Þetta verður aldeilis yfirferðin. Við byrjum í apríl á þessu ári. Ég man ekkert hvort ég var búin að setja eitthvað af þessum myndum inn en samhengisins vegna þá er mér alveg sama.

Apríl 2018

Hófumst handa í Skrúðvangi. Við erum alveg að elska að vera þarna. Geðmundur á einhverskonar stultu-apparati sem fannst í dótinu sem er þarna inni.

Maaaargar stundir í gróðurhúsinu fyrir þessa ungu dömu. Hún er mjög dugleg, dundar og dundar. En er auðvitað síðan bara algjörlega búin með allt geð til dundunar á köflum og ætlar þá alveg að spila út. Að róla í ísköldum apríl með skíðagleraugu er eitt af því sem hún gerði sér til dundurs. Það má sjá útum gluggann að það er snjór.

Mér fannst þetta bæði kaldur, blautur og vindasamur vetur.

Hér gefur svo að líta hvernig var umhorfs eftir síðasta sumar í gróðurhúsinu, fuuuuullt af laufi sem við vorum að puða við að sópa saman og koma út.

Herforinginn málaði myndir með vatnslitum á meðan…

…pabbi hennar notaði ráð undan rifi sínu og einskonar hvað… slægði laufið út úr húsinu – eða ef ég er að fara rangt með þetta orð, dró laufið út með trékassa.

Almennur töffaraskapur og bara lítið lauf eftir.

Þessi hundur.. og þau  bæði.

Mér finnst eiginlega tilgangslaust að eiga hund nema klæða hann í kattabúning. Ef þú erst að spá í hverskonar eiginlega umgengni það er að skilja náttbuxurnar sínar eftir á gólfinu get ég hér með staðfest að þær eru þarna ennþá. Það hefur lengi verið allt í algjörri óreiðu hérna.

Það hófst samt að sópa allt gróðurhúsið, tók ekki nema 3 daga og loka því, s.s setja gler í öll göt.

Maí 2018

Kona hefði getað haldið að það væri bara að koma sumar í sveitina miðað við blíðviðrið sem ég fann hér og þar í maí.

Tekið niðri við höfn á Hvammstanga, algjörlega ljúfur dagur.

Plöntur komu á endanum og þeim var potað í potta. Þarna eru komnar 3 rennur af 9.

Veit ekki afhverju myndin er á hlið.. en þessu vorum við að, að hluta til í snjókomu. Þar fór pælingin um að það væri kannski að koma sumar.. fruss.

Eiginmaðurinn klárar að loka pleisinu á meðan ég skalf á beinunum niðri á jörðinni, ekki af því að mér var svona kalt, ég klæði mig alltaf mikið, heldur útaf því að ég var dauðhrædd um að hann myndi renna niður og hálsbrotna og að það kæmi þá í minn hlut að þurfa alltaf að setja bloddí bensín á bílinn.

Við fengum þrælana þrjá, sá fjórði er ónytjungur þegar kemur að því að planta jarðarberjaplöntum í potta, til þess að hjálpa okkur. Tveir þeirra sem sverja sig til karlkyns voru hörkuduglegir en stúlkubarnið var með eindæmum slappt í vinnu og hefði sennilega frekar valið að þrífa bæði klósettin heima hjá sér heldur en að standa í þessum óþverra.

Allar plönturnar komnar í gírinn.

Og komin blóm :)

Eiginmaðurinn og mini-hann. Þið sem munið hvernig hann leit út þegar hann var 15 eða kannski 17 eða 19 ára, þá er hún alveg eins. Og hárið!

Annað veðurblekkingarkvöld við Hrútafjörð. Þetta er náttúrulaugin hér við fjöruborðið. Ég setti þessa mynd á samfélagsmiðla og uppskar mismunandi viðbrögð. Það sem ég vildi sagt hafa við þann sem fór að baula yfir því að þetta væri nú ekki náttúrulaug, það sæi hver maður að náttúran myndi ekki raða steinum svona eins og þarna er að það er ekki grjótið og hvernig því er uppraðað sem er náttúrulegt heldur heitavatnið sem er bara þarna. Ég gat ekki verið að rífast við óánægða yfir myndbirtingunni þar sem ég hafði birt hana á fésbókarsíðu fyrirtækis sem ég vinn hjá – nenni sko ekki að hafa einhvern interfretbíting á fyrirtækissíðu.. og er með ofnæmi fyrir svona krappi.

Skýjafarið fannst mér fagurt í maí. Í maí var ekki liðið ár síðan við komum og ennþá einhvernveginn að upplifa Ísland á spes máta, þú veist, svona eins og þegar þú hefur ekki verið þar lengi lengi.

Síðasta myndin frá í maí er tekin eftir miðnætti þegar við húrruðum okkur og tveimur óhörðnuðum unglingsdrengjum niður að vigtarskúr Eiginmannsins og máluðum hann gulan, fyrstu umferð. Þurrir dagar hafa heyrt sögunni til og erum við þessvegna ekki búin að setja inn aðra gula umferð. En það verður gert.

Fólk vill láta fjarlægja þennan fádæma fína kofa. Mér skilst að það eigi að setja þarna tvö bílastæði, sel það ekki dýrar en ég keypti – en tvö bílastæði fyrir umferðina sem er hér þegar það er bjart allan daginn – ekki það að umferðin hér er töluverð yfir þennan tíma – finnst  mér samt ekki góð ástæða til að fjarlægja þetta kofaskrifli, það hefur risastórt sögulegt gildi.

Ótal margt hægt að gera í og við kofann. Ætli það sé ekki best að við reynum að púngast til að setja umferð númer tvö á. Þyrfti að klæða hann líka uppá nýtt. Veðraður með eindæmum.

Júní 2018

Í byrjun júní kláraði Frökenin grunnskólann og það með mjög miklum ágætum. Ég er alveg rasandi hissa hvað þau eru ótrúlega fjölhæf, ég meina.. auðvitað er ekki allt sem hún skrifar á íslensku almennilega íslenska.. það er ekki það sem skiptir máli – hún kom, sá og sigraði það að vera síðasta grunnskólabekkinn sinn á öðru tungumáli og í öðru umhverfi en hún er vön. Húrra!

Fékk svo viðurkenningu fyrir frammúrskarandi árangur í dönsku :) – ég var í svo mikilli geðshræringu að myndin er öll óskýr.

Ekki bara þetta heldur tók barnið (já, tel mig alltaf hafa leyfi til að kalla þau börn, sama hvað árunum líður) uppá því að hefja upp gullfallega raust sína og syngja lag með Sam Smith (held ég) fyrir framan bekkjarfélaga sína og alla foreldra í Grunnskóla Húnaþings vestra.

Ég lá bara kylliflöt. Og grenjaði líka. Ég hef ekki leyfi til að setja inn myndbandið, kannski fæ ég leyfi til þess einhverntíma þegar henni er hætt að vera sama.

Vinna við gróðurhúsið hélt áfram. Ennþá verð að pota glerjum á sinn stað.

Þarna búin að þrífa inni. Þetta afgreiðsluborð er þarna síðan í fyrra. Mér finnst það mega flott. Við vorum með litla hugmynd í kollinum sem við erum að vinna í að koma í framkvæmd bara núna.

Þegar Ísland virkar þannig að það getur verið vetur í 3 mánuði eða fjóra og svo haust þar til það kemur aftur vetur er mjög gott að geta verið í sínum eigin útlöndum.

Já og sofandi Herforingi. Hún er líka herforingi meðan hún sefur, það sést bara á henni.

Við fórum að heimsækja hrossin á Auðunnarstöðum. Eitt folaldið var með eindæmum gæft og forvitið, þetta litla gráa.

JEDÚDDA! Hversu sætt.

Flóki var með í ferðinni. Hann kann sig hvergi þessi hundur. Hann er algjör fáráðlingur. Tætti um alla bala, náttúrulega frelsinu feginn, hann verður að vera í bandi heima eða hann mun hrella alla ferða mennina af hjólinu sínu og hann hefur ekki leyfi til að fara í kríuvarpið sem er hérna á næsta túni. Þær myndu líka pottþétt gera útaf við hann. Hann er ekki skarpasti hnífurinn í skúffunni hvað umhverfi sitt varðar. Blessað greyið.

Svo fallegt.

Og þessi litli dúddi !

Gamla kempan sem ræður kom að girðingunni þar sem Flóki stóð á urrinu og létt hann vita hver það var sem ræður báðum megin við girðinguna. Hann er á þessum tímapunkti auðvitað fyrir utan sjálfan sig af bæði móðgun og hræðslu.

Það á ekki af honum að ganga… og hann á ekki að ganga að hrossum.

Litla búðin í gróðurhúsinu að fá einhverja mynd á sig. Veggurinn þarna er reistur bara til þess að loka fyrir ruslið sem er hinum megin. Ss ónýtt gróðurhús og bara almennt rusl. Veggurinn kemur samt ótrúlega vel út.

Þetta er í júní sko.. samt eru öll útifötin ennþá þarna. Eitthvað sem við höfum verið að gera síðustu 10 árin er að skipta um fataskáp um vor og haust. Vetrarföt um vetur og sumarföt um sumar.

Og fyrsti fótboltaleikurinn á HM. Það var keyptur bolur á Herforingjann, hattur á Fagra og Eiginmaðurinn hélt á fána. Hundurinn átti erfitt með sig á þessum tímapunkti. Eiginlega varð hann frávita af spennunni sem hann hlýtur að hafa fundið fyrir. Hann er alltaf að lenda í því að vera viti sínu fjær.

Þetta er land sem Eiginmaðurinn er með andlega standpínu yfir. Hann vill fá það, landið sko og gera eitthvað við það.

Búðin í gróðó.

Fengum síðan lítinn gest og alla hennar fjölskyldu í heimsókn :)

Júlí 2018

Eitthvað að kúldrast og neita að fara að sofa. Sennilega mjög spennt fyrir næsta degi.

.. sem var afmælisdagurinn hennar. Hinn háttvirti 15.júlí. Sjá fegurðina, ég er ástfangin! 5 ára varð hún og faðir hennar um 36 árum eldri en hún. Núna er bara eitt leikskóla ár eftir ( .. það sem ég fagnaði þegar Fagri kláraði sitt síðasta..) – og í vetur verður bara eitt barn frá okkur í grunnskóla. Eldri tvö í framhaldi.

Hún fékk margt góðra gjafa. Hún var búin að tala um dagin síðan á jólunum í fyrra. Hún byrjaði svo þann 16.júlí að fara aðeins yfir það með mér að það færi nú að líða að jólum, hvort það væru ekki pakkar þá líka.

Það var hinn hefðbundni afmælismorgunverður þar sem hún fékk 107 gjafir og Eiginmaðurinn eina frá mér. Hann fékk miða á Guns ‘n Roses tónleikana og við fórum. Það var geggjað.

16.júlí áttum við 7 ára brúðkaupsafmæli og 17 ára samveru afmæli. 17 ár. Það er náttúrulega ekkert miðað við að ég held að amma mín og afi eigi 75 ára brúðkaupsafmæli í ár. Þau eru líka mikið eldri en ég..

17.júlí átti ég sjálf afmæli. Sjitt hvað ég get verið afskipt afmælisbarn. Það var eitthvað ótrúlega mikið að gera þessa dagana í einhvernveginn öllu .. reyndar hefur þetta sumar verið og vor og eiginlega síðan í janúar alltof mikið. Deginum mínum ákvað ég að eyða samt að hluta, mér til gamans, í gróðurhúsinu.

Eitt af því sem ég hef varið tíma mínum í er að lita garnið. Ég er búin að lita og lita og lita og virðist ekki vera neitt lát á. Það er bara af hinu góða tel ég.

Hún er með kex og hann vill fá það. Sjá löngunina í fésinu á honum. Þetta er tekið þann 17.júlí en það var einmitt eini dagurinn í sumar sem var mjög heitur og sól allan daginn. Ég tel það hafa verið afmælisgjöf til mín frá himnum.

Við Herforingi herforingjuðumst útí Skrúðvang og þetta er hvernig það leit út áður en ég málaði slotið.

Takið viljann fyrir verkið, þetta lítur smá betur út, þó það eigi ennþá eftir að snyrta stéttina og rífa upp ógróðurinn þarna við gluggann. Smá snyrtilegra.

Síðan man ég ekki alveg afhverju ég var svo lítið heima að ég var ekki við þegar þessar myndir eru teknar. Þarna eru feðginin í hengirúmi í “skóginum” í garðinum hjá okkur.

Og fyrrverandi örverpið líka.

Sorry, ég á eitthvað erfitt með að nenna að snúa þessum myndum við, en vegna þess að ég er að detta í alvarlega afbrýðisemi útí heimilisföðurinn yfir því hve margar gæða stundir hann hefur haft  með vorum börnum í sumar og ekki ég þá hef ég ákveðið að pota þessari mynd af mér og henni inn.

Það var síðan ættarmót í föðurfjölskyldu minni. Þarna er pabbi minn með yngsta barnabarnið sitt í fanginu og Herforingjann við hlið sér.

Skálað fyrir systkinunum þremur sem eru toppurin á eftirlifandi afkomendum ömmu og afa. Dáyndis ættarmót. Vildi að það hefði verið þannig að við hefðum líka verið í sumarfríi eins og allir hinir sem komu, reynum að hafa það bara svoleiðis næst.

Á ættarmótinu voru um 30 manns, ekkert mjög stór ætt.. eða það er vitleysa, þetta ER mjög stór ætt.. ef frá eru taldar við systur og okkar viðhengi – en við erum s.s ekki mörg. Það er var hinsvegar merkilegt fyrir ekki fleiri mannsveskjur var að á ættarmótinu voru ættarhundarnir allir saman komnir og þeir voru samtals 6.

Hvað er að frétta með myndirnar ? Þetta er inní hinu gróðurhúsinu. Allt í steik þar.

Við erum að vinna í því að kaupa þetta fádæma fallega gróðurhús. Ég er með krossaða fingur að það gangi upp. Þetta er eins og sniðið að okkar draumum. Er ekki einhver með tilbúið hús sem ég gæti flutt bara til okkar og plantað á lóðinni og flutt inní það?.. nei, þúst.. bara ef þetta gengur allt upp, má hafa mig í huga ef það er alltí einu bara hús einhversstaðar í reiðileysi.

Það er kannski greinilegt að gróðurhús og garn hefur átt hug minn allan. Auðvitað voru margar góðar stundir aðrar en þessar myndir gefa til kynna á þessu tímabili – ég verð bara að setjast niður og hugleiða uppúr mér hvað það eiginlega var því, eins og ég sagði, frá því í janúar er bara í móðu fyrir mér.