Við stöndum á einhverskonar tímamótum. Eftir mörg ár af því að vera alltaf öll að fara eitthvað er komið að því að eldri tvö hafa sett fótinn fyrir hurðina, sko þegar við höfum lokað á eftir okkur á leiðinni út, og þau eru ennþá inni.
Það er komið að því að þau vilja frekar vera með vinum sínum heldur en okkur settinu. Ómæ hvað er ellilegt að segja að við séum sett. Settið, gamla settið kannski. Hef aldrei kallað foreldra mína settið, þau eru heldur ekki sett, svona bókstaflega séð heldur, en ég hef heldur aldrei kallað þau eitthvað „gamla“ eða „gamli“, eða „kallinn“ eða eitthvað þannig. Mér finnst það vera svo mikið eitthvað.. eins og að breyta foreldrum sínum í eitthvað sem skiptir ekki máli. En það er kannski bara einhver tilfinningasemi í mér, kannski er foreldrum mínum alveg sama þó ég myndi kalla þau sett. Þau yrðu að vera bolla sett, þau eru orðin svo mörg. Var það ekki börnunum sem átti að fjölga, ekki foreldrum? Jæjahh. Nú er ég komin langt út í vegakannt með þessa sögu.
En við erum s.s á tímamótum og það þýðir að ég verð að senda papparassa (eeeehehehe) á eftir krökkunum til þess að ná af þeim myndum sem ég get síðan bloggað um. Ekki veit ég hvort þeim muni finnast það gaman.
En við sem erum yfir þrítugt í fjölskyldunni og undir 10 ára fórum í göngu hér útí Kongleund. Það er einhverskonar snilld sá garður. Og hér koma nokkrar, eða margar, myndir þaðan.
Getur smellt á fyrstu myndina og flett í gegnum þær stórar.
- Víðmynd af því þegar Eiginmaðurinn fann þennan stað, hann fékk andlega og skynfæralega fullnægingu uppá hól. Þetta ferðalag byrjaði eiginlega þar.
- Skyldi manni leiðast þá er hér listi yfir það sem hægt er að gera ef svo er.
- Í einskonar miðju á þessu svæði var eiginlega svona hálfgert leikverkstæði. Þarna er fólk í kringum borð að búa til skartgripi úr hinu og þessu úr náttúrunni.
- Leggur og skel, tómar dósir og fleira og fleira sem mátti fá lánað og hleypa svo ímyndunaraflinu lausu.
- Hvað er inní stubbunum? Það geta aðeins hugaðir fengið að vita. Fagri stakk hendinni inn en ég þorfði ekki. Við komumst ekki að því hvað þarna væri, því miður.
- Svo lærðum við að kemba ull. Það mátti líka spinna ulla með svona spindilspýtuapparati (man ekki hvað heitir) en það var ekki nógu mikið af ull til.
- Næst leigjum við kannski útilegubúnað á slikk og förum í mini-útilegu.
- Þarna var líka skáli þar sem skoða mátti uppstoppaðar tegundir dýra sem finnast þarna í skóginum. Hvað ætli sé í þessum skáp. Vísbending: það er ekki uppstoppað.
- Það voru þessar vinkonur. Sérðu ekki hvað er þarna? Þetta eru vespur krakkar mínir.. VESPUR!
- Þær voru alveg lokaðar inni en komust inn og út um þetta rör…
- …og út þarna um gatið á veggnum. Hrollur.
- Að sjálfsögðu eru þarna hænur. Mér sýnist þær ekki vera íslenskar en haninn var svaka flottur. Náði ekki mynd af honum. Hann líkist þessum sem er heima hjá afa og ömmu, svona fyrir þá sem þekkja þann hana.
- Og við fengum heimþrá þarna í skóginum. Smá þytur í grasinu (ég elska það hljóð), sóleyjar í túninu, við ein saman með víðáttunni og …
- …lambaskítur. Gott ef ekki við felldum tár í sveitarómantíkurkasti.
- Fagri og Eiginmaðurinn dembdu sér að hitta lömbin. Þau eru öll frekar gæf, og kannski líka svolítið frek… það verður að reyna að gefa þeim strá.
- Svo mátti koma við þær greyin og klappa og knúsa.
- Þarna eru svartir tvíburar sem voru svo pípandi frekir að mér lá við að skamma þá svolítið. Þeir heimtuðu og heimtuðu, voru ágengir og eltu okkur síðan þegar við vorum komin útúr girðingunni.
- Þarna liggur beinn og breiður vegur..
- ..vegur að kúnum. Í vegkantinum eru rósir sem gefa frá sér sætan ilm annað slagið í heitri golunni.
- Við enda ferðar fundum við víkingaskip. Þarna er Fagri í stefninum.
- Í rjóðrum hingað og þangað eru bálstæði þar sem má grilla og sitja á risastórum steinum og gúffa í sig.
- Þessi sofnaði bara með kleinuna sína.
- Og þá fundum við maríuhænu. Það er víst þannig að efitr því hvað þær eru með marga svarta punkta á skelinni, þess margra ára eru þær
- Alveg merkilegt hvað maður getur verið gjörsamlega týndur í náttúrunni en svo er stórborgin iðandi þarna bara rétt í túnfætinum.
- Inngangurinn í víkingaskipið.
- Grillstæði einhversstaðar inní skóginum.
- .. við hliðina á grillstæðinu, einskonar þak. Kannski til að skýla sér komi rigning.
- Virki!
- Inní virkinu er enn eitt grillstæðið. Ég er svo hrifin!
Við þetta gallerí er að bæta að kýrnar sem þarna eru, eru Hereford kýr og sirka tuttugu talsins. Um þær sjá sirka 100 fjölskyldur sem fá síðan kjetið í frystinn þegar þeirra tími er kominn, sem er í ágúst.
Veðrið búið að vera frábært og allt bara í lukkunnar velstandi. Svo eru amk 8 plómutómatar að líta dagsins ljós á svölunum. Ég veit ekki hvað jarðaberin eru mörg, en þau eru mörg.
Leave A Comment