Mynd tekin að kvöldlagi yfir Reykjaskóla. Það er búið að vera gott veður síðan við komum. Ég grínast ekki. Það er búið að vera logn í Húnaþingi vestra, nánast síðan 7.júlí 2017. Það er, eins og ég hef held ég sagt áður, sennilega fyrir okkur gert, sem svona líka frábær móttökuathöfn. Bara einn og einn rokdagur.

Tvær vikur í internetið er mér sagt. Ég bara get ekki meira af internetleysi heima hjá mér. Ég er verri en börnin. En vil meina að vera mín á internetinu hafi meira gildi en þeirra, þar sem þau eru bara að stara á misgáfulega youtube þætti og þannig bull.

Var búin að segja frá hundinum Flóka sem kom til okkar fyrir hálfum mánuði. Hann var ósköp lítill og væskilslegur. Gerði ekki mikið.. nema náttúrulega að míga inni hjá mér. Hann hefur fitnað til muna og allur farinn að færa sig uppá skaptið. Ég er á fullu að kenna honum að koma til mín þegar við erum úti og bara almennt þegar ég vil að hann komi. Svo er hann í “sestu” og “leggstu” þjálfun. Einnig byrjuð að kenna honum að vera kjur.

Það sem hann hefur lært alveg sjálfur er að byrja að væla til að láta taka sig upp og almennt væla þegar hann vill eitthvað. Ég held að hann sé dekurhundur. Hér eru náttúrulega 6 manns æstir í að knúsa hann og leika við hann.

Þetta er náttúrulega fáránlegasta mynd á jörðinni. Það var þannig daginn sem hann kom heim að hann titraði á fótunum, búinn að vera saman með 7 hvolpasystkinum sínum í stíu í hesthúsi alla sína tíð og koma svo inná tandurhreint (haha) heimili með engum hundi á…. það var bara of mikið. Svo ég tók hann upp og hélt honum í hlýjunni, þú veist, í handakrikanum eða svo.

Litla herforingjanum fannst eins og hann ætti að vera með trýnið inní kjólnum mínum. Man hún eftir því að hafa sjálf legið á túttunni og sá ekki annað eðlilegra í stöðunni að bjóða honum uppá sopa?

Hef reyndar ekki prjónað mikið í sumar. Það er útaf því að ég er ekki með internet. Ég sverða. Mér finnst beinlínis óþægilegt að vera bara að prjóna.. og ekki að nýta tíman í leiðinni í að horfa á eitthvað gáfulegt eða ekki gáfulegt. Hugsa að ég fari samt bráðum að geta afskráð svosum eins og 1kg af lopa bráðum.

Hinsvegar er ég búin að vera á fullu að handlita garnið. Getur kíkt á það allt hér.

Þessi mynd er tekin á leðinni frá Hvammstanga að Reykjaskóla eitt kvöldið í ágúst. Ég er ástfangin uppá nýtt.