Ég hef hafist handa við planið. PLANIÐ. Ætti að skrásetja þetta sem vörumerki, þetta er svo mikið plan. Ég s.s prentaði út mánaðardagatal í stærðinni A2, það er á 8 A4 blöðum (venjuleg stærð af blöðum) – ætlaði fyrst að hafa það A1 sem er helmingi stærra en A2, en sá svo að mér og taldi að 8 A4 blöð límbönduð saman í fruntalega stórt plaggat bara fyrir einn mánuð í einu væri nóg.

Ég gerði fyrir janúar til júní. Þessi blöð eru einkum ætluð svo að við Eiginmaður getum skipulagt aðgerðir í Skrúðvangi. Massívt skipulag. Margir fundir hafa verið haldnir. Margir listar skrifaðir. Margir listar útfrá listum listaðir upp og ennþá er ekki allt skráð.

Næstum allar aðgerðir hafa verið skrásettar og ég, sem hef útnefnt sjálfa mig sem fyrirskipanda og verkefnisstjóra yfir opporeisjón Skrúðvangur á eftir að fylla það inní dagatalið, sem nú spannar hálft eldhúsið. Ég hengdi ss 6 mánuði uppá vegg til að hafa yfirsýn. Það er þá bara þannig sem þetta virkar, hvorugt okkar mun hafa yfirsýn fyrr en þetta er fyrir augunum á okkur allan daginn alltaf.

Yfirsýn? Það er eitthvað sem við lærðum í DK að væri mikilvægt væri að hafa. Eða ég amk. Margir danir hætta við hluti af því að þeir ná ekki að hafa yfirsýn – fyrir með eindæmum framkvæmdaglaðan (framkvæmdagalinn?) Íslending sem frá blautu barnsbeini hefur haldið því fram, og borið fyrir sig sem þjóðareinkenni, að allt reddist einhvernveginn, hjómaði þetta eins og jafnmikil fásinna og sítróna og mjólk sé góð blanda. Á þessum tímapunkti í lífi mínu hef ég tvíeflst í þeirri trú minni að ekkert.. og ég meina ekkert, mun gerast nema það sé planað. Samt hafa opið fyrir hið óvænta, ég er ekki að meina að ekkert nema það sem er planað muni gerast – en ef það er eitthvað sem maður vill að gerist, vill áorka, þá verður að plana það. Ákveða hvenær.

Þessum hundum er sennilega sama um allt plan. Við og Amma L vorum með Söru í pössun meðan tengdabróðir minn og hans fjölla voru úti. Þau, hundarnir, voru stundum of mikið fyrir okkur hin og með eindæmum ergilegt að hafa þau við og fyrir löppunum á sér í slagsmálum allan guðslangan daginn – svo af og til voru þau lokuð af í forstofunni með þurrkgrind. Allir höfðu gott af því. Þeim langaði auðvitað ekki að vera þar en þú veist.. hvað gerir hundur annað en að langa eitthvað.

Eiginmaðurinn í skipulagsfasa. Það er samt eiginlega svindl að það sé mynd af honum með tölvuna þar sem það er alltaf annars ég sem sit með hana og skrifa listana. Kannski var hann eftir allt saman að gera eitthvað annað í tölvunni – en fagur er hann. Lengi lifi sítt hár og skegg! Og fólk yfir fertugt. Yngri líka en í mínum augum eru hrukkur, línur, grá hár, sigin augnlok og aðrar líkamlegar breytingar meðan fólk er ennþá það sjálft og líður yngra en það er (á móti því að líða eldri en það er) aðlaðandi. Vonandi þarf ég ekki að gefa út nýja íslenska orðabók til að lesendur skilji þessa setningu.. meina bara að mér finnst ekki bara æskan falleg.

Ekkert æðislega mikið um snjó hér það sem af er. Ég er fruuuuuntalega ánægð með það. Ég er akkúrat ekkert, EKKERT, fyrir það að ferðast um í snjó. Ég bara er það ekki. En fallegt er þegar það er snjór. Því er ekki að neita. Ég fór ekki út, ég þoli enn verr en að ferðast um í snjó að vera kalt, en Eiginmaðurinn fór með börn yngri og hund og sleða og tók þessar myndir.

Sjáðu bara! Þarna er Fráningur (lastu síðasta póst, Fagri+táningur sem hann er orðinn síðan í gær) með litla Herforingjann á sleða og hundur í eftirdragi.

Við erum búin að vera í frekar löngu jólafríi. Maður lifandi hvað ég þurfti á því að halda. Ég er orðin leið á því að vera þeirrar skoðunar að ég verði alltaf að vera að vinna. Gamalt sem situr fast í mér smá. Að finnast eins og ég sé ekki verðug nema ég sé að vinna. Öðru máli gegnir að ég er, ef við horfum bara blákalt á staðreyndir, mjög virk og vill vera að vinna að verkefnum. Jafnvægi er það sem ég leita að. En jólafríið var langþráð. Hafði planað það viku lengur en ég var en komst ekki vegna vinnu (kaldhæðnislegt ég veit). Ég náði t.d að eiga heilan dag í sófanum að prjóna. Og fara seint að sofa og seint á fætur. EF ég ætti ekki börn sem ég þyrfti að koma á fætur þá myndi ég örugglega fara að sofa klukkan 2 og á fætur kl 10. En fyrst að ég verð að vakna þá fer mér eiginlega best að fara að sofa klukkan 10 og vakna uppúr 6. Öfgar. Eina sem ég vildi að hefði verið í fríinu var ekkert nammikökuát, svo sístemið hefði fengið frí líka, en það voru jól. Það var borin von. Ég skipulegg kannski þannig frí þegar ég held að ég ráði við að láta ekki undan löngun í slíkt.

Meðal annars að prjóna þessa sokkalinga.

Fagri átti ss 13 ára afmæli í gær (föstudag 4.jan). Að venju afmælismorgunmatur. Að honum loknum og þegar hann var búinn að opna gjafirnar fórum við í foreldraviðtal í skólanum. Einkanirnar sem hann fékk voru geggjaðar. 8 -9 í öllu. A í dönsku og C í íslensku – sem er ekki skrýtið heldur eðlileg framvinda miðað við aldur og fyrri störf. Eldra stúlkubarnið fékk líka góðar einkanir fyrir síðustu önn.

Svo indæll pinkill þessi drengur. Duglegur að passa systur sína. Og duglegur að vera til.

Skrúðvangur er það sem við hugsum um núna. Þetta skilti málaði ég síðasta sumar en eins og svo ótalhundrað margt annað sem átti að gera þá, þá komst það ekki útá veg. Eftir að við keyptum Skrúðó þá keypti ég líka almennilegt vegaskilti. Var eiginlega að hugsa mér að fólk myndi koma þangað að versla sér, þá verður það að vita hvert á að fara.

Þetta er heila gróðurhúsið. Þ.e það sem við ræktuðum jarðarber í, í fyrra. Brotnuðu nokkrar rúður í því núna í nóvember eða eitthvað og eitt og annað sem þarf að gera þar áður en við getum tekið það í notkun aftur. Við erum búin að vera að vinna í því svona af og til í fríinu, ekki of mikið, það var jú frí. Svo er það hitt húsið, sem er eins og þetta, en hefur ekki verið í notkun í yfir 10 ár. Þar vantar yfir 200 rúður, koma vatni á það, verka gólfið sem er bara ekkert annað en 500m2 af mólendi sem ég er ansi hrædd um að við þurfum að stinga upp með handafli. Setja upp rennur og borð svo hægt sé að rækta þar inni og milljón aðrir hlutir.

Fyrir utan, s.s á lóðinni í kring munum við líka rækta. Austanmegin við húsið (sko mína, alveg sátt við að tala í áttum) verða beð með grænmeti í og vestanmegin holast niður kartöflur. Það er amk planið í ár að hafa það þannig.

Auðvitað vildi ég fá líka alla mögulega berjarunna og fleira og fleira..

Þá er eftir að telja handtökin inní miðbyggingunni, s.s á milli gróðurhúsanna tveggja. Þar er pökkun, komandi framleiðslueldhús (afar lítið) og búð. Já! Búð. Þar verður ýmislegt til sölu. Hugmyndin er að smáframleiðendur geti komið með vöruna sína og selt. Mér skilst að við fáum egg til sölu næsta sumar og býst við lífrænt ræktuðu keti líka. Garnið mitt verður þar auðvitað líka. Ég get ekki beðið eftir vori. Það sem er gott við þennan vetur er að það er ekki pláss í hausnum á mér til þess að leiðast yfir þessa mánuði, núna er ég að skipuleggja hvað á að rækta hvenær og hvar á lóðinni. Það er með eindæmum góð skammdegisfýlufæla.

Þetta er á bakvið húsið. Sést í gamlan vatnstank og svo til hægri á myndinni er húsið sem ekki hefur verið í notkun í yfir 10 ár. Á milli munum við líka rækta eitthvað.

Það sem ég hef tekið eftir, eftir að ég byrjaði að vinna í gróðurhúsi er, að allt við þessa vinnu tekur langan tíma. Ég var samtals 5 klukkutíma að taka niður heyrúllunet (sést í það á myndinni fyrir ofan) sem lá ofaná rörunum fyrir ofan rennurnar í húsinu, var sett upp sem tilraun til þess að halda fugli frá. Það tók samtals einn og hálfan vinnudag (með barn á hælum sér) að tæma gömlu jarðarberjaplönturnar úr pottunum (sem voru um 1050stk) í hjólbörur og hjóla þeim út í haug úti. Að planta 2000 jarðarberjaplöntum síðasta vor tók líka svaka tíma. Í ár verðum við að öllum líkindum með yfir 6000 jarðarberjaplöntur, fyrir okkur tvö verður þetta örugglega vika. Eða kannski, ég veit það ekki. Það er ótrúúúlega margt sem ég veit ekki við þetta. Það er eitthvað sem ég bæði elska og hræðist. Allir sem eiga gróðurhús að þessari stærð.. sem er lítið sko, sem framleiðslugróðurhús er það mjög lítið, bara 1000m2, ekki gera grín að mér. Ég var bara að byrja.

En það kom mér á óvart og er ekki æðislegt fyrir hina óþolinmóðu týpu sem ég er, að öll vinna í gróðurhúsi tekur langan tíma.