jolapostur

Kannski eru allir byrjaðir að huga að jólaskreytingum nema ég. Ég er nefnilega ekkert svakalega skreytingaglöð ef ég á að segja eins og er og er alltaf mjög sein til að skreyta heima hjá mér. En tíminn líður hratt og kannski ekki úr vegi að í það minnsta byrja að viða að sér hugmyndum.

Ég hef hallast að því síðustu árin að mér finnist handgerðar skreytingar vera skemmtilegri en þær sem eru keyptar úr búð. Mér þykir t.d ógnar vænt um jólaskrautið sem krakkarnir hafa gert á leiksklólanum og í skólanum og þá hluti sem ég hef fengið gefins, oftast af þeim konum sem eru í mínu lífi, ömmu, mömmu, tengdamömmu, systur og frænkum. Það er bara eitthvað við það þegar einhver hefur í gleði sinni (eða ég vona amk að það hafi verið þannig) lagt vinnu sína í að gera eitthvað baaaaaara handa mér. Þá finnst mér ég vera svo elskuð og sérstök :)

Hér eru því örfáar hugmyndir að jólaksrauti sem væri hægt að búa til með auðveldum hætti til þess að skreyta heima hjá sér eða til að skella í eða á jólapakkana.

Ég vildi að það væru fleiri uppskriftir “þarna úti” á íslensku en þessar eru allar á ensku. Ég er búin að setja upp nokkur hjálpartæki hér á síðunni til þess að auðvelda þér að komast í gegnum uppskriftir á ensku.


JÓLATRÉN 
Ferlega sæt jólatré. Uppskriftina að þeim er að finna á síðunni hennar ChiWei á One Dog Woof.

GARN KÚLURNAR
Þessar finnst mér ótrúlega rómantískar og kósý eitthvað, ef maður getur þá sagt kósý um jólakúlu. Leiðbeiningarnar að því hvernig er hægt að gera svona rómó jólakúlur (ég er að sjá þetta fyrir mér í sumarbústaðnum sem ég mun eignast einn daginn..mm jafnvel fyrir ofan arininn) eru reyndar að því hvernig á að búa til krans með svona kúlum, en þarna er amk hægt að sjá hvernig gott er að gera og svo getur maður látið eigið ímyndunarafl ráða hvernig kúlunum er stillt upp.

HEKLAÐIR ENGLAR
Heklaðir englar á jólatréð, eða í gluggann, eða til þess að leyfa að hanga á bókahillunni já eða til að setja utan á jólapakkana. Frí uppskrift af þeim.

JÓLAKÚLUR
Jólakúlur frá engri annarri en Martha Stewart. Ég sé hana fyrir mér, við eldhúsborðið sitt með bros á vör, seint um kvöld að blása upp blöðrur, setja á þær lím og vefja garni um. Útkoman er skemmtileg og fallegt að hengja hvítar jólakúlur á trjágreinar.