20131128_134340_resizedEnn og aftur að verða búin að pakka niður heimilinu. Hef sagt það áður og segi það enn að IKEA ætti að hringja í mig og bjóða mér vinnu við að raða hjá þeim mikið af dóti í lítið pláss.

Síðasti fimmtudagurinn á Birkiteignum rétt að líða undir lok. Fyrir mér er það vel.

Sprengjan hefur verið í S-inu sínu þessa dagana. Einhvern daginn í síðustu viku klemmdist á henni puttinn, bara eitthvað smá, man ekki hvað það var sem gerðist. En í fyrradag hinsvegar var henni orðið eitthvað illt í puttanum og  nöglin að 3/4 orðin laus. Nú, við til læknis, eða hún og Eiginmaðurinn, ég geri mér upp allskonar afsakanir þegar ég vil ekki fara inná sjúkrastofnanir. Lækni leist ekki á blikuna. Úr varð að þau fóru strax daginn eftir á slysló þar sem nöglinni var kippt af. Faðirinn vorkenndi dótturinni svo mikið að hann leyfði henni að vera heima úr skólanum a l l a n daginn.

Þetta var hinsvegar ekki það sem ég ætlaði að nefna á innsoginu heldur atriðið með skærin sem gerðist hér fyrr í kvöld. Það var þannig að hún þurfti að vera með poka um hendina þegar hún fer í sturtu til að bleyta ekki umbúðirnar. Til þess að ná pokanum af ætlaði hún að nota skæri.

Fyrst heyrði ég eitthvað um að þessi fjandans skæri gætu ekkert og svo bara grát og gnístan tanna, já og alveg foss af blóði æðandi útum aðra nösina á henni! Þá hafði hún, á einhvern undarlegan máta,  sennilega jafn undarlegan og þegar hún festi rennilás í innanverðri kinninni á sér, náð að pota skærunum uppí nebban á sér. Ó mig auma.

IMG046

Ekki djók, það er rennilás uppí henni.

Annars er þetta bara búinn að vera venjulegur dagur þannig. Munum klára að pakka á morgun og þrífa kofann og förum svo með dótið á laugardaginn inní Hafnarfjörð þar sem það mun bíða þangað til í janúar, þegar það mun fara sjóleiðis til Kaupmannahafnar.