Ég held því fram og ég hef sagt það áður, enda títtrætt um líkamshár, að líf konunnar væri léttara ef það væri í tísku að vera bara með öll líkamshárin eins og þau koma fyrir.

Það er svosem engin kúnst beinlínis að raka af sér líkamshárin, en það er eftirleikurinn sem er hreinn dauði og djöfull. Allt í lagi á degi eitt en á degi tvö þegar hárin ætla að borast sína leið í gegnum húðina, ó mæ lord, hvílíkur kláði og pirringur og almennur ófögnuður!

Vegna þess að ég er ekki kona einsömul þykir mér þúsundsinnum verra að kippa hárunum af með vaxi. Get eiginlega ekki hugsað mér það og þar fyrir utan þá kostar vax fúlgur fjár.

Það var hér um jólin að til stóð að fara í sund með systur minni, hennar börnum og föður okkar. Til þess að hún myndi ekki ruglast á mér og pabba ákvað ég að raka báða fótleggi frá il og svo upp og yfir nafla. Ég er ennþá að berjast við afleiðingarnar á innanverðum lærum nú að verða mánuði síðar.

Ég vil stofna til nýrrar tísku, að konum beri ekki að vera með nakta húð heldur loðna húð.