Í dag og í gær og í gærgær og óþarflega marga daga þar áður hefur verið bara rok hér í borg baunans. Það komu dagar í endann maí sem voru dásamlegir, samt alltaf doldill blástur en alveg vel heitt svo við fórum m.a á ströndina…

..þar sem litli freki Formaðurinn (Bína).. neineinei, ég elska hana alveg þó ég segi opinberlega að hún sé frek, velti sér svoleiðis um í hafinu. Henni fannst það æði! Var í S-inu sínu fyrir allan peninginn og það var Fagri líka. Hann gróf, sem engum kemur á óvart, holu og svo sátu þau bara í sjónum.

Hún sá ungan mann gera höfuðstöðu (jógastaða) í flæðamálinu og hóf strax æfingaleika í höfuðstöðu fyrir sjálfa sig. Mér fannst nú hálf erfitt að horfa á öldugjálfrið frussast framaní hana hvert skipti sem hún reyndi. Eða kannski hlakkaði í mér, ég man það ekki, þetta var í maí.

Góða verðrið hafði líka mikla svalaveru í för með sér. JI hvað ég elska svalir. Hver fann uppá þessu eiginlega? Í alvöru. Hann/hún ætti að fá verðlaun, líka ef sá hinn sami er löngu dauður.

Ég var að mála úti á svölum og Úngmennið lá í sólbaði og svo eru svalirnar jú fullar af dótaríi, svo það var ekki pláss fyrir hana og hennar teiknidót líka. Ég var að eiga mér 30 mínútur í friði, það var ekki séns að ég hefði gefið þær eftir og pakkað mínu dóti saman. Heyrogendemi hve eigingjörn er eiginlega bústýra Félagsbúsins? Já.. ef það að vera til taks fyrir alla alltaf í 23 komma hálfan tíma á sólarhring en vilja nota hálftíma í að lita þá er það nýja skilgreining orðsins “eigingirni” í orðabók Íslands.

Fundum samt lausn á málinu. Hengdum bara blaðið hennar uppá frystinn sem er úti. Engin furða að hún máli með gulum, svona í allri sólinni.

Við bjuggum líka til ís í öllum hitanum. Þarna er Formaðurinn að setja smúðís inní frysti. Hún tók ekki í mál og þá meina ég að það hefði fyrr frosið í helvíti en að hún myndi snúa lokinu á ísinn rétt.

Ég er opin fyrir því að fólk geri tilraunir, þannig ég leyfði því bara að fara þannig inn. Enginn skaði skeður, var brosefni fyrir alla og ísinn var bara eðlilegur á bragðið.

Úngmennið

Þetta gerðist! Ég er stundum bara svo langt frá því að vera að átta mig á því að hann er 16 og hærri en við. Hann er búinn með grunnskólann, á bara smá próf eftir. Öll hefðbundin kennsla er búin. Þau fóru út að borða á flottan stað. Auðvitað farið í það sem á þessu heimili heitir jakkasett.

Ó hve myndarleg börn ég á ! Í alvöru talað.

Sjá bara hvað hann er flottur.

Og hér líka. Auðvitað hefði ég viljað að ég væri alltaf með rosa vel tekið til heima hjá mér en það var eiginlega of gott til að taka ekki mynd, að það væri nunna í eldhúsinu hjá mér að gera húsverkin.

Á dimmiteringardaginn eru allir í búning í skólanum og sprauta vatni á samnemendur sína í skólanum og kasta karamellum til þeirra. Fagri hlakkaði ekkert smá til, enda elskar hann karmellur. Hann náði mörgum í poka. Úngmennið fór með nunnuvinum sínum og kom rennandiblautur heim.

Að tæma úr þurrvöruskápnum

..gengur furðu vel. Ég er með sjálfsofnæmis “ástand” (get ekki notað orðið sjúkdómur – heitir reyndar Hashimotos), sem ég hef haft í yfir 10 ár (ein ástæðan fyrir að þetta gerist er að kona eignast börn.. hvers á eiginlega konan að gjalda.. verandi aðalatriðið í að fjölga mannkyninu..), sem hefur að gera með að skjaldkirtillinn framleiðir ekki nógu mikið af því hormóni sem hann á að framleiða. Las einhversstaðar að glútein er bara algjört nó, nó fyrir fólk sem er með þetta ástand. Þessvegna bjó ég mér til mitt eigið hveiti og ég myndi pottþétt skrifa hér hvað nákvæmlega var í því ef ég myndi það. En pælingin er að mala t.d haframjöl, sesamfræ, hörfræ (reyndar leiðinda bragð af þeim), möndlur/hnetur og kannski ef maður á kókoshveiti, ríshveiti eða annað mega furðulegt hveiti sem ég er viss um að langamma mín hefði ekki vitað hvað var eða hvaðan kom – s.s mala það í múlínexinu, mala jafnvel fræin í kaffikvörn fyrst og sigta alveg tvisvar og búa sér síðan til vöfflur úr því. Enginn sykur en mikið af smjöri = mjög gott.

Formaðurinn fékk auðvitað líka að elda eitthvað. úr varð þessi frábæri seríos, rúsínu, spínat réttur. Ég átti í verstum vandræðum með að leika þennan leik því hún heimtaði að ég myndi fá mér af þessu. Sem ég hefði ekki átt í neinum alvöru vandræðum með nema fyrir að mest af því sem í réttinum er, týndi hún uppúr hrúgunni á gólfinu, á bak við moppuna, þú veist, þessu sem er sópað saman í flýti yfir vikuna eða eitthvað og svo gengið frá því síðar í ruslið..

 

Á prjónunum

Á prjónunum er þetta sjal. Það er meirihátta litríkt. Ég er að fíla það í ræmur. Það er úr garni úr stassinu. Ég get varla fengið af mér að prjóna úr öðru.

Og þessi lobba gerir mínus enn ein 500 grömmin úr lopastassinu.

Í dag 7.júní er mánuður þar til við eigum flug. Í morgun komu 50 pappakassar til að pakka í. Við erum búin að pakka í 20. Einnig allskonar vakúmpokar. 2,5 vikur í sumarfrí. Húrra fyrir því.