbetrungur.

Þýðir það að ég er sáttari við sjálfa mig? Ég reyndar er það, þrátt fyrir allt og allt. Vonandi að þeim sem þykir mest vænt um mig líði líka þannig, þ.e séu sátt við mig, einmitt þrátt fyrir allt og allt. Ég á orðið umtalsvert auðveldara með að vera í eigin skinni.

Eins og mér þykir eiginlega sjálfsagt og í raun og veru eðlilegt að ákveða hvað klukkan er hjá mér, myndi mér aldeilis ekki detta í hug að hrófla við dagsetningum eða hvaða vikudagur er. Það myndi setja sístemið alveg úr skorðum.