Já, ég á Kitsjeneid. Við fengum hana fyrir ábyggilega 10 árum, þá er ég nú orðin reynd húsmóðir, ekki satt?

Já, ég á Kitsjeneid. Við fengum hana fyrir ábyggilega 10 árum, þá er ég nú orðin reynd húsmóðir, ekki satt?

Hvaða heilvita manneskja sem á hrærivél með hnoðara er enn að hnoða í höndunum?

Áður en ég komst að því að það er fáránlegt að nota ekki hnoðarann sem er á hrærivélinni minni hélt ég því fram að það væru aumingjar sem myndu láta vélar gera hlutina fyrir sig, að það væri alvöru dyggð í því að standa sveitt milli rasskinnanna við of lágt eldhúsborðið, með illt í mjóhryggnum og deig á öllum puttum og undir giftingahringnum og undir öllum nöglum og hamast á einhverri hveitiklessu. Dauði og djöfull að þrífa borðið eftirá. Svo þarf að ryksuga og skúra og ég veit ekki hvað og hvað því allt hveitið þyrlaðist upp um allt og útum allt.

Einhversstaðar las ég, sennilega hjá einhverri sem hefur fengið einhverskonar höfuðhögg, að það væri tilvalið að svitna svolítið yfir því verkefni að hnoða í brauð, þú veist, til að nota sem líkamsrækt… ég veit það ekki, er ekki bara fínt að fara í göngutúr eða eitthvað, stunda kynlíf, frekar en að nota deighnoðslu (hehe) fyrir líkamsrækt?

Ég er nú orðin svo mikil nútíma kona að ég er líka hætt að skera lauk. Núna nenni ég frekar að vaska upp múlínexið heldur en að svíða í augun og grenja yfir að skera laukinn. Tala nú ekki um hættuna sem mínir dýrmætu fingur eru í, þegar ég, blinduð af tárum munda flugbeitta eldhúshnífinn (Eiginmaðurinn er kokkur, hann er alltaf, ALLTAF, að stála) til þess að skera laukinn, sem allir vita að getur verið flugháll. Í múlínexið með laukinn og hann er saxaður á núll einni.

Í tilefni af þessu hendi ég hér fram uppskrift af brauði sem ég baka stundum og hnoða í hrærivélinni minni.

  • 4dl sjóðandi heitt vatn
  • 2dl ísköld yogurt, súrmjólk eða AB mjólk. Ábyggilega hægt að nota mjólk líka.
  • Eitt bréf af þurrgeri
  • 2tsk sjávarsalt, kannsk þarf nett minna af venjulegu salti?..þú metur það bara
  • 2msk sykur eða hunang eða annað sætt sem þú ert sátt/ur við að setja í brauðið þitt
  • 2 dl rúgmjöl
  • 12 dl hveiti.. svona ca
  • (1msk chiliflögur)

Vatn og mjólk saman í hrærivélaskálina og gerið útí það. Leysa það upp og hræra aðeins og bæta svo sykrinum við, þú veist, svo gerið fari að gera sig. Ég bíð stundum aðeins og læt gerið virka, ekki af því ég er svo klár í eldhúsinu, heldur af því að ég sá það einusinni í sjónvarpinu að það væri gott að gera það.

Nú, þá má húrra öllu hinu útí. Málið með þessa uppskrift er að ég á ekki salt í dag. Það var klárað í gær og enginn nennti útí búð. Þessvegna prufaði ég að setja msk af chiliflögum til að gefa bragði (lesist: fela gerbragðið). Ég veit ekki hvort það er gott eða ekki, brauðið er enn að hefast.

Þá, þegar búið er að húrra rest oní skálina, þá á að hnoða vel og lengi með hnoðaranum (hjá mér heitir það j-ið). Ef þú hefur ekki verið mikið fyrir að hnoða, þá finnst þér þetta sennilega svakalega langur tími í hnoðun.

Ég læt það hefa í klukkutíma eða þar til ég man eftir því næst, undir viskustykki. Ég set yfir það svo það komi ekki flugur og verpi í deigið.. það heyrði ég hjá Eiginmannium að gæti gerst, held hann hafi það úr fyrrnefndu sjónvarpi sem allir eru alltaf að horfa á.

Svo, eftir því hvort ég geri bollur eða heilt brauð, þá baka ég í svona 30 mín (á 180°c) og uppúr, lengra fyrir heilt brauð. Ég hnoða ekki aftur, en ég læt hefast aðeins eftir að ég hef mótað bollur. Eiginlega bara svo ég fái stærra brauð.

Er að hugsa um að hrinda af stað hreyfingu fyrir húsfólk (húsmæður og feður) sem vilja láta hnoðarann hnoða og hnífinn í matvinnsluvélinni skera fyrir sig.

Uppfært 19.09.2014: Það var sagt mér… djók, mér var sagt að það vantaði germagnið í uppskriftina, ég er búin að bæta því við.