arna-og-pabbi-i-metro

Bjútíbína og Eiginmaðurinn. Ó hvað þau elska hvort annað.

Ég veit eiginlega ekkert um börn á Örnu aldri. Hún varð 9 mánaða í gær. Eða þú veist, ég veit hvað það er að vekja og svo svæfa svona gömul börn en ég hef ekki vitað hvað þau gera á daginn fyrr en núna.

Hún er samt fjórða barnið mitt! Hvernig má það vera? Jú, ég nefnilega hef ekki séð um börnin mín á þessum aldri. Það hef ég keypt þjónustumanneskju til (dagmömmur) að gera svo ég geti verið að sinna framanum (HAHAHAH.. hvaða frama..).

Ég bara get í dag alls ekki skilið að ég hafi viljað fara og vinna í einhverju ómerkilegu djobbi á meðan þau voru á þessum aldri, þvílíkt sem ég er að njóta þess að vera með henni. Það er hreint æði og þvílík blessun. Bara það eitt gerir þetta rót með flutninga hingað og þangað alveg þess virði.

Vissi t.d ekki að börn á hennar aldri tala. Ekki alveg mannamál, en þegar ég t.d kalla á krakkana, segjum Sprengjuna, þá gólar hún á eftir ” UaaaAAA!!!” (Sunneva).

Hún er ennþá mikið á brjósti, með tvær tennur. Ég hef heldur ekki verið svona lengi með barn á brjósti og get hér með vottað að það er verra að vera bitinn í geirvörtuna heldur en að fæða barn.

Svo borðar hún reiðinnar bísn af sokkaskít. Þessu svarta sem kemur úr sokkum strákanna. Við Sprengja göngum ekki í svona forkunnar ljótum sokkum að það sé bara slóðin eftir okkur af sokkadrasli. Hún setur bókstaflega allt uppí sig. Hvert einasta snitti. Alla mylsnu. Hún er eins og að vera með hund. Fer alltaf og hreinsar undan eldhúsborðinu þegar maturinn er búinn.

Af þessu tilefni hef ég ákveðið að búa til nýjan málshátt, í tilefni páskanna þetta árið. Maður veit ekki hve mikið er af sokkaskít á gólfinu fyrr en skríðandi barn hefur.

Bjútíbína er líka alveg einstaklega brosmild. Þannig að það sem hún gerir er að brosa, borða sokkaskít, fá sér sopann og knúsa okkur hin í fjölskyldunni. Æði. Það eru allir hrifnir af henni :) Hún bræðir alla í strætó og lest og allstaðar þar sem við komum. Bara svo dejligt að vera partur af því að sjá hvernig fólk lýsist upp í andlitinu við að fá frá henni bros. En hvað við erum heppin.