Hefurðu einhverntíma lent í því að ætla alltaf að fara að gera eitthvað og svo verður jafn erfitt að koma því í verk og að kenna páfagauk að pissa á einum stað í búrinu sínu ?

Og svo, þegar það er ekki hægt að gera það sem þú ætlaðir að gera, þá langar þig það svo mikið að þú getur nánast ekkert hugsað annað.

Þannig líður mér með að það er ekkert internet þar sem við eigum heima, ætlaði alltaf að blogga en nú get ég það ekki. Bara róleg öllsömul! Við fáum interfret, en mögulega ekki fyrr en eftir mánuð eða aðra álíka herfilega tímalengd. Fruss.

Reyndar.. þá er að myndast svakalega góð stund á kvöldin svona meðan við erum ekki með neitt net, krökkunum finnst þetta svolítið erfitt sko, leiðist svolítið, en ég vorkenni þeim ekki baun í bala og er að njóta þess að dagurinn er eins langur og hann er. Það kannski veit ekki fólk sem á ekki börn sem alast upp með internet eins og vatn væri, að þegar það er ekki til staðar þá dettur maður oní einhversskonar dýpri skilning á lífinu eða aðra vídd. Veit ekki hvort.

Þessvegna lítið um bloggerí – er að stelast í vinnunni. Yfirmaður minn (ég) hefur lofað að skamma mig ekki mikið komist hún aðessu…

Stórað á stiklu

Í fyrradag opnaði ég garnbúð. Finnst þér eins og þú hafir heyrt mig segja þetta áður, deisjavú? Jú, rétt, lét mig ekki vera þetta með garnbúðina og nú er Vatnsnes Yarn komið í sölu hér. Ég handlita allt garnið, alveg hreint ótrúlega gaman. Salan rauk alveg í gang – ég er alveg rasandi hissa.

Ég og samferðamaður minn (lífsförunauturinn, elskuhuginn, eiginmaðurinn, barnsfaðir minn, einkabílstjórinn) ákváðum að fá okkur hund. Hann kemur til okkar von bráðar.

Erum alveg flutt útá Reykjaskóla. Ekkert húsnúmer, ef þú vilt kíkja við, verðuru að banka á öllum hurðum þangað til þú hittir á rétta, get sent þér mynd ef þú mannst ekki hvernig við lítum út. Erum ennþá að þrífa þar og reyna að finna útúr því hvernig á að haga sér þegar allir í fjölskyldunni hafa sér herbergi OG það er líka stofa/borðstofa, eldhús, forstofa, tvö klósett, búr og þvottahús.. allt innan sömu fjögurra veggja.. og þar fyrir utan er hjúmöngús garður (í tótal órækt – ég er að fílaða) og bílskúr. Maður bara…

Stór plön um hænurækt á Reykjaskóla.

Gott ef við erum ekki bara að íhuga að byrja búskap. En það yrði enginn venjulegur búskapur, það yrðu geitur, kameldýr og krákur. Og náttúrulega hinn væntanlegi hundur – hann yrði þjálfaður til að stía í sundur krákurnar og kameldýrin ef til óláta kæmi.