Við stöndum á einhverskonar tímamótum. Eftir mörg ár af því að vera alltaf öll að fara eitthvað er komið að því að eldri tvö hafa sett fótinn fyrir hurðina, sko þegar við höfum lokað á eftir okkur á leiðinni út, og þau eru ennþá inni.

Það er komið að því að þau vilja frekar vera með vinum sínum heldur en okkur settinu. Ómæ hvað er ellilegt að segja að við séum sett. Settið, gamla settið kannski. Hef aldrei kallað foreldra mína settið, þau eru heldur ekki sett, svona bókstaflega séð heldur, en ég hef heldur aldrei kallað þau eitthvað “gamla” eða “gamli”, eða “kallinn” eða eitthvað þannig. Mér finnst það vera svo mikið eitthvað.. eins og að breyta foreldrum sínum í eitthvað sem skiptir ekki máli. En það er kannski bara einhver tilfinningasemi í mér, kannski er foreldrum mínum alveg sama þó ég myndi kalla þau sett. Þau yrðu að vera bolla sett, þau eru orðin svo mörg. Var það ekki börnunum sem átti að fjölga, ekki foreldrum? Jæjahh. Nú er ég komin langt út í vegakannt með þessa sögu.

En við erum s.s á tímamótum og það þýðir að ég verð að senda papparassa (eeeehehehe) á eftir krökkunum til þess að ná af þeim myndum sem ég get síðan bloggað um. Ekki veit ég hvort þeim muni finnast það gaman.

En við sem erum yfir þrítugt í fjölskyldunni og undir 10 ára fórum í göngu hér útí Kongleund. Það er einhverskonar snilld sá garður. Og hér koma nokkrar, eða margar, myndir þaðan.

Getur smellt á fyrstu myndina og flett í gegnum þær stórar.

Við þetta gallerí er að bæta að kýrnar sem þarna eru, eru Hereford kýr og sirka tuttugu talsins. Um þær sjá sirka 100 fjölskyldur sem fá síðan kjetið í frystinn þegar þeirra tími er kominn, sem er í ágúst.

Veðrið búið að vera frábært og allt bara í lukkunnar velstandi. Svo eru amk 8 plómutómatar að líta dagsins ljós á svölunum. Ég veit ekki hvað jarðaberin eru mörg, en þau eru mörg.