.. ég veit að mér ekki vel við að nota pening ef ég hef slysast til að eignast töluverðan slatta. Mér finnst auðveldara að eyða 9500 kalli ef ég á bara 10.000 og eiga bara 500 eftir heldur en að nota 9500 af t.d 100.000. Er það ekki pínu.. þú veist.. öfugt?

..ég tek út fyrir að punga út fyrir einhverju sem ég veit að ég hef fengið ódýrar þegar ég var í DK. Hvað þá að opna budduna og láta henni blæða hér á landi þegar ég veit ég get pantað það ódýrar af netinu.

..ég er með öllu fyrirsjáanleg og finnst erfiðara að eyða seðlum heldur en af kortinu.

..mér er illa við bankakerfið. Þoli ekki að ég EIGI að nota það. Er ekki að meika að mega ekki bara ekki vera viðskiptavinur. Bankinn og Facebook hefur sama yfirbragð, eins ólíkt og má virðast en ef þú ert ekki með banka/heimabanka þá geturðu ekki fengið mikilvæg skjöl og reikninga í hendur og ef þú ert ekki með Facebook þá geturðu ekki fengið allar nauðsynlegar upplýsingar sem þú þarft að fá vegna framhaldsskóla, grunnskóla, leikskóla, tónskóla, íþróttaiðkunar og áhugamála barnanna þinna, né neins sem kona ákveður að taka þátt í eða vera partur af. Í Danmörku (nei, ég lít ekki á DK sem fyrirheitna landið sem ég vil leynt og ljóst flytja til aftur, þetta er bara til upplýsingar) er til svona portal þar sem þú færð öll skjölin þín. Þú þarft ekki að skrá þig sérstaklega inn á einhvern innri vef hvers sveitarfélags fyrir sig eða neinar aðrar “mínar síður” inná vef opinberra stofnanna – allt á einum stað sem við kemur hinu opinbera og banka.. og reyndar þeirra fyrirtækja sem kjósa að senda skilaboð til manns í gegnum þessa gátt.

Talandi um. Þegar við fórum frá DK árið 2011 þá var ekki hægt að senda tölvupóst á fyrirtæki því svarið barst alla jafna ekki fyrr en 3 vikum síðar. Þegar við komum aftur í byrjun 2014 þá var nánast allt, vil leyfa mér að segja svona 95% pappírslaust og upplýsingar á vefsíðum orðnar svo ítarlegar og spjallkerfi á vefum og tölvupóstsvartími orðinn svo skilvirkur að það tók lengri tíma að hringja og bíða eftir svari. Bókhaldið sem ég hélt utanum fyrirtækið úti var allt pappírslaust. Umsóknir um allt fóru fram stafrænt. Ekkert prenta út, undirrita, skanna inn og senda.

Mér finnst í alvörunni að það eigi að vera til banki sem heitir ekki banki heldur bara sparigrís eða jafnvel bara Grís svo hann skæri sig eins mikið frá banka og hægt væri en gæfi samt til kynna um hvað væri að ræða – þar myndi ég vilja að viðskiptavinurinn gæti fengið launin sín greidd inn, reyndar finnst mér líka að það eigi að vera í boði, svona yfir höfuð, að fá launin sín bara greidd í peningum í umslagi. Svo ætti viðskiptavinurinn að geta verið með sparireikning og ekkert síðan. Það væru engin lánaviðskipti og þar af leiðandi engir vextir. Hvað með sparireikninsvexti? Nei, bara ekki. Þetta væri bara svona sparigrís sem héti Grís og mottóið væri “er það sem það er”.  Þannig ef ég leggði inn 5000 þá ætti ég 5000 þar inni. Ekki alltí einu 4593 af því að ég þarf að borga fyrir að neyðast til að nota banka. Sömuleiðis ætti ég heldur ekki 5001 eftir árið þegar vextir yrðu greiddir út en það er heldur ekki mottó nýja bankans míns að bæta við fé notendanna… þú heggur eftir að ég segi notandanna en ekki viðskiptavinanna því það eiga sér ekki stað nein viðskipti.. er bara peningageymsla.

Mér er samt mjög vel við allt starfsfólkið í bankanum hér á neðri hæðinni þar sem ég vinn.

Er ekki að fara að koma vor?