Langar að blogga alla dagana og meira að segja búin að taka helling af myndum. Hef frá helling að segja en vandamálið er þetta:

  • Ég finn ekki snúruna svo ég geti sett myndir inní tölvuna
  • Ég er eitthvað á móti því að blogga þegar ég get ekki sett mynd með. Auðvitað skiptir það engu máli hvort það er mynd með eða ekki, bara eitthvað sem ég er búin að bíta í mig.
  • Ég vil svo mikið blogga að ég geri það ekki, svona eins og þegar það er orðið of mikið drasl heima hjá manni og maður getur ekki byrjað að taka til
  • Ég hef frá of mörgu að segja og veit ekki hvort ég á að setja það allt í einn póst eða búa til marga litla. Útkoman er enginn póstur.
  • Ég hugsa stundum um að búa til marga litla pósta svo ég geti þóst hafa bloggað á hverjum degi, sem er markmið sem ég hef sett mér hundrað sinnum en aldrei tekist að ná. Við höfum rætt um það, þú og ég, hvernig ég er í því að ná markmiðum.. það hefur sjaldan eða aldrei tekist.
  • Ég er eitthvað upptekin af því hver eða ekki hver er að lesa þetta blogg. Fyrst er ég alveg.. iss, það er enginn að lesa þetta, ég get alveg skrifað hvað sem er, en svo sé ég alveg á mælitæki sem ég nota að það eru alveg fleiri en 10 sem lesa bloggið, sem þýðir að það er ekki bara mamma mín og pabbi, hin mamma mín og systkini okkar Eiginmanns og kannski einstaka frænka og tvístaka frændi. Þessvegna veit ég ekki alveg hvernig ég á að vera þegar ég skrifa. Þúst, við erum á INTERNETINU! Það sjá mig allir. Eins og að vera allsber. Hver veit nema ég gæti bara móðgað bæði Jón og Gunnu og orðið að athlægi (atlægi..?) á öllu internetinu. Það er auðvitað egóið sem talar, sem er apparentlí eitthvað stressað um hvað öðrum finnst.
  • Og svo finnst mér leiðinlegt að blogga þegar ég er ekki í alvöru heima hjá mér og allt er bara í kössum og ferðatöskum.
  • Mér leiðist líka að blogga einhent, ég gæti nefnilega svo oft verið að blogga meðan Bjútíbína fær sér að drekka, eins og ég er að gera núna reyndar.

En það er flutningsdagur í dag. Það er ánægju efni og gott að flutningurinn er ekki lengra en bara upp í næsta stigagang. Veit ekki alveg hvernig við förum að með rúmdýnu og sófana, það hlýtur að leysast af sjálfusér hér á eftir. Fáum lyklana klukkan 15:30. Vívívóvó hvað ég er ánægð með það.

Halli Lúja.