Þá er internetið loksins komið í kofann. Það er reyndar vika síðan en ég hef verið með því líkan kvíða yfir því að velja úr hvað ég á að segja frá. Svo mikið vesen að mér dettur ekkert í hug.

Líka, hvernig kemur kona til baka á bloggið sitt eftir að hafa látið dónabrandara liggja þar efst í fleiri, fleiri daga?

Alltaf gott að brjóta ísinn með því að tala um veðrið en það hefur einmitt verið með eindæmum gott. Eiginlega allan tíman. Hvað? Var ég búin að nefna það eða? Já, það getur nú bara alveg verið, enda ER búið að vera fádæma gott veður. Ég bara man ekki eftir þessu svæði á þennan máta. Stillan klukkan 6 á morgnana, þegar við Flóki förum út að míga (hann, ekki ég) er eiginlega þannig að loftið er þykkt.

Hingað til hefur þetta allt bara verið gott. Það er tvennt sem ég er ekki alveg að meðtaka ennþá en það er hvernig tíminn líður öðruvísi (hraðar) hér á landi og hve ótrúlega lélegt ávaxta og grænmetisúrval er hérna.. eða aðallega hve óferskt allt lítur út fyrir að vera.. og sjálfsagt er.

Ég veit að við erum á eyju.. en samt.. það er 2017, nei bara segja.

Að tímanum sem svoleiðis flengist áfram. Núna er ég ekki að tala um að ég sé alveg bara, ómægad, það eru bara jól eftir korter, heldur líka meira að segja er dagurinn alltaf bara búinn. Það virðist ekki vera nægur tími yfir daginn til þess að vinna, keyra börn þangað sem þau eiga að vera, borða, stunda líkamsrækt og fá smá tíma til að dunda sér, eða hunda sér ef maður á hund.

Ég er bara á þönum alltaf. Fingurnir ganga eins og herfrelsaðar kerlingar um lyklaborðið í vinnunni og svo þramma ég fram og aftur um risastórt húsið eftir vinnu, hvergi tími til að stoppa. Eiginlega ekki fyrr en dagurinn er búinn, ég er búin og ekkert eftir nema bara fara að sofa og endurtaka leikinn.

ALLLTÍLÆ! ég skal stoppa vælið.

Öllum krökkum gengur vel.

Geðmundur Hái er að fá með eindæmum fínar einkanir, líka þó hann hafi skrópað í skólan í heila viku.. ég treysti því að þú farir ekki með þetta lengra. Málið var að hann fór til Danmerkur á bekkjar hitting, mér fannst það bara alveg brilljant hugmynd. Hann er svo úrræðagóður og svo framkvæmdaglaður.

Úngpíunni gengur líka vel. Stokkin í að æfa píanó, söng og fótbolta. Saknar vina sinna úti að sjálfsögðu. Hún hefur ákveðið að flýja land þegar allir gaurarnir frá DK koma í heimsókn um jólin og fer til vinkvenna sinna og verður þar yfir áramótin. Svo áræðin og sterk. Svo varð hún líka 15 ára á fimmtudaginn síðastliðinn. 15 ára. .. fimmtán. Þetta kemur manni bara á óvart á hverju ári. Árvisst surprise eins og páskahretið, þegar ég sem hélt að sumarið væri bara komið, hehe.

Fagri, passar eins og púsl í púsluspil í lífið úti á landi. Hann er alsæll. Er að æfa píanó og fótbolta (af öllu). Svo indæll og duglegur.

Litli Herforinginn er nánast jafnvíg orðin á dönsku og íslensku. Alveg dottin inní leikskólann. Var ekki að fíla þetta fyrst en núna ríkur hún inn og er glöð þegar ég kem og sæki hana. Hún er smátt og smátt en alveg örugglega að breytast í eldri systur sína hvað varðar gauragang, fyrirgang og fíbblagang. Farin að vera með grín sem saman stendur af því að múna á okkur og hlæja þvílíkum hrossahlátri. En síðan svo yndislega blíð inná milli. Er svolítið eins og að vera með flashback til þess þegar Úngpían var smá.

Annars vorum við á vappi í Borgarfirðinum síðasta laugardag og gengum uppá annaðhvort það er heitir Grábrók eða Grábrókargígur.. það eru tröppur þangað upp. Við tættum upp. Líka Herforinginn. Hún er líka herforingi og herforingjar láta ekki bera sig. Hún meira að segja hljóp upp.

Afmælisbarn fimmtudagsins að festa gönguna á filmu. Hún tekur ótrúlega flottar myndir, þarf eiginlega að fá leyfi til að pósta þeim hér.

Restin af þeim sem komu með, að mér undanskilinni. Sjá bara hvað þetta fólk sem við eigum er orðið stórt. Fagri (Púsli?) nær mér nánast upp að eyra! Og þú sérð nú bara herforingja efnið í Litla Herforingjanum, svoleiðis þrammandi upp allar tröppurnar.

Við Fagri á leiðinni á toppinn.

Og Herforinginn mættur í blómaskónum sínum og með attitjúd.

Afar fallegt um að litast og haustið glimrandi fallegt.

Ekki síður falleg sólarupprás heima hjá mér hér um daginn. Í alvöru krakkar, það er einhverskonar snilld að búa svona úti í sveit.

Aðeins að öðru. Herforingi og hundur. Eða jafn vel hundur og hundur. Hún hefur verið svolítið abbó útí hundinn. Finnst eins og ég og við ættum að vera segja henni hve dugleg hún er við hvert fótmál, eins og við gerum við hundinn. Erum jú að kenna honum hvernig hann á að vera til. Besta verkfærið sem hún hefur til að fá hrósið er að leika að hún sé hundur. Það er hún s.s að gera þarna. Alveg mígandi fyndið. Og sjá þau! Hvert öðru sætara.

Þetta er það sem Eiginmaðurinn hefur verið að gera. Ekki bara þetta reyndar, kem að því síðar. Þessar plómur eru ræktaðar á Hvammstanga í gróðurhúsi einu. Hann bjó til plómueitthvað úr þeim. Ég get ekki spurt hann því klukkan er bara rétt að slefa í 7 þegar þetta er ritað og hann, eins og góðum Eiginmönnum sæmir, stein grjót sofandi. Held chutney.

Og þetta er það sem ég hef verið að bauka við. Lita garnið. En það eru náttúrulega ekki nýjar fréttir.

Húrra fyrir því að hér sé komið blogg, að hjá okkur sé komið almennilegt interfret og þá er barnið vaknað. Gæti ekki passað betur. Var farin að eygja það að leggjast jafnvel uppí rúm aftur og prjóna eða bara slaka á og jafna mig á fartinum sem hefur verið á mér síðan ég pakkaði niður í Danmörku.