Ég er alltaf að reyna (rembast öllu heldur) að vera hin fullkomna húsmóðir. Við þurfum bara að horfast í augu við þá staðreynd að ég elska að fá hrós, ég er hrósfýkill og þessvegna hef ég ekki getað hugsað mér að gera pítubrauð. Það hefur alltaf litið út eins og verkefni sem er  dæmt til að mistakast.

Reyndar hef ég þrisvar prufað að búa til pítubrauð og í öll skiptin, eins og mig grunaði, þá mistókst það. Pítubrauðin voru of lítil og það kom aldeilis engin hola í þau. Svo voru þau með vatnshveitibragði, það er aldrei gott.

EN! Undur og stórmerki gerast enn. Ég fann uppskrift að pítubrauðum og þar sem mottó ársins er “just do it” þá gat ég ekki undan skorist.

Uppskriftin hljómar svona:

3 dl volgt vatn
1msk ger (þurr)
1tsk salt
7-8 dl hveiti

S.s algjört beisikk brauðdeig.

Aðferðin er að láta gerið bíða í 10 mínútur í volgu vatninu, bæta þar á eftir í salti og 3.5 dl af hveiti og láta hnoða (ef þú ert diggur lesandi þá veistu afhverju ég segi láta hnoða), bæta svo 3.5 dl af hveiti við og meira ef þurfa þykir. Deigið á ekki að festast við fingur en samt ekki vera of þurrt. Hnoðist í 5 mínútur. Deigið er alveg lungamjúkt.

pitubraud1

Þá er deiginu skipt í 6-8 hluta og hverjum hluta breytt í bollu, hver bolla er síðan flött út þar til hún er hálfur cm á þykkt (svona sirka).

Og nú kemur að leynitrixinu!

Látið útflöttu bollurnar hefast á hveitistráðu borði í 40 mínútur. Hitið ofninn í 200°c á blæstri eða 220°c á undir/yfir hita.

Takið svo spaða og raðið bollunum á bökunarplötu (með bökunarpappír á) en með þá hlið sem sneri niður, upp. Þannig að sá flötur á bollunni sem var við borðið á núna að snúa upp.

Bakið í 10-15 mínútur, eða þar til gyllt.

pitubraud

Ekkert ves. Það kom hola og pítubrauðin voru bara í þeirri stærð sem þau litu út fyrir að vera þegar þau voru sett inní ofn. Ekkert eitthvað rugl eins og að smyrja ofnplötu með smjöri (drepið mig ekki!) baka í 3 mínútur á 250 og svo í 4 mínútur á 200 strax á eftir…. ég veit ekki með þinn ofn en minn ofn er ekki kominn 50 gráður niður á núll einni.

Þetta heppnaðist svo ljómandi vel. Verst að það var ekki til nein pítusósa hér. Við létum okkur hafaða bara.