Það er þá síðasti í aðbíðu hér á morgun og um leið aðfangadagur jóla. Heitir þetta aðfangadagur vegna þess að við notuðum allan desember og ef ekki fleiri mánuði til þess að viða að okkur aðföngum til þess að geta haldið þetta partý?

Finnst þér eins og það skíni í gegn að ég sé ekki jólabarn?

Það er rétt hjá þér. Ég er ekki jólabarn. Hafði mikið óþol fyrir þeim lengi. Samkvæmt þessu riti (blogginu mínu) hef ég haft jólaóþol frá fyrstu jólum eftir skilnað foreldra minna og þar til árið 2010 – þegar það virtist eitthvað fara að birta til. Reyndar held ég að óþol mitt gagnvart jólunum sé mögulega ekki tengt við skilnaðinn sem slíkan, þó hverju skilnaðarbarni og þeim sem einhvern hefur misst, sé ljóst að jól verða ekki þau sömu eftir það,  -heldur tengt við eitthvað annað inní mér.

Ég er arfa slakur jólaskreytari. Ég er alltaf að gera tilraun til að vera góð í þessu. Fjárfesti m.a í 6 jólaseríum í ár, hvar af 2 þeirra áttu að prýða jólatré í garðinum og hinar 4 áttu að fara í herbergisglugga. Ekkert af þessu fór upp.

Það er kalt og dimmt.. eiginlega dimmara en dimmt í þessum mánuði og í-enda-árs-sammarinn farinn að láta á sér kræla, svona þegar eygir í tækifæri á nýrri byrjun. Sá sammari er pínulítið eins og samviskubitið sem maður fær á kvöldin þegar maður hefur notað allan daginn í að gera eitthvað sem maður vill ekki vera að og líður illa með, eins og að borða of mikið nammi 700þúsundasta daginn í röð (eða auðveldara dæmi er loforðið um að drekka aldrei aftur þegar versta þynnkan gengur yfir) og lofar bót og betrun og ætlar aldeilis að taka á því á morgun í bætingunni.. því ég er algjörlega byrjuð að skipuleggja hvernig ég ætla að breyta ÖLLU til hins betra eigi síðar en þann 1.janúar 2018. Býst við að sjá árangur strax þann 2. jan og ef ég þekki prósessinn rétt þá verð ég gengin frá borðinu 3.janúar og tekin til við að plægja mig í gegnum afgangana af nammi, smákökum, laufabrauði og öllu því, undir því yfirskini að það þurfi að búa til pláss fyrir allt grænmetið sem ég er að fara að kaupa og láta ofaní mig og þeirri firru að “ef þetta er ekki hérna þá borðast það ekki”… en allir vita að það er sjálfsblekking flottræfilsins, því það er bókað mál að bætt verður á birgðarnar strax sama dag, í síðasta lagi á morgun.

Þegar við héldum okkar fyrstu jól eftir fyrsta hollið í DK (árið 2011) var ég að fíla í botn að hafa upplifað jól án þess að vera föst í hinni íslensku jólageðtruflun. Auðvitað er þetta eins úti, altsvo með jólastressið. Munurinn var bara að við vorum ekki í sama umhverfi og venjulega og þurftum ekki að dúndra í bíl hingað og þangað í búðir með blátt og marið veskið eftir ofbeldið sem það þurfti að þola í hverju einasta búðainnliti. Það er hjálplegt, þegar maður vill brjótast útúr vananum að vera ekki í sínu vanalega umhverfi.

Árið 2011 ritaði ég á þetta blogg að þau jólin væru önnur jólin síðan í Nam sem ég væri svona eitthvað í áttina að því að njóta þessa tíma. Þetta hefur farið skánandi, verð að viðurkenna það, en ég er samt alltaf bara að bíða eftir að þetta sé búið. Ég er jafn ötul við niðurrif jólaskrautsins og hve lengi ég er að koma mér að því að sækja bansetta kassana og týna uppúr þeim.

Aðrar pælingar mínar um þetta tímabil kulda og fruntalegs myrkurs:

1.  Afhverju endar árið ekki á 21.desember, á vetrarsólstöðum? Mér finnst eins og það sé meira afgerandi endir á ári. Dimmsti dagurinn. Allt búið. Um 3 tímar frá sólarupprás til sólseturs. Sjitt hvað er dimmt hérna!

2.  Hvenær varð það að jólasið að borða kæsta skötu á Þorláksmessu?

3.  Í alvöru: afhverju 13 jólasveinar og afhverju gefa þeir í skóinn? Þetta er ekki að skapa neitt nema ringulreið í samvisku samfélagsins, örvæntingu og hræðslu fyrir mörg börn (við þurftum að bera til baka að jólasveinninn komi og setji gjöf í skóinn.. eins og sönnum Herforingja sæmir var hún alls ekkert til í að það væri einhver hér inni hjá okkur), alltof mikla spennu fyrir sum börn, óþægilegt hótunaruppeldistól fyrir marga foreldra, ósæmilegar typpakeppnir um hvaða skógjöf var flottust og síðast en ekki síst óþægindin þann 25.desember þegar í ljós kemur að það eru ekki fleiri gjafir í skónum.

4.  Hver breytti þessu í þessa ótrúlegu gjafamartröð? Góðar húsmæður eru byrjaðar í janúar árinu áður að kaupa jólagjafir, útaf því hversu viðamikið verkefni þetta er. Á síðustu dögunum eru margir komnir með magasár fyri því að vera ekki búinn að kaupa allar jólagjafirnar – hvílík kvöð. Eigum við að ræða janúarvísareikninginn? Ekki það að ég hef ekki notað kreditkort í 10 ár, en ég hef heyrt sögurnar.

Jæjahh..

Næstu jól er ég að hugsa um að fara á Tenerife. Hef heyrt að fólk sé að þessu svolítið. Er að hugsa um að gera slíkt hið sama. Fara yfir dimmasta tíman og ná í smá sól og eyða engum tíma í jólastress. Hver kemur með?

Góðu fréttirnar eru síðan að Eiginmaðurinn fékk sér plötuspilara um daginn, gamall draumur að rætast. Hann situr alsæll við tækið. Litli Herforinginn settist líka fyrir framan þetta undur í fyrradag og sat lengi og horfði á græjurnar meðan tónlistin datt af plötunni.

Lord hvað ég er svakalega neikvæð.