Það er bara þriðjudagur og hápunkti vikunnar er þegar náð!

Eins og æstir aðdáendur mínir vita þá hef ég haft atvinnu af því að skúra. Ég hef skúrað með skóla, skúrað sem aðalatvinna, skúrað með vinnu og síðustu 2 árin hef ég skúrað þegar sá sem ég skúra hjá hefur þurft á afleysingu að halda. Það hefur verið frá engu skipti í mánuði uppí tvær vikur í senn, eins og núna.

Á morgun er síðasti skúringadagurinn í þessari törn.

Þegar ég skúra er ég vanalega í alvöru skúringadömubúning. Nei, ég er ekki í snípstuttu þröngpilsi með svuntu niður að kuntu. Ég er í íþróttabrók (fjólubláar í dag), jafnan í íþróttaskóm (þessum appelsínugulu) og í dag var ég í húrrandi bleikum ermalausum bol. S.s Fjólubláar síðar hjólabuxur, appelsínugulir skór og vínrauðir röndóttir sokkar og svo bleikur ermalaus bolur. Ég þræði símann undir bolinn minn og geymi hann í buxunum og hlusta á bækur á meðan ég skúra.

Þetta eru náttúrulega engar heimilisskúringar heldur fleiri hundruð fermetrar, sennilega 40 skrifborð amk 7 klósett, þessu þarf öllu að þurrka af, taka rusl og svo enda ég á því að ryksuga með svona iðnaðarryksugu.

Ég segi þetta bara til að þú áttir þig á því að ég var í afar illa litasamsettum búning, með úfið hár, rennandi sveitt (svitablettir í bolnum og allt) og lyktandi eftir því, eldrauð í framan, enda fruntalega gott veður úti og þetta er afar þurr skrifstofubygging.

Samt, kæru aðdáendur, samt,  tók maður sem vinnur í þessu háttsetta fyrirtæki, sig saman í andlitinu og spurði mig, þessa í öskudagsbúningnum með svitablettina, hvort ég hefði áhuga á að fara og fá mér kaffi með honum.

Altsvo! Krakkar! Í fyrsta skipti á ævinni var mér boðið á stefnumót, sko af einhverjum sem ég þekki ekki baun. Það var nú upplifun útaf fyrir sig, verandi 37 ára, gránandi með hverjum degi sem líður og náttúrulega harðgift til margra ára. Ég varð svo hvumsa að ég sagðist ekki drekka kaffi og bar svo upp einhverja klaufalega afsökun fyrir að geta ekki komið í kaffi… væri eitthvað upptekin. Hann ábyggilega 10 ef ekki 12 árum eldri en ég.

Eiginmaðurinn óskaði mér til hamingju með árangurinn.